Skip to main content
search
Fréttir

Svíþjóð – Sænskar lesbíur fá brátt að gangast undir tæknifrjóvgun

Frettir Sænsk stjórnvöld munu brátt leyfa samkynhneigðum konum, sem búa í staðfestri samvist, að gangast undir tæknifrjóvgun. Sænska ríkisútvarpið skýrði frá því í dag að ríkisstjórnin muni í vikunni leggja fram lagafrumvarp þessa efnis.

Samkvæmt sænskum lögum mega aðeins konur sem eru giftar eða í sambúð með karlmönnum gangast undir tæknifrjóvgun. Það hefur hins vegar verið baráttumál samkynhneigðra kvenna að fá einnig að gangast með löglegum hætti undir slíkar aðgerðir.

Í útvarpsþættinum Ekot var haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins, sem nýtur stuðnings Vinstriflokksins og Græningja, hafi samþykkt að leggja fram lagafrumvarp á fimmtudag og gert sé ráð fyrir að þessar breytingar taki gildi 1. júlí.

Ekot segir að samkvæmt frumvarpinu fái lesbíur í staðfestri samvist sama aðgang að mismunandi frjóvgunarmeðferðum og gagnkynhneigð pör. Þegar barnið fæðist fái báðir aðilar réttindi móður.

Gangist samkynhneigð kona hins vegar undir tæknifrjóvgun utan Svíþjóðar þarf félagi konunnar eftir sem áður að ættleiða barnið til að fá réttindi foreldris.

-mbl.is

Leave a Reply