Skip to main content
search
Fréttir

UNGUR MAÐUR LÍFLÁTINN Í ÍRAN – AÐSTANDENDUM TILKYNNT SÍÐAR

By 7. desember, 2007No Comments

Alþjóða mannréttindanefnd lesbía og homma, The International Gay and Lesbian Human Rights Commission (IGLHRC), hefur greint frá því að Makvan Mouloodzadeh hafi verið tekinn af lífi í fangelsi í Kermanshah, í vesturhluta Íran. Aftakan fór fram þrátt fyrir fyrirskipanir forseta hæstaréttar landsins um ógildingu dauðadómsins yfir honum. Hinn 21 árs gamli Makvan var dæmdur vegna vafasmrar ákæru um að hafa nauðgað þremur piltum þegar hann var 13 ára. Af gögnum málsins að dæma grundvallast dómurinn engöngu á hatri í garð samkynhneigðra.

Alþjóða mannréttindanefnd lesbía og homma, The International Gay and Lesbian Human Rights Commission (IGLHRC), hefur greint frá því að Makvan Mouloodzadeh hafi verið tekinn af lífi í fangelsi í Kermanshah, í vesturhluta Íran. Aftakan fór fram þrátt fyrir fyrirskipanir forseta hæstaréttar landsins um ógildingu dauðadómsins yfir honum.

Dauðadómnum yfir Makvan var fullnægt í fangelsinu þann 5. desember sl. klukkan fimm að staðartíma og var hvorki fjölskyldu hans né lögmanni greint frá aftökunni fyrr en eftir að hún átti sér stað. IGLHRC er enn að rannsaka staðreyndir málsins.

„Þetta er skammarlegt og hneykslanlegt og er atlaga að réttlætinu og alþjóða mannréttindalögum,” sagði Paula Ettelbrick, aðalframkvæmdastjóri IGLHRC. „Hversu margir ungir Íranir þurfa að láta lífið áður en alþjóðasamfélagið bregst við?“

VITNISBURÐIR DREGNIR TIL BAKA

Makvan Mouloodzadeh var 21 árs íranskur ríkisborgari sem ákærður hafði verið fyrir að hafa nauðgað ungum piltum með endaþarmsmökum (kallað ighab í Íran) þegar hann sjálfur var 13 ára gamall. Öll vitni í málinu höfðu hins vegar dregið vitnisburði sína, sem fengust fyrir réttarhöldin, til baka. Vitnin sögðu vitnisburðina vera upplogna og fengna með hótunum yfirvalda. Makvan greindi réttinum einnig frá því að játning hans hefði verið þvinguð fram með valdi og lýsti sig saklausan af glæpnum.

Þann 7.júní síðastliðinn komst glæpadómstóll sjöunda umdæmis í Kermanshah samt sem áður að þeirri niðurstöðu að Makvan væri sekur og dæmdi hann í kjölfarið til dauða. Áfrýjun lögmanns hans bar ekki meiri árangur en svo að hæstiréttur landsins staðfesti dauðadóminn þann 1.ágúst.

Málið vakti úlfúð um heim allan og varð til þess að IGLHRC hrinti af stað bréfaskriftaherferð. Amnesty International, Human Rights Watch, Outrage! og Everyone Group gripu til svipaðra aðgerða.

TEKINN AF LÍFI ÞRÁTT FYRIR ANDSTÖÐU

Til að bregðast við vaxandi þrýstingi almennings og í kjölfar yfirgripsmikils bænaskjals sem lögmaður Mouloodzadeh afhenti honum, ógilti forseti hæstaréttar, Ayatollah Seyed Mahmoud Hashemi Shahrudi, hinn yfirvofandi dauðadóm. Í áliti sínu þann 10.nóvember lýsti forsetinn því yfir að dauðadómurinn gengi gegn íslömskum kennisetningum, trúarlegum tilskipunum háttsettra Sjíta-klerka og lögum landsins.

Samkvæmt írönskum réttarvenjum var mál Makvan sent sérstakri eftirlitsskrifstofu í íranska dómsmálaráðuneytinu. Um er að ræða hóp sérskipaðra dómara og er hann ábyrgur fyrir endurskoðun og endurupptöku gallaðra mála sem hafa verið stoppuð af forseta hæstaréttar. Að þessu sinni ákváðu dómararnir hins vegar að ganga í berhögg við vilja forseta hæstaréttar og staðfesta hinn upprunalega dómsúrskurð. Því næst var yfirvöldum í héraði fyrirskipað að framkvæma aftökuna.

Aftaka Makvan átti sér stað nokkrum dögum eftir að nefnd á vegum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun þar sem farið er fram á algjört bann við dauðarefsingum.

VERNDARVÆTTIRNAR FORDÆMA AFTÖKUNA

Verndarvættirnar, samstarfsvettvangur félaga í Samtökunum ’78 og Íslandsdeildar Amnesty International, fordæma aftöku íranskra stjórnvalda á hinum 21 árs gamla Makvan Mouloodzadeh þann 5.desember. Af öllum merkjum að dæma grundvallast dauðadómurinn eingöngu á hatri gagnvart samkynhneigðum.
 
Verndarvættirnar hvetja írönsk stjórnvöld til þess að endurskoða löggjöf sína og gera samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender íbúum landsins kleift að lifa á mannsæmandi hátt, þannig að þeir þurfi ekki að lifa í stöðugum ótta um líf sitt og heilsu.
 
Þá ítreka Verndarvættirnar andúð sína á þeim ómanneskjulega og óafturkræfa gjörningi sem dauðarefsingar eru og hvetja írönsk stjórnvöld til að afnema þær með öllu.

-HM

Myndin hér að ofan er af Makvan Mouloodzadeh

 

Leave a Reply