Skip to main content
Fréttir

ALÞJÓÐLEG KVIKMYNDAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

By 29. september, 2006No Comments

Alþjóðleg kvikmyndahátíð fór af stað með stæl í gærkvöld þegar slökkt var á götuljósum í fjölmörgum sveitarfélögum á landinu. Á hátíðinni er mikið af vönduðum kvikmyndum, og þónokkrar sem ættu að höfða sérstaklega til lesbía, homma, tvíkynhneigðra, transgender fólks og vina þeirra og ástæða er til að benda á.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð fór af stað með stæl í gærkvöld þegar slökkt var á götuljósum í öllum sveitarfélögum frá Reykjanesi og upp á Akranes, á Suðurnesjum, í Dalvíkurbyggð, Borgarbyggð og á Fljótsdalshéraði milli klukkan 22 og 22.30. Andri Snær Magnason átti upphaflega hugmyndina, og þó svo að honum og félögum hans hafi ekki tekist að stöðva uppfyllingu Hálsalóns þá setti þessi einstaki gjörningur að minnsta kosti svip á borgina og önnur sveitarfélög sem tóku þátt.

Margra góðra grasa kennir á kvikmyndahátíðinni sem er ein af fáum alvöru kvikmyndahátíðum á Íslandi. Að mörgu leiti svipar uppbyggingu hennar til Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín þar sem að hagsmunir kvikmyndahúsanna og eign á filmueintökum ráða engu um val á bíómyndum heldur eru kvikmyndir valdar fyrir innihald og listrænt gildi. Öll umgjörð hátíðarinnar er afar fagleg og fjöldinn allur af erlendum gestum heiðrar Reykjavík með nærveru sinni þessa dagana.

Á hátíðinni er að finna nokkrar myndir og uppákomur sem lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og transgender fólk ætti gera sér far um að sjá. Mikil eftirvænting er vegna nýrrar stuttmyndar eftir Ísold Uggadóttur Góðir gestir sem hlaut eftirvinnslustyrk frá Frameline sem meðal annars heldur úti San Francisco International Lesbian and Gay Film Festival. Hún fjallar um Katrínu sem er við nám í New York en kemur heim til Íslands til þess að vera viðstödd afmæli afa síns. Í afmælisveislunni dregur heldur betur til tíðinda þar sem röð óvæntra atburða eiga sér stað. Okkar ástkæra Hanna María Karlsdóttir leikur eitt af aðalhlutverkunum í myndinni sem verður sýnd í Iðnó 1. okt kl. 16:00. Enginn ætti heldur að láta framhjá sér fara B-mynda veislu Páls Óskars í Tjarnarbíói 5. okt kl 22:15 en þar fer hann á kostum og matreiðir hrylling, splatter, skrýmsli, kung-fu, vísindaskáldskap og blaxploitation af sinni alkunnu snilld í einn risakokteil úr einkasafni sínu. Á hátíðinni er einnig sérstök sería tileinkuð Danmörku sem nefnist Sjónarrönd – Horizons og er boðið upp á ýmislegt skemmtilegt þar. Meðal annars er þar kvikmynd sem heitir Sápa – Soap. Hún fjallar um Charlotte sem skilur við kærastann sinn og smáborgarlegt hverfið sem þau hafa búið í til þessa og flytur til Nordvest – eitt af jaðarhverfum Kaupmannahafnar. Þar vingast Charlotte við nágranna sinn Veroniku sem er transgender og bíður eftir bréfinu mikilvæga sem sker úr um það hvort hún kemst í aðgerð til leiðréttingar á kyni sínu eður ei. Þessi frumraun Pernille Fischer Christensen leikstjóra vann óvænt bæði verðlaun fyrir bestu frumraun og Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Annað áhugavert:

Laugardagur 30. september kl. 11 á Q-bar í Ingólfsstræti. Málþing um konur í kvikmyndagerð og stofnun WIFT Á Íslandi. Wift stendur fyrir Women in Film and Television eða Konur í sjónvarpi og kvikmyndum. Á meðal mælenda verður Vijaya Mulay en hún mun jafnframt sýna tvær áhugaverðar stuttmyndir er snúa að reynslu kvenna með kvikmyndavélina.

Þriðjudagur 3. október kl. 18 og kvikmynd kl. 20 Iðnó. Málþing um fangabúðirnar á Guantanamo. Shafiq Rasul, Asif Iqbal og Rhuhel Ahmed sem dvöldu við skelfilegar aðstæður í tvö ár í fangelsinu hefur verið boðið til landsins og munu ásamt Jóhönnu k. Eyjólfsdóttur og Hrafnhildi Gunnarsdóttur kvikmyndagerðarmanni til að taka þátt í pallborðsumræðum um reynslu sína og um hlutverk heimildarmyndagerðar í að upplýsa almenning um mannréttindabrot og baráttunnu gegn þeim sem standa fyrir þeim. Að pallborðinu loknu verður kvikmyndin sýnd í Tjarnabíó kl. 20.

Drottningin – The Queen sem er leikin af konu sem margar lesbíur hafa einhvern tíma verið skotnar í; Helen Mirren sem er þekkt fyrir leik sinn í Prime Suspect. Kvikmyndin fjallar um þann tíma þegar fregnirnar af andláti Díönu prinsessu flæddu yfir heimsbyggðin, en þá þurfti Elísabet II. Englandsdrottning að ræða við fjölskyldu sína um það hvernig ætti að bregðast við harmleiknum. Kvikmyndin byggir á samtölum við fólk sem þekkir málið vel, bæði að utan og úr innsta hring, og dregur þannig upp nána, afhjúpandi mynd af konungsfjölskyldunni í Bretlandi. Kvikmyndin vann til verðlauna í Feneyjum og Helen Mirren var útnefnd besta leikkonan fyrir einstæða túlkun sína á drottningunni.

Allt annað dæmi – A whole new thing eftir Amnon Buchbinder frá Kanada. Emerson hefur alist upp og menntast hjá foreldrum sínum, síðhippum sem hafa byggt sér heimili úr alfaraleið. Nú þrettán ára gamall skal hann í fyrsta skipti sækja skóla eins og önnur börn.
Framan af streitist Emerson á móti enda á hann litla samleið með samnemendum sínum. En þegar kólna tekur á milli foreldra hans finnur hann óvæntan félaga í enskukennaranum sínum. Myndin fjallar umbúðalaust um kynþroskaskeiðið, vináttu, ást, samkynhneigð og sambúðarvandamál hverskonar. Amnon Buchbinder leikstýrði þessari rómuðu mynd en skrifaði einnig handritið ásamt Daniel MacIvor. Buchbinder er gestur kvikmyndahátíðar og mun m.a. halda fyrirlestur um handritsgerð. Kvikmyndin er sýnd í Háskólabíó 29. sept kl. 18, 30.sept kl. 16 og 2. okt kl. 22.

Sápa – En Soap. Dag nokkurn ákveður Charlotte að skilja við kærastann sinn og smáborgaralegt hverfið sem þau hafa búið í og flytja til Nordvest – jaðarhverfi Kaupmannahafnar. Það tekur hina opinskáu og málglöðu Charlotte ekki langan tíma að vingast við nágranna sinn Veroniku. Sú er klæðskiptingur sem eyðir deginum með hundi sínum, Miss Daisy, á meðan hún bíður eftir bréfinu mikilvæga sem sker úr um hvort hún komist loks í kynskiptiaðgerð. Sápa er óður til jaðarlífsstíla sem eru rétt handan við hornið. Þessi fyrsta leikna mynd pernille fischer christensen í fullri lengd vann bæði verðlaun fyrir bestu frumraun og silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Sýnd í Háskólabíó 3.okt kl 17:45 og 4. okt kl. 18.

-HG

 

Leave a Reply