Skip to main content
search
Fréttir

Tvær frábærar á kvikmyndahátíð – Beautiful Boxer og Kinsey

By 14. apríl, 2005No Comments

Frettir Meðal margra afbragðs kvikmynda á hátíðinni Iceland International Film Festival 2005 sem nú stendur yfir í Reykjavík eru tvær sem vefur Samtakanna ´78 mælir sérstaklega með. Önnur er sagan um Alfred Kinsey, þann sem Kinsey-skýrslan fræga er kennd við og gjörbreytti vitund heimsins um kynhneigð og kynhegðun fyrir nær 60 árum. Hin er saga frá Taílandi um lítinn, feiminn dreng sem verður frægur kick-boxari og smám saman nógu burðugur til að hafa efni á að láta heitasta draum sinn rætast: Að skipta um kyn og verða kona!

Beautiful Boxer

Myndin segir frá Nong Toom sem elst upp í þorpi í Norður-Taílandi. Hann er af fátækri fjölskyldu og leiðin liggur því í klaustur þar sem hann menntast eins og svo margir snauðir drengir á þeim slóðum. Hann heillast af hnefaleikum og verður sigursæll kick-boxari, en smám saman vaknar eitthvað sem lengi hefur blundað innra með honum ? þráin eftir kvenleikanum.

Þetta er ótrúlega falleg mynd, hér fléttast myndir af náttúru Taílands í allri sinni dýrð saman við áhrifamikil slagsmálaatriði og það sem meira er: Þetta er sönn saga, slagsmálastrákurinn Nong Toom var eitt sinn til en er núna tískusýningarstúlka og leikkona í Bangkok. Hinn raunverulega fyrirmynd sögunnar kemur sjálf(ur) fram í myndinni og leikur þar nuddarann sem gefur piltinum Nong Toom sínar fyrstu hormónapillur. Í aðalhlutverkinu er frægur 22 ára taílenskur kick-boxari, Asanee Suwan, sem er frægur fyrir íþrótt sína víða um heim.

Beautiful Boxer er mynd um miklar tilfinningar, full af sterkri lífsreynslu og sársauka sem gefur henni óvenjulega dýpt.

Beautiful Boxer er sýnd í Háskólabíó
Miðvikudaginn 20. apríl ? kl. 17:30, 20:00 og 22:30
Fimmtudaginn 21. apríl ? kl. 15:00, 17:30, 20 og 22:30
Föstudaginn 22. apríl ? kl. 17:30, 20:00 og 22:30

Kinsey

Árið 1948 varð dýrafræðingurinn Alfred Kinsey til að gjörbylta menningu Bandaríkjanna og raunar alls heimsins þegar hann gaf út verk sitt um kynhegðun karla. Útkoma bókarinnar olli beinlínis uppþoti í Bandaríkjunum. og þessi óþekkti háskólakennari og vísindamaður varð allt í einu miðpunktur siðgæðisbyltingar sem ekki er séð fyrir endann á. Fyrir honum sjálfum var rannsóknarstarfið meðvituð uppreisn gegn smáborgaralegum og vandlætingarsömum uppruna. Hann dróst að leyndum kimum mannlegra hvata eins og flugan að ljósinu og útkoman var verk sem enn þann dag í dag er hyrningarsteinn í þekkingarheimi okkar um tilfinningar, hvatir og kynhegðun homo sapiens.

Alfred Kinsey menntaðist við Harvard háskóla, en kenndi síðan líffræði við Indiana háskóla þar sem hann kvæntist einum nemanda sínum, hinni fjörugu og uppreisnargjörnu Clöru McMillen sem átti eftir að hafa ómæld áhrif á þá stefnu sem líf hans tók. Með aðstoðarfólki sínu þróaði hann rannsóknaraðferðir sem byggðust einkum á viðtölum við gríðarlegan fjölda fólks, fyrst karla, síðan konur. Til marks um áhrif hans má nefna að útkomu bókarinnar Sexual Behavior in the Human Male var á sínum tíma líkt við tilurð kjarnorkusprengjunnar þremur árum áður. Vísindastarfið færði Alfred Kinsey sjálfum enga gæfu því að hann varð eitt fórnarlamba kreddufestunnar og fordómanna sem einkenndu ár Kalda stríðsins og McCarthy-tímans, og um langt árabil mátti hann sæta þeim dómi sögunnar að hafa ráðist að grundvelli bandarísks siðgæðis með verkum sínum, hvað sem það nú merkir.

Það er sjálfur Liam Neeson sem fer með aðalhlutverkið í þessari mögnuðu verðlaunamynd.

Kinsey er sýnd í Regnboganum
Laugardaginn 16. apríl ? kl. 17:40
Sunnudaginn 17. apríl ? kl. 15:40
Þriðjudaginn 19. apríl ? kl. 22:15

Leave a Reply