Skip to main content
Fréttir

Tímamót í Svíþjóð – Frumvarp um ættleiðingarrétt samkynhneigðra para

By 8. febrúar, 2002No Comments

Frettir Þriðjudaginn 5. febrúar 2002, lagði sænska ríkisstjórnin fram frumvarp í þinginu um ættleiðingarrétt samkynhneigðra para í staðfestri samvist. Frumvarpið felur í sér að samkynhneigð pör í staðfestri samvist öðlast rétt til þess að ættleiða börn á sömu forsendum og hjón. Á þetta bæði við um stjúpættleiðingar svo og frumættleiðingar, en í Svíþjóð hafa stjúpættleiðingar (þ.e. ættleiðing barns sem annar maka á fyrir og ættleitt er af hinum makanum) ekki verið leyfðar hingað til eins og heimilt er hér á landi.

Nái þetta nýja frumvarp að verða að lögum er það mikil réttarbót fyrir börn samkynhneigðra í Svíþjóð, en réttarstaða þessara barna hefur verið afar ótrygg eins og sjá má á nýlegu máli sem hæstiréttur Svíþjóðar dæmdi í varðandi meðlagsskyldu föðurs þriggja barna, sem hafði gefið sæði sitt lesbísku pari.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að tæknifrjóvgun fyrir lesbíur sé leyfð á þessu stigi málsins. Sænska ríkisstjórnin álítur að frekari undirbúningsvinnu sé þörf áður en slík frjógun verði heimil. Því munu sænska lesbíur ekki njóta jafnréttis á við aðrar konur í Svíþjóð í þessum efnum, þrátt fyrir frumvarp þetta.

Allar horfur eru á að ættleiðingarfrumvarpið verði samþykkt þar sem yfirlýstur stuðningur meirihluta flokka á þinginu er fyrir hendi. Þar sem frumvarpið felur í sér að Svíþjóð verður að segja upp alþjóðlegum samningi um ættleiðingar frá 1967, gæti fyrirvarinn sem það krefst leitt til að lögin tækju fyrst gildi árið 2003.

Óneitanlega vekja þessi tíðindi upp spurningar um það hvað Alþingi Íslendinga muni gera á næstu misserum til þess að leiðrétta réttarstöðu barna í samkynhneigðum fjölskyldum. Hér hefur stjúpættleiðing góðu heilli verið lögleidd en ekki frumættleiðing og nú hlýtur forysta Samtakanna ´78 enn á ný að krefja löggjafarvaldið svara um afstöðu þess til réttarbóta til handa samkynhneigðum fjölskyldum til jafns við þær sem virðast vera að líta dagsins ljós í Svíþjóð.

Leave a Reply