Skip to main content
search
Fréttir

SEX FYRIRLESTRAR Í HÁSKÓLA ÍSLANDS

By 17. janúar, 2008No Comments

Í tilefni af 30 ára afmæli sínu á þessu ári efna Samtökin ´78 til fyrirlestraraðar í Háskóla Íslands nú á vormisseri. Þetta er í þriðja sinn sem félagið efnir til slíkrar fyrirlestraraðar þar í skóla, og ber hún í þetta sinn yfirskriftina MEÐ HINSEGIN AUGUM. Fyrirlestrarnir eru haldnir með stuðningi ýmissa stofnana við Háskóla Íslands, svo og FSS, félag hinsegin stúdenta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Hinsegin daga í Reykjavík.

Í tilefni af 30 ára afmæli sínu á þessu ári efna Samtökin ´78 til fyrirlestraraðar í Háskóla Íslands nú á vormisseri. Þetta er í þriðja sinn sem félagið efnir til slíkrar fyrirlestraraðar þar í skóla, og ber hún í þetta sinn yfirskriftina MEÐ HINSEGIN AUGUM. Fyrirlestrarnir eru haldnir með stuðningi ýmissa stofnana við Háskóla Íslands, svo og FSS, félag hinsegin stúdenta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Hinsegin daga í Reykjavík.

Fyrirlestrarnir eru sex talsins og eru kynntir nánar í sérstökum bæklingi sem kom út 15. janúar af þessu tilefni. Þar leitast sex fræðimenn við að varpa hinsegin ljósi á ýmis þau efni sem okkur varða, og eru fyrirlesararnir ættaðir úr ýmsum greinum hug- og félagsvísinda: bókmenntafræði, tónlistarfræði, uppeldisfræði, sálfræði, lögfræði og heimspeki. Með sanni má segja að hér sé eitthvað fyrir alla, rétt eins og hin fyrri ár, enda hafa fyrirlestraraðir Samtakann ´78 í Háskóla Íslands notið óvenjulegra vinsælda almennings og aðsókn verið með því besta sem gerist á fyrirlestrum í háskólanum.

Fyrst í röð gestanna er Tiina Rosenberg, prófessor við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Í fyrirlestri sínum, 1. febrúar, fjallar hún um þróun hinsegin fræða eftir 1990 og hvernig þau afhjúpa á gagnrýninn hátt viðmið og valdbeitingu gagnkynhneigðarinnar. Hún greinir rætur hinsegin fræða í samkyn¬hneigðum fræðum fyrri ára með sérstakri áherslu þá lesbísku og femínísku arfleifð sem hinsegin fræði og hinsegin femínismi hafa þegið í fræðilegri nálgun sinni. Þá flytur Björn Þorsteinsson heimspekingur fyrirlestur 15. febrúar, sem hann nefnir „Valsað um valdið“ og spyr hvort einstaklingurinn sé nokkuð annað en tannhjól í vél samfélagsins. Er honum mögulegt að vera sjálfum sér trúr? Eða með öðrum orðum, er hægt að vera hinsegin innan samfélagsgerðar sem breytir hvers kyns mótþróa jafnharðan í stuðning við ríkjandi ástand? Í þriðja fyrirlestrinum sem Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur flytur 29. febrúar og nefnist „Hin dulda merking tónanna“ fjallar hann um fjögur heimsfræg tónskáld og spyr þeirrar áleitnu spurningar hvort kynvitund þeirra endurspeglist að einhverju leyti í tónlistinni sjálfri. Hvort finna megir þar ákveðna þræði sem tengja saman efnistök tónskáldanna, persónuleg viðhorf þeirra og viðtökur almennings?

Uppeldis- og menntafræði skipa sérstakan sess í fyrirlestraröðinni og föstudaginn 14. mars flytur Sigrún Sveinbjörnsdóttir fyrirlestur sem hún nefnir „Veganesti í hinsegin vegferð“. Þar fjallar hún m.a. um gagnkynhneigðarrembu og gagnkynhneigðarviðmið í skólum eins og þær tilhneigingar birtast í námsefni og hvaða veganesti út í lífið það er hinsegin börnum og unglingum í skólum svo og ástvinum þeirra. Hálfum mánuði síðar flytur hinn víðfrægi breski lögfræðingur Oliver Phillips fyrirlestur þar sem hann ræðir um þátt kynhneigðar í mótun þjóðernisvitundar í löndum sem lengi hafa lifað í skugga nýlendustefnu og líta gjarnan á umræðu um samkynhneigð sem enn einn ófögnuðinn að utan. Sem fræðimaður, hommi og baráttumaður spyr Oliver Phillips spurninga um kynhneigð og þjóðernisvitund, tengsl þessara þátta við mannréttindi, hvort almenn mannréttinda¬barátta vinni gegn hómófóbíu og mismunun og auðveldi fólki að njóta ásta hvað sem mismunandi menningu líður. Síðasti gesturinn á þessum vettvangi er svo Annadís Greta Rúdólfsdóttir, sáfræðingur og háskólakennari í Bretlandi. Í fyrirlestri sínum 11. apríl sem nefnist „Sigrar ástin allt? fjallar Annadís um rannsókn sína á inntaki fjölmargra bóka sem hafa að geyma fróðleik og ráðleggingar til aðstandenda lesbía og homma. Þar er skoðað hvernig samkynhneigð er skýrð og skilgreind í þessum bókum og hvaða ráðleggingar aðstandendur fá um samskipti sín við samkynhneigða og oft fordómafullt samfélag. Hvaða hugmyndafræði liggur hér að baki og hvernig sjá sjálfshjálparbækurnar hið pólitíska og samfélagslega samhengi? Hversu róttæk og frelsandi eru sóknarfærin sem slíkar bækur benda á?

Fyrirlestrarnir eru fluttir í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefjast kl. 12:15 á hádegi. Að þeim loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram fyrirspurnir og taka þátt í stuttum umræðum.


 

Leave a Reply