Skip to main content
search
Fréttir

HINSEGIN BÍÓDAGAR: KVIKMYNDAHÁTÍÐ 16.-26. MARS

By 13. mars, 2006No Comments

Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar verður haldin í Reykjavík 16. til 26. mars. Fimmtudaginn 16. mars hefst hátíðin kl. 20 með sýningu á spænsku gamanmyndinni Bangslalingur (Cachorro). Allar sýningar hátíðarinnar verða í Regnboganum við Hverfisgötu og boðið er upp á úrval nýrra og nýlegra kvikmynda sem vakið hafa athygli í austan hafs og vestan. Stjórnandi hátíðarinnar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Vefsíða Hinsegin bíódaga er www.hinbio.org

Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar verður haldin í Reykjavík 16.–26. mars. Fimmtudaginn 16. mars hefst hátíðin kl. 20 með sýningu á spænsku gamanmyndinni Bangslalingur (Cachorro). Allar sýningar hátíðarinnar verða í Regnboganum við Hverfisgötu og boðið er upp á úrval nýrra og nýlegra kvikmynda sem vakið hafa athygli í austan hafs og vestan. Stjórnandi hátíðarinnar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Vefsíða Hinsegin bíódaga er www.hinbio.org

Hinsegin bíódagar eru haldnir í Reykjavík annað hvert ár og Kvikmyndahúsið Regnboginn er samstarfsaðili hátíðarinnar. Á dagskránni eru leiknar kvikmyndir og heimildarmyndir auk þess sem boðið er upp á úrval stuttmynda á sérstökum sýningum, enda er vaxtarbroddinn í kvikmyndagerð lesbía og homma ekki síst að finna í stuttmyndagerð sem hér er kynnt undir heitunum „Strákar með strákum“ og „Stelpur með stelpum“.

Í þetta sinn er lögð áherslu á það að kynna myndir sem lýsa ýmsu því sem menn vilja láta liggja í láginni, margt sem hinsegin fólk þegir líka um sjálft – af ótta við að verða misskilið og auðmýkt. En til að gefa tilverunni merkingu er mikilvægt að fjalla um alla þætti hennar. Líf og reynsla transgender fólks, lesbíur af lágstéttum og lítilsvirtum uppruna, hommar sem tala máli fasisma og nasisma, samkynhneigt fólk sem verður fyrir kynferðislegri eða trúarlegri valdbeitingu í æsku – þetta eru fáein dæmi um þá óvenjulegu fjölbreytni sem birtist á hvíta tjaldinu á þessari hátíð.

Heiðursgestir Hinsegin bíódaga eru þrír. Breski leikstjórinn Jan Dunn, leikstjóri myndarinnar Gypo (Sígaunapakk) er viðstödd frumsýningu myndar sinnar. Þá heimsækir Susan Stryker frá Bandaríkjunum Ísland í tilefni af frumsýningu myndar hennar Screaming Queens (Skrækjandi drottningar). Þriðji gesturinn er Jankees Boer sem um árabil verið helsta driffjöður hinsegin kvikmyndahátíða í Amsterdam. Á hátíðinni starfa tvær dómnefndir sem munu heiðra bestu myndir hátíðarinnar í flokki leikinna mynda, heimildarmynda og stuttmynda.

Opnunarmynd hátíðarinnar

Hátíðin hefst með sýningu á spænsku kvikmyndinni Bangsalingur (Cachorro). en hún segir frá Pedro sem neyðist til að endurskoða líf sitt þegar lítill systursonur hans er sendur til hans í fóstur. Þessi meinfyndna og ljúfsára verðlaunamynd hefur vakið mikla athygli og hrifningu fyrir efnistök sín. Pedro er enginn unglingur lengur og kynhneigðin vefst ekki fyrir honum, en lífsreynslan fer þó fyrir lítið þegar hann stendur frammi fyrir því að axla ábyrgð á litlu barni.

Merkar heimildarmyndir

Af erlendum heimildarmyndum er fyrst að nefna svissnesku myndina Kisulórur (Katzenball) sem á eftirminnilegan hátt segir sögu lesbískra kvenna í áttatíu ár og hvernig sú saga tengist öðrum pólitískum hreyfingum. Krafan um að laga sig að kröfum samfélagsins, leitin að ástinni og leyndum samkomustöðum lesbía í Sviss, allt þetta er rakið í sögum fimm kvenna.
Hann sjálfur Peter Berlin (That Man: Peter Berlin) er saga manns sem var eitt frægasta módel erótískra ljósmynda á árunum upp úr 1970. Hér leggur Peter spilin á borðið í verðlaunamynd sem hlotið hefur miklar vinsældir og talar um muninn á manneskjunni og þjóðsögninni, ástinni og girndinni, gleðinni og sorginni,

Það er staðreynd að hommar taka stundum pólitíska afstöðu á hægri væng öfganna og gerast virkir í hreyfingu nýnasista þó að samkynhneigt fólk hafi fyrr og síðar sætt ofsóknum og niðurlægingu af hálfu þessara sömu öfgaafla. Um það fjallar þýska myndin Hetjur og hinsegin nasistar (Männer, Helden und schwule Nazis) eftir Rosu von Praunhheim sem rýnir á gagnrýninn hátt í sögu Þjóðverja. Úr ýmsum áttum er varpað ljósi á kynhneigðir og pólitískar hneigðir, mannúð og grimmd.
Susan Stryker er heimsþekkt fyrir framlag sitt til umræðu um líf transgender fólks. Hér er sýnd kvikmynd hennar Skrækjandi drottningar (Screaming Queens) þar sem rifjað er upp löngu gleymd átök í San Francisco árið 1966 þegar transgender fólk svaraði áreiti lögreglu. Rætt er við fólkið sem tók þátt í átökunum um það hvaða merkingu þau höfðu fyrir sjálfsvitund þess og leit að frelsi. Þá er á hátíðinni frumsýnd stuttmynd um líf fólks á Íslandi sem leitar sjálfs sín í nýjum líkama, Transplosion eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur. Þriðja verkið sem fjallar um þetta efni heitir 100% manneskja (100% menneske), norsk mynd um Monicu sem fæddist drengur en ákvað tvítug að gangast undir aðgerðir til að verða sú stúlka sem hún hafði alltaf verið. En Monica er umfram allt 100% manneskja og hér segir hún á áhrifamikinn hátt frá leitinni að sjálfri sér.

Trönsukofi Heklínu (Trannyshack) er heimildarmynd um hina íslensk-amerísku Heklína, sem er raunar náskyld Silvíu Nótt og heitir í höfuðið á sjálfri Heklu. Trönsukofi Heklínu í San Francisco er víðfrægur og hér má sjá það besta úr sýningum hans ásamt viðtölum við þá sem gert hafa sviðið að sínu þessi ár.
Í þremur stuttum myndum er litið til fortíðar. Í Einu sinni var … kynvilla eftir Evu Maríu Jónsdóttur rifja Elías Mar og Þórir Björnsson upp löngu liðna daga þegar strákar komu saman á Hótel Borg og á Laugavegi 11 til að hitta aðra stráka, á tímum þagnar og feluleiks, þegar hommar hétu „kynvillingar“ í munni góðra borgara. Irene Williams er sannkölluð Drottning á Lincoln Road suður í Flórída, og þótt hún sé hvorki lesbía né hommi er útgeislun hennar eins „gay“ og fjarri gráum hversdagsleikanum og hugsast getur. Walter þykir hann hafa átt Líf til einskis eftir áralanga vist í vinnubúðum nasista í Sachsenhausen og rétt fyrir dauða sinn fyrir nokkrum árum leysti hann frá skjóðunni.

Meistarar nýbylgjunnar

Þá er á hátíðinni sýndar kvikmyndir eftir tvo af helstu meisturum nýbylgjunnar í kvikmyndagerð samkynhneigðra sem hófst á síðasta áratug, The New Queer Cinema. Dularfull snerting (Mysterious Skin) eftir Gregg Araki er mögnuð mynd sem segir frá tveimur ungum strákum, Neil og Brian. Í huganum er undarlegt svarthol sem tengist sameiginlegri reynslu og engin leið að muna hvað gerðist. Saman reyna þeir að rjúfa svartholið og ryðjast gegnum myrka fortíð til að finna framtíðina.
Kvikmyndin Proteus eftir John Greyson gerist í Suður-Afríka 1725. Í fangelsi hittir hirðingi af ættum Khoi-manna hollenskan sjóliða. Þeir verða elskendur en ástin sú reynist þeim afdrifarík. Þetta er ögrandi og ástríðufullt verk um ólöglegar ástir og ólöglegt samneyti kynþáttanna þar sem saga undirokaðra kynþátta og saga samkynhneigðra ásta fléttast saman og öðlast víddir handan við stað og stund.

Ungt fólk og ástir

Bandaríska gamanmyndin D.E.B.S. segir frá fjórum stelpum í leyniþjónustuskóla. Daglega þurfa stelpurnar að kljást við erfið verkefni, en hvað sem á gengur glata þær aldrei óaðfinnanlegu útliti. Nú eiga stúlkurnar að beina kröftunum gegn hinni harðsvíruðu en fallegu Lucy Diamond. Þegar Amy verður ástf
angin af Lucy vandast málin, og Amy neyðist til að velja milli þess að halda áfram að bjarga heiminum eða flýja með Lucy.

Kvikmyndin Síðari dagar (Latter Days) segir frá Christian sem lifir hátt og telur sig vera að njóta þess besta sem lífið hefur upp á bjóða með næturlífi og ástarævintýrum. En þáttaskil verða í lífi hans þegar hann kynnist Aaron, nítján ára gömlum mormóni og trúboða. Hvorugur er ósnortinn eftir þau kynni. Christian áttar sig á því að hann þarf að endurmeta hvað máli skiptir í lífinu. Aaron verður ljóst að hann verður að takast á við samkynhneigð sína og það miskunnarlausa trúarumhverfi sem hann ólst upp í.

Konur, átök og ástir

Fjórar myndir á hátíðinni lýsa á ólíkan hátt lífi lesbískra kvenna. Breska myndin Sígaunapakk (Gypo) er eftir Jan Dunn, einn af heiðurgestum hátíðarinnar. Myndin lýsir ungri stúlku, sígauna sem flúið hefur austan úr Tékklandi og bíður þess að fá breskt vegabréf og ávísun á „frelsið“ eins og það heitir. Á grátbroslegan hátt er varpað fram áleitnum spurningum um uppruna og kynþætti, leyfilegar og óleyfilegar ástir, völd og valdaleysi.

Í indversku verðlaunamyndinni Ferðalagið (Sancharram) segir frá Kiran og Delilah sem eru bestu vinkonur, en þegar Kiran verður ástfangin af vinkonu sinni verður hún svo hrædd um að missa vináttu hennar að hún gerir allt til þess að fela tilfinningar sínar. Hér ráðstafa foreldrar dætrum sínum í hjónaband og stúlkurnar skilja að líf þeirra er erfitt ferðalag þar sem þær verða að standa með sjálfum sér.

Spænska kvikmyndin Sévigné segir frá leikstjóra sem í glímu sinni við efnivið fortíðarinnar verður að endurmeta eigið líf. Marta Balletbo-Coll sem kölluð hefur verið Woody Allen Katalóníu, er höfundur þessarar vel gerðu og fyndnu myndar um lesbískar ástir og leikhús, mæður og dætur og gamlar sögur sem lifna við í nýjum sögum á nýjum tíma.
Í gini rokksins (Prey for rock’n roll) er byggð á söngleik eftir bandaríska rokkarann og húðflúrarann Cheri Lovedog og styðst við sögu hennar sjálfrar. Kraftur og kynþokki, rokk og ról einkenna þessa sérstæðu og eftirminnilegu sögu, sem hlotið hefur gífurlegar vinsældir um allan heim. Þar segir frá Jacki (Gina Gershorn) og stelpnabandinu hennar, Clamdandy, sem hefur árum saman verið næstum því við það að slá í gegn.

Vaxtarbroddur kvikmyndagerðar

Tvö stuttmyndasöfn verða sýnd á hátíðinni og nefnast þau Piltar með piltum og Stúlkur með stúlkum. Slíkar sýningar njóta mikilla vinsælda á erlendum kvikmyndahátíðum því að þar er ekki síst að finna margt það besta sem á boðstólum er í kvikmyndagerð samkynhneigðra í heiminum.

Verðlaun hátíðarinnar

Tvær dómnefndir tilnefna bestu kvikmyndir hátíðarinnar í lokasamkvæmi hátíðarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum laugardagskvöldið 25. mars.Veitt verða þrenn verðlaun, fyrir bestu leiknu kvikmyndina, bestu heimildarmyndina og bestu stuttmyndina. Í dómnefndunum eiga sæti þau Dagný Kristjánsdóttir, Felix Bergsson, Hannes Páll Pálsson, Kristín Pálsdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Sveinbjörn I. Baldvinsson.

-ÞK

Leave a Reply