Skip to main content
search
Fréttir

FÆREYSK REIÐI Í NORÐURLANDARÁÐI

By 2. nóvember, 2006No Comments

Heitar og tilfinningaþrungnar umræður urðu á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í gær, 1. nóvember. Um það geta þau best vitnað sem sáu útsendingu frá þinginu í dönsku sjónvarpi. Í fyrirspurnatíma gagnrýndi Rannveig Guðmundsdóttir, forseti þingsins, færeyska stjórnmálamenn fyrir að gæta ekki nægilega að réttindum samkynhneigðra. Hún vísaði til þeirrar staðreyndar að samkynhneigðra er að engu getið í færeyskri löggjöf og að Lögþing Færeyja hefur tvívegis fellt tillögu um að orðunum “vegna kynhneigðar” verði aukið í verndarákvæði færeysku hegningarlaganna.

Heitar og tilfinningaþrungnar umræður urðu á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í gær, 1. nóvember. Um það geta þau best vitnað sem sáu útsendingu frá þinginu í dönsku sjónvarpi. Í fyrirspurnatíma gagnrýndi Rannveig Guðmundsdóttir, forseti þingsins, færeyska stjórnmálamenn fyrir að gæta ekki nægilega að réttindum samkynhneigðra. Hún vísaði til þeirrar staðreyndar að samkynhneigðra er að engu getið í færeyskri löggjöf og að Lögþing Færeyja hefur tvívegis fellt tillögu um að orðunum „vegna kynhneigðar“ verði aukið í verndarákvæði færeysku hegningarlaganna. Færeyski samstarfsráðherrann í Norðurlandaráði, Jógvan á Lakjuni brást hinn versti við og sakaði Rannveigu um að óvirða færeysku þjoðina, þeir hefðu fullan rétt til að standa vörð um sína eigin samfélagsgerð.

Í ræðu sinni hvatti Rannveig Guðmundsdóttir færeysk stjórnvöld til að taka á málinu á ábyrgan hátt og banna mismunun gegn samkynhneigðum. Hún minnti á að fyrir tveimur áratugum hefðu Íslendingar orðið að svara fyrir aðgerðaleysi sitt gagnvart hommum og lesbíum á vettvangi Norðurlandaráðs og að það hefði skilað árangri. Þetta mál varðar ekki einungis Færeyinga. Að standa vörð um mannréttindi er verkefni allra samfélaga,” sagði Rannveig og hvatti Færeyinga til að veita lesbíum og hommum sömu vernd í hegningarlögum og þau njóta nú í hinum norrænu löndunum.

MÓÐGUN VIÐ FÆREYSKU ÞJÓÐINA

Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja í Norðurlandaráði stóð hvað eftir annað upp á fundinum og sakaði Rannveigu meðal annars um að hafa móðgað færeysku þjóðina. Hann sakaði líka danska fjölmiðla um óeðlilega neikvæðni í umfjöllun sinni um Færeyjar og taldi samfélagsaðstæður í Færeyjum á marga lund betri en annars staðar á Norðurlöndum, tíðni sjálfsmorða og hjónaskilnaða væri þar til dæmis lægri en í öðrum ríkjum Norðurlanda. Sjálfur játaði Jógvan síðar þennan dag í viðtali við Morgunblaðið að hann væri á móti öllum réttarbótum til handa samkynhneigðum. Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, sagði á fundinum þegar þingmenn tókust á, að öðrum þjóðum bæri að virða það lýðræðislega ferli sem væri í gangi í Færeyjum. Þá dró hann í efa að faglega væri staðið að þeirri undirskriftasöfnun sem nú er í gangi á Netinu, en þar hafa yfir 16.000 manns, víðsvegar úr heiminum, nú skráð nöfn sín. En eins og kunnugt er hægt að skrá sig á rafrænan undirskriftalista og mótmæla aðgerðarleysi færeyskra stjórnvalda. Högni Hoydal, þingmaður færeyska Þjóðveldisflokksins, tók vel undir fyrirspurn Rannveigar og þakkaði henni sérstaklega fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Hann ítrekaði það viðhorf að réttindi samkynhneigðra væru bæði mannréttindamál og spurning um þau gildi sem væru ríkjandi á Norðurlöndum.

DJÚPSTÆÐUR ÁGREININGUR Á LÖGÞINGINU

Í viðtali við fréttavef Samtakanna ’78 sagði Rannveig Guðmundsdóttir að hún hefði átt góðar og uppbyggilegar viðræður fyrir fundinn við Johannes Eidesgaard lögmann úr Jafnaðarmannaflokki Færeyja. Hann hefði lýst þeirri skoðun sinni að hann vildi lagabreytingar, vildi tryggja samkynhneigðum réttindi í Færeyjum, en vandinn væri sá að tvo stóru flokkana á þinginu greindi á um málaflokkinn. „Ég ákvað þess vegna að fara með málið inn í fyrirspurnartíma og spyrja samstarfsráðherrann beint, því að ég vissi að hann er einn þeirra sem harðast beita sér gegn réttindalöggjöfinni.“

Rannveig sagði að sér hefði þótt að athyglisvert að Jógvan á Lakjuni skyldi sleppa sér á fundinum eftir að hún hafði sett skipulega fram rök fyrir því að Íslendingur teldi þetta mál eiga erindi á vettvang Norðurlandaráðsþings. „Ég minnti á það að norrænir þingmenn í Norðurlandaráði hefðu á sínum tíma tekið fulltrúa Íslands á beinið og eftir það hefði boltinn oltið af stað. Nú væri bestu löggjöfina sennilega að finna á Íslandi. Þá réðst hann að mér fyrir óvild gagnvart Færeyjum og sagði að vond öfl væru að draga Færeyjar niður í umræðunni. Það væri mjög gott að búa í Færeyjum og lítil vandamál, t.d. engar fóstureyðingar. Engin furða því að færeysk lög leyfa þær ekki.“

VELVILD OG HLÝJA

Þá bætti Rannveig því við að síðar í fyrirspurnatímanum hefði einn þingmaður spurt um staðfesta samvist sem ekki er heimild fyrir í færeyskum lögum og annar hefði spurt hvernig því fólki yrði tekið sem flyttist til Færeyja frá öðrum Norðurlöndum og lifði í staðfestri samvist. Fátt var um svör. En skaðar þessi umræða sambúð þjóðanna? „Það held ég alls ekki, aðrir Færeyingar á þinginu sýndu mér sömu velvild og hlýju og endranær það sem eftir lifði þings og margir komu að máli við mig út af orðum samstarfsráðherrans. Ég yrði mjög ánægð ef þessi hrina á þingi Norðurlandaráðs ætti síðar eftir að verða ein af þúfunum sem velta hlassinu þunga í mannréttindamálum samkynhneigðra,“ sagði Rannveig að lokum.

ÍSLENSK MANNRÉTTINDASJÓNARMIÐ

Ýmsir hafa orðið til þess að vekja athygli á því ofbeldi sem viðgengst gegn samkynhneigðum í Færeyjum, og hafa Íslendingar komið þar ítrekað að máli. Til dæmis birtist langt viðtal við Guðrúnu Ögmundsdóttur alþingismann, í Sosialnum, dagblaði færeyskra jafnaðarmanna á dögunum. Þar lagði hún áherslu á það að Norðurlönd stæðu saman í vilja sínum til að jafna réttarstöðu homma og lesbía á öllum Norðurlöndum og rakti þær lagabætur sem hafa gjörbreytt lífi samkynhneigðra á Íslandi. Grasrótarkonan Guðrún kvað skýrt að orði í viðtalinu og sagði meðal annars:

„Kjarni málsins er: Virðing fyrir öllum mönnum, án tillits til þess hvern við elskum. Því hvern þú elskar er þitt mál sem samfélagið á ekki að hlutast til um. Sjálf tel ég að viðurkenning á fjölskyldulífi samkynhneigðra sé stærsti lagalegi ávinningur okkar.“ Guðrún benti á það öfluga upplýsingastarf sem hommar og lesbíur hafa sjálf staðið fyrir í íslensku samfélagi, minnti á þá staðreynd að um 90% landsmanna telja að samkynhneigðum beri sami réttur og öðru fólki og bætti við: “Loks tókst Alþingi að ná sáttum við fólkið sem hefur kjörið það til starfa. Það er gleðilegt.“

Þá má nefna að þessar átakavikur hefur Þorvaldur Kristinsson þrívegis birt langar greinar á færeysku um mannréttindi lesbía og homma. Þær hafa birst í Dimmalætting, stærsta dagblaði Færeyja, og vakið mikla athygli fyrir málefnalega nálgun og yfirsýn. Í einni grein sinni fjallaði Þorvaldur sérstaklega um samkynhneigða og kristna trú og rakti þar ranghugmyndir og þversagnir kristninnar.

HEIMURINN FYLGIST MEÐ LÖGÞINGINU

Mörgum þótti dapurlegt að kynnast þeim sjónarmiðum ei
nangrunarstefnu í mannréttindamálum sem lýsa sér í orðum Jógvans á Lakjuni í viðtali við Morgunblaðið á dögunum þegar hann sagði: “Íslendingar eiga ekkert með að skipta sér af innanríkismálum Færeyinga og alls ekki af málum sem eru til meðferðar í færeyska þinginu. Ekki skipta Færeyingar sér af málefnum Íslendinga.“ Því miður gleymir sá góði ráðherra því að ákvæði alþjóðlegra sáttmála og samþykkta, á vettvangi Norðurlandaráðs og víðar, um mannvernd og mannvirðingu varða alla þá sem hlut eiga að máli án tillits til landamæra. Ísland varð á sínum tíma að taka mið af þessum vilja og svo er einnig um færeysk stjórnvöld. Í þessu sambandi má minna á ályktun þingmannafundar Evrópuráðsins frá 1. október 1981 um afnám misréttis gagnvart lesbíum og hommum. Þar var skorað á þing og ríkisstjórnir aðildarríkjanna að bæta úr fjölmörgum atriðum sem varða misrétti vegna kynhneigðar og sú ályktun er enn í fullu gildi þar sem hún á við, 25 árum síðar.

Frumvarp til breytinga á 266 gr. færeysku hegningarlaganna verður tekið til 1. umræðu á Lögþingi Færeyja þriðjudaginn 7. nóvember nk. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins, enda hafa færeyskir stjórnmálamenn áttað sig á því að augu heimsins hvíla á þeim þessa dagana. Samtökin ’78 hafa síðustu vikur lagt sitt af mörkum til að kynna stöðu samkynhneigðra í Færeyjum fyrir umheiminum og munu halda málinu til streitu í samvinnu við samkynhneigða í Færeyjum þar til sigur er unninn. Samstaða samkynhneigðra er voldugt og alþjóðlegt afl sem enginn stjórnmálamaður skyldi vanmeta. Um allan hinn vestræna heim er uppi sterk krafa um að ríki samræmi stefnu sína í mannréttindamálum, og nægir þar að minna á kröfu Evrópusambandsins til verðandi aðildarríkja sinna. Áratuga gamlar samþykktir Norðurlandaráðs um samstillta stefnu Norðurlanda mannréttindamálum er í fullu gildi.

LAND MÍNS FÖÐUR – LANDIÐ MITT

Í aldarfjórðung hafa samkynhneigðir hér á landi barist fyrir því að gera Ísland líka byggilegr fyrir homma og lesbíur og stöðva landflótta þeirra. Það hefur tekist en tók stundum á kraftana. Vinnum að því með sameinuðu átaki allra norrænna þjóða að gera Færeyjar líka byggilegar fyrir samkynhneigða þegna sína og stöðva flótta þeirra úr eyjunum.

–HTS

Annað efni um málið:

RÁÐIST Á RASMUS RASMUSSEN

VIÐTAL VIÐ RASMUS UM LÍFIÐ Í FÆREYJUM

MÓTMÆLI OG UNDIRSKRIFASÖFNUN Á NETINU

FRÉTTIR AF ÞINGI NORÐURLANDARÁÐS

Leave a Reply