Skip to main content
Fréttir

Kópavogur – Er hommum ekki treystandi í starfi?

By 13. apríl, 2002No Comments

Frettir Hinn 23. mars ritaði Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna ´78, Sigurði Geirdal, bæjarstjóra í Kópavogi bréf þar sem óskað var skýringa á framkomu félagsmálastjóra Kópavogs í starfsviðtali, en þar gerði hann kynhneigð umsækjanda um starf á vegum bæjarins að umræðuefni og ásteytingarsteini. Jafnframt óskaði formaður félagsins eftir því að bæjaryfirvöld gerðu grein fyrir stefnu bæjarins að því er varðar kynhneigð starfsmanna, enda hlutverk og skylda Samtakanna ´78 að tryggja það eftir megni að samkynhneigðum sé hvergi mismunað í samfélaginu og að farið sé að lögum í þeim efnum.

Upphaf málsins var það að 4. mars sl. mætti Dofri Örn Guðlaugsson uppeldisfræðingur í starfsviðtal hjá Aðalsteini Sigfússyni, félagsmálastjóra Kópavogs, þar sem hann hafði sótt um starf umsjónarmanns með tilsjónarsambýli fyrir unglinga í Kópavogi. Starfið felst í því að reka heimili fyrir 3-4 pilta á aldrinum 16-18 ára sem átt hafa í félagslegum erfiðleikum og ?leigja? herbergi þar í lengri eða skemmri tíma vegna fjölskylduaðstæðna. Hlutverk umsjónarmanns er að kaupa inn mat og aðrar nauðsynjar, sjá til þess að allir hjálpist að við þrif og matseld og sinni verkefnum sínum svo sem að fara í skólann eða vinnuna. Áður hefur Dofri veitt svipuðu tilsjónarsambýli forstöðu á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík.

Þegar skammt var liðið á viðtalið sagðist félagsmálastjóri hafa heyrt að Dofri væri samkynhneigður og að hann hefðí átt að gera grein fyrir því fyrr í viðtalinu. Dofri svaraði því til að samkynhneigð hans væri ekkert launungarmál en að gera einkamál hans að umræðuefni við ráðningu í opinbert starf væri handan við lög og reglur. Það taldi félagsmálastjóri ekki vera og kvað það geta kallað á óheppilega stöðu ef að samkynhneigður karlmaður hefði tilsjón með sambýli unglingspilta. Eins teldi hann nauðsynlegt að aðstandendum piltanna yrði gert ljóst áður en þeir flyttu inn í slíkt sambýli að Dofri væri hommi. Sagði hann deildarfund félagsmáladeildar myndu taka afstöðu til þess hvort forsvaranlegt væri að ráða hann sem umsjónarmann.

Félagsmálastjóri sendir frá sér greinargerð

Skemmst frá að segja hlaut Dofri ekki starfið og í greinargerð sem félagsmálastjóri ritaði að beiðni bæjarráðs Kópavogs telur hann sérstakar aðstæður í þessu tilviki hafa krafist þess að nauðsynlegt hafi verið að spyrja ítarlega út í einkahagi umsækjenda. Svo vitnað sé í greinargerð félagsmálastjóra til bæjarráðs:

?Þetta er gert í ljósi þess að sveitarfélagið er að setja á stofn sólarhrings tilsjónarsambýli fyrir drengi sem eiga erfitt og sérstakt trúnaðarsamband þarf að ríkja milli þeirra og tilsjónaraðila. Í slíku sambýli, þar sem tilsjónaraðili þarf að deila lífi sínu með þessum drengjum, er ekki talið forsvaranlegt annað en að upplýsa um öll atriði sem máli geta skipt við þessar aðstæður. Af þeim ástæðum þótti nauðsynlegt að kynnast einkahögum þeirra sem komu til greina í starfið.?

Frásögn Dofra af starfsviðtalinu

Í þessu sambandi er vert að vitna til frásagnar Dofra af orðaskiptum þeirra félagsmálastjóra í viðtalinu 4. mars:

?Eftir [að] ca. 20 mínútur [voru liðnar af starfsviðtalinu] segir félagsmálstjóri: ?Ég hef heyrt að þú sért samkynhneigður, Dofri??

Ég játaði því og spurði á móti: ?Og …??

Þá sagði hann: ?Mér finnst að þú hefðir átt að segja það fyrr í viðtalinu!?

Ég svaraði: ?Nú? Ekki kynntir þú þig þegar ég kom inn með orðunum: Aðalsteinn, ég er gagnkynhneigður??

Nú hófust orðaskipti um það hvort mér bæri yfirhöfuð að tilkynna væntanlegum vinnuveitendum kynhneigð mína. Það vildi félagsmálastjóri meina að væri nauðsynlegt eðli starfsins vegna, bærinn yrði að baktryggja sig gagnvart slúðri o.s.frv.

Þegar hér var komið sögu gerði félagsmálastjóri a.m.k. þrjár tilraunir til að fá upplýsingar um kynhegðun mína og byggði hann þær upp með sömu sögunni:

Þetta sambýli er fyrir drengi 16?18 ára. Okkur mundi aldrei detta í hug að ráða konu í starfið vegna þess að það gæti valdið óþægilegum aðstæðum. Við myndum heldur aldrei ráða karlmann á heimili fyrir þrjár stúlkur. Nú – með að ráða þig gæti valdið vandamálum …

Hann botnaði með öðrum orðum aldrei dæmisögu sína.

Eftir þegar sagan kom í þriðja sinn og félagsmálastjóri hafði þæft hana í einar tíu mínútur, braut ég ísinn og sagði skýrt og skorinort: ?Ég sækist í mína líka! Ég hef ekki kynferðislegan áhuga á drengjum og ég hef siðferðislegt og faglegt ?distance?, enda tel ég að það hafi verið eitt af því sem ég hef lært með menntun minni. En núna erum við komnir út í siðfræðiumræður …? en þá greip hann fram í og játaði því.

Þótt ég sé opinn hommi og með skýrar og meðvitaðar hugmyndir fullþroska manns um kynhneigð og kynhegðun mína, varð mér ljóst að það sem lá að baki öllu viðmóti og spurningum félagsmálastjóra voru fyrirfram tilbúnar hugmyndir hans, stereótýpur, af samkynhneigðum körlum. Af tali hans réði ég að þar sem ég væri samkynhneigður, hlyti ég (og sennilega allir samkynhneigðir) að hans mati að leita á drengi og unga pilta til kynmaka.?

Styrkja þarf réttarstöðu á vinnumarkaði

Það er mat stjórnar Samtakanna ´78 og lögfræðilegra ráðunauta félagsins að kynhneigð starfsmanna eða umsækjenda um starf komi atvinnurekendum aldrei við. Sjálfur hyggst Dofri fylgja máli þessu fast eftir með aðstoð lögfræðinga og leggja auk þess fram kæru til kærunefndar jafnréttismála til þess að fá úr því skorið hvort jafnréttislögin taki á misrétti varðandi kynhneigð. Fleiri leiðir munu vera honum færar í þessu máli.

Engu að síður vekur þetta mál til umhugsunar um nauðsyn þess að styrkja réttarstöðu samkynhneigðra á vinnumarkaði. Fyrirmyndir eigum við: Í Svíþjóð hafa nýleg vinnuverndarlög haft mikil og jákvæð áhrif á stöðu samkynhneigðra á vinnumarkaði og þeir unnið sigra í nokkrum mikilvægum dómsmálum sem risið hafa vegna misréttis á þeim vettvangi. Jafnframt hefur með þessari lagasetningu orðið ljósara en áður hve misréttið hefur til skamms tíma farið leynt. Í krafti lagasetninga fá samkynhneigðir aukinn kjark til að rísa upp og leita réttar síns.

Framsækin sjónarmið á vinnumarkaði

Hvað sem líður ymsum leiðum sem færar eru til að sækja rétt sinn og leita jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna, skal ætíð haft í huga að almenningsálitið vegur þyngst þegar teflt er um mannréttindi samkynhneigðra. Á síðustu misserum hafa nokkur framsækin íslensk fyrirtæki tekið þessi mál inn í starfsmannastefnu sína og telja það heildarhagsmunum sínum til ótvíræðs framdráttar. Meðal fyrirtækja í fararbroddi má nefna Ísal, Íslenska erfðagreiningu og Eddu, miðlun og útgáfu sem með starfsmannastefnu sinni standa jafnfætis því best er gert er á því sviði í Vestur-Evrópu og Bandaríkunum.

Í starfsmannahandbók Íslenskrar erfðagreiningar segir m.a. svo: ?Stefna Íslenskrar erfðagreiningar er að mismuna ekki starfsmönnum á grundvelli kynferðis, aldurs, þjóðernis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynhneigðar eða annarra persónubundinna þátta.?

Í starfsmannastefnu Eddu segir svo um jafnréttismál: ?Starfsmönnum Eddu er ekki mismunað eftir aldri, kyni, kynhneigð, þjóðerni, litarhætti, trú eða stjórnmálaskoðunum og gildir það m.a. um: laun og launatengd fríðindi, ráðningar, stöðuhækkanir og stöðubreytingar, uppsagnir, vinnuskilyrði og veitingu hlunninda. Edda fylgir lögum og regl
ugerðum sem varða jafnréttismál.?

Að ósk formanns Samtakanna ´78 hefur starfsmannastjóri Kópavogsbæjar gert grein fyrir stefnu bæjarins að því er varðar kynhneigð starfsmanna hans í bréfi til bæjarráðs. Þar segir að starfsmönnum sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar en þess er ekki getið hvort fyrir liggi hjá bænum formleg starfsmannastefna sem kynnt er nýjum starfsmönnum eða umsækjendum um störf á vegum hans.

Sjá einnig forsíðuviðtal við Dofra Örn Guðlaugssson í DV laugardaginn 13. apríl 2002.

Leave a Reply