Skip to main content
Fréttir

Að koma út

By 26. apríl, 2006No Comments

Er óeðlilegt að gera sér ekki grein fyrir samkynhneigð sinni fyrr en um þrítugt? Ég veit að þetta er flókin spurning en hversu erfitt er að koma út úr skápnum? Spurt: Er óeðlilegt að gera sér ekki grein fyrir samkynhneigð sinni fyrr en um þrítugt? Ég veit að þetta er flókin spurning en hversu erfitt er að koma út úr skápnum? Verður það auðveldara með því að bíða eða á maður bara að kýla á það? Þarf maður að „koma út úr skápnum“ eða er þetta ekki bara eitthvað sem gerist í framhaldi af viðurkenningu eigin kynhneigðar? Takk fyrir.

Svarað: Maðurinn er alla ævi að öðlast þekkingu og skilning á sínum innri manni. Sjálfsmyndin breytist stöðugt, frá vöggu til grafar, og margt í innsta eðli mannsins er honum hulið langt fram eftir ævi. Sumir komast jafnvel aldrei til teljandi skilnings á sjálfum sér, en yfirleitt mótast sjálfsmynd manna í öllum meginatriðum á fyrstu 20-30 árum ævinnar. Satt að segja er það næsta sjaldgæft – eiginlega ótrúlegt – að gera sér ekki alls enga grein fyrir eigin kynhneigð fyrr en um þrítugt, ekki síst á okkar dögum þegar umræða um þessi mál er tiltölulega opinská. Það sést best á því hversu margir átta sig á kynhneigð sinni og horfast í augu við hana strax á fyrstu árum kynþroskaskeiðsins.
Samt sem áður er það algengt að fólk bæli niður hinn samkynhneigða þátt tilfinningalífsins langt fram á fullorðinsár og afneiti honum, en horfist fyrst í augu við eigin samkynhneigð árum og áratugum eftir að unglingsárum lýkur. Margir segjast hafa vitað af þránni til eigin kyns frá því í æsku en lagt mikið á sig til þess að halda aftur af henni. Fannst þér ekki skemmtilegra að horfa á þitt eigið kyn á unglingsárunum en hitt kynið? Í hópi þeirra sem bæla niður samkynhneigð sína eru fjöldamargir sem eignast maka af gagnstæðu kyni og börn. Þessu fólki reynist oft mjög erfitt að játa samkynhneigð sína fyrir sjálfum sér og heiminum því að það leiðir óhjákvæmilega til átaka í tilfinningalífinu og uppgjörs við nánustu ástvini. En þeir sem hafa staðið í þessum sporum kunna frá því að segja að uppgjörinu hafi samt fylgt ólýsanlegur léttir og að þeim hafi þótt sársaukinn sem fylgdi uppgjörinu þrátt fyrir allt betri kostur en það að þurfa að leyna sínu innsta eðli til dauðadags og iðka ástir með eigin kyni í meinum. Eftir á að hyggja skilja fæstir hvernig þeir gátu hugsað sér að leyna tilfinningum sínum. Því þegar menn hætta að leika eitthvað annað en þeir eru þá uppgötva þeir mikinn létti, lífsgleði og orku til athafna sem var þeim áður óþekkt.

Það er engin leið að segja til um það hversu erfitt reynist að „koma úr skápnum“. Varla þykir nokkrum það auðvelt en sumir ganga í gegnum það ferli að segja sínum nánustu vinum og vandamönnum allt af létta á skömmum tíma og geta svo farið að snúa sér að því að byggja upp lífið með breyttum formerkjum. Oft hefur þessari reynslu verið líkt við dæmigert sorgarferli. Ættingjar og vinir kunna að afneita staðreyndunum, fyllast reiði, sorg og vanmætti, rétt eins og þeir hafi orðið fyrir ástvinamissi, síðan kann að taka við sterk blygðunarkennd en að lokum sættast þeir yfirleitt smám saman við staðreyndirnar og það sem mestu máli skiptir: Þeir læra að virða tilfinningar hins samkynhneigða. Ef þú finnur hvöt hjá þér til þess að koma úr felum með samkynhneigð þína þá er eins líklegt að þú gangir í gegnum eitthvað þessu líkt gagnvart ástvinum þínum. Láttu þér ekki bregða. Við höfum öll reynt eitthvað svipað. Þetta ferli tekur stundum fáeina daga, stundum mörg ár.

Því má heldur ekki gleyma að hommar og lesbíur ganga sjálf í gegnum svipað ferli og aðstandendur þeirra, en þegar þau treysta sér til þess að segja nánustu fjölskyldu og vinum allt af létta er þessu átaka- og sorgarferli þeirra yfirleitt að ljúka. Yfirleitt getur hinn samkynhneigði mælt það á sjálfum sér hvar hann er staddur á þessu ferli. Sá sem segist vera ósáttur við kynhneigð sína er kominn skammt á veg, sá sem segist vera sáttur er kominn lengra en á talsvert í land í leit að sjálfsvirðingunni. Sá sem segist vera ánægður með kynhneigð sína er sennilega kominn í höfn. Mundu að það ekkert óeðlilegt við það að vera ánægður með samkynhneigð sína, nánast allir gagnkynhneigðir myndu segjast vera ánægðir með kynhneigð sína og líta á hana sem eðlilegt mál. Það eru mannréttindi þín og forsenda lífshamingjunnar að líta sömu augum á samkynhneigð þína.
Að bíða með það að játa eigin samkynhneigð fyrir heiminum eftir að fólk er orðið margfullorðið getur varla talist auðveld og þægileg leið en auðvitað er ómögulegt að svara þessu nema þekkja persónulegar aðstæður fólks. Fólk verður að segja okkur eitthvað um persónulega hagi sína til þess að hægt sé að svara af einhverju viti. Um þig vitum við, ritstjórar vefsíðunnar, ekki neitt, hvort þú ert karl eða kona, hvort þú býrð í dreifbýli eða þéttbýli, hverjar fjölskylduaðstæður þínar eru o.s.frv. Margir samkynhneigðir sem hafa stofnað hefðbundna fjölskyldu fresta því stöðugt að koma úr skápnum og bera fyrir sig hag og velferð barna sinna. Stundum kann það að vera rétt ákvörðun en oftast mun raunin vera sú að með því að sveipa þrár okkar og ástarlíf þögn þá særum við afkvæmi okkar. Síðar meir finnst þeim það einfaldlega niðurlægjandi að við, hin samkynhneigðu, skyldum ekki þora að sýna þeim trúnað og einlægni um okkar hjartans mál en kjósa að þegja árum saman.

Svo mikið er víst að það að koma úr skápnum gerist ekki sjálfkrafa, þú verður að taka af skarið, það gerir enginn fyrir þig og það kostar þig erfiði. Segjum svo að þú birtist í fjölskylduboði einn góðan veðurdag með maka af sama kyni upp á arminn. Þá hefurðu vissulega gefið kynhneigð þína skýrt til kynna, en varla mun neinum líða vel í þessum hópi nema þú gefir fólkinu þínu kost á því að ræða málin, spyrja og viðra skoðanir sínar. Það þarf ekki að gerast þennan sama dag og í þessu boði. Eðlilegra er að gera það á tveggja manna tali, en hispursleysi og einlægni eru nauðsynleg fyrir hamingju þína. Öðruvísi geturðu varla vænst þess að aðrir virði þig til fulls sem homma eða lesbíu. Því það er umfram allt með aðferðum einlægninnar sem maður binst öðrum manneskjum ástar- og vináttuböndum.

Hér er líka vert að hafa í huga það sem sem allar glöggar manneskjur í hópi samkynhneigðra komast að raun um: Maður er eiginlega alla ævi að koma sér úr skápnum. Samfélagið gerir ósjálfrátt ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir og hvenær sem maður birtist á nýjum vettvangi verður maður að staðfesta það hver maður sé. Flestum lærist fljótt að gera það með lagni, með því að nefna til dæmis maka sinn eða félagsskap í aukasetningum sem gefur þó kynhneigðina skýrt til kynna, en sú samkynhneigða manneskja sem ekki leiðréttir strax þann misskilning að hún sé gagnkynhneigð fer brátt að líða illa og upp hefst flókið og erfitt mynstur sjálfskúgunar. Það þekkjum við samkynhneigðir af eigin raun.

Það kemur ekki fram í bréfinu hvort þú hefur einhverja reynslu af ástum og kynlífi með eigin kyni. En það skiptir yfirleitt höfuðmáli. Það er í gegnum reynsluna sem sjálfskilningurinn vex og styrkist. Hafi maður „fundið sjálfan sig“ í ástarlífinu velkist maður yfirleitt ekki í vafa um mikilvægi tilfinninganna og mikilvægi þess að þora að gefa þær til kynna í dagsbirtu. Það gera hinir gagnkynhneigðu án þess a
ð efast. Hvers vegna ekki þú? En slík reynsla kann líka að leiða til þess að þú komist að því að þú kjósir þrátt fyrir allt hið gagnstæða kyn til ásta. Mestu máli skiptir er að þekkja sjálfan sig.
Eitt einkennir bréfið þitt: Þú hefur líklega aldrei talað við neinn um tilfinningar þínar í einlægni. Kannski þekkirðu samkynhneigt fólk en hefur líklega aldrei leyft þér að opna hug þinn fyrir því og ræða líðan þína og heilabrot. Til Samtakanna ´78 er hægt að hringja alla daga milli kl. 13-17 og spjalla við Hrafnkel framkvæmdastjóra án þess að segja til nafns. Hann hefur langa reynslu af því að ræða við fólk um tilfinningar þess til eigin kyns og margir nota sér það að ræða við hann í símann á meðan þeir eru að átta sig á eigin líðan og hvað þeir vilji í lífinu. Það segir manni enginn hvað maður á að gera við líf sitt, en oft er auðveldara að gera upp hug sinn eftir að maður hefur heyrt sjálfan sig tala við aðra manneskju um sín hjartans mál. Samtal við starfsfólk Samtakanna ´78 kann að leiða til þess að þú pantir einkaviðtal hjá félagsráðgjöfum félagsins, Guðbjörgu eða Anni, sem hafa mikla reynslu af því að ræða við samkynhneigða um tilfinningamál þeirra og það átak að játa kynhneigð sína fyrir sjálfum sér og heiminum. Hægt er að panta tíma hjá félagsráðgjöfunum á skrifstofu félagsins milli kl. 13-17 alla virka daga. Viðtalið kostar 1500 kr. Síminn er 552 7878. Allir ráðgjafar og starfsmenn félagsins eru bundnir trúnaðarheiti um það sem þeim og viðmælendum þeirra fer á milli.
Gangi þér vel hvaða leið sem þú velur í lífinu.

Þorvaldur Kristinsson

Leave a Reply