Skip to main content
Fréttir

Giftingar leyfðar – Samkynhneigðir flykkjast til San Fransisco

By 17. febrúar, 2004No Comments

Frettir San Fransisco varð í síðustu viku fyrst til þess að leyfa að samkynhneigðir yrðu gefnir saman í hjónaband. Með leyfinu ögruðu borgaryfirvöld yfirvöldum í Kaliforníu sem líkt og fjölmörg fylki Bandaríkjanna hafa sett sérstök lög til höfuðs hjónaböndum lesbía og homma. Þegar þetta er ritað höfðu á þriðja þúsund samkynhneigð pör fengið tilskilin hjúskaparleyfi.

Borgarstjóri San Fransisco, Garvin Newsom, brást við óskum samkynhneigðra sem héldu sérstakan baráttudag þann 12. febrúar síðast liðinn fyrir frelsi sínu til þess að ganga í hjónaband. Fyrir vikið er Newsom mikil hetja í augum samkynhneigða sem nú flykkjast til borgarinnar til þess að láta gefa sig saman. Vegna gildandi laga í Kaliforníu er hins vegar ólíklegt að hjúskaparvottorðin verði tekin gild af þar til bærum yfirvöldum í fylkinu. Þrátt fyrir það segist Newsom viss í sinni sök, að mismunun sökum kynhneigðar fái ekki staðist.

Fyrsta parið sem gifti sig voru þær Phyllis Lyon 79 ára og Del Martin 83 ára, en á Valentínusardaginn höfðu þær verið í sambandi í 51 ár. Báðar hafa þær verið ötular baráttukonur fyrir réttindum lesbía og homma undanfarna áratugi.

Leave a Reply