Skip to main content
search
Fréttir

GLÆSILEG HÁTÍÐ HINSEGIN DAGA: MANNFJÖLDI Á GÖTUM REYKJAVÍKUR

By 15. ágúst, 2006No Comments

Hinsegin dögum í Reykjavík lauk sunnudaginn 13. ágúst. Mikill mannfjöldi sótti hátíðina að vanda og var síst færra á götum borgarinnar en í fyrra, en þá nutu um 50.000 manns hátíðahaldanna. Erlendir gestir voru líka með flesta móti í þetta sinn og hafði hátíðin yfir sér sterkt alþjóðlegt yfirbragð. Veðrið lék við viðstadda, hlýtt og þurrt en sólarlítið.

Hinsegin dögum í Reykjavík lauk í sunnudaginn 13. ágúst. Mikill mannfjöldi sótti hátíðina að vanda og var síst færra á götum borgarinnar en í fyrra, en þá nutu um 50.000 manns hátíðahaldanna. Erlendir gestir voru líka með flesta móti í þetta sinn og hafði hátíðin yfir sér sterkt alþjóðlegt yfirbragð. Veðrið lék við viðstadda, hlýtt og þurrt en sólarlítið.

Hátíðahöldin í ár hófust á fimmtudegi að vanda með Eurovison-dansleik á NASA sem mikill fjöldi sótti en þar lék átta manna hljómsveit fyrir dansi ásamt Regínu Ósk og Friðrik Ómari. Á föstudagskvöld var svo Opnunarhátíð í Loftkastalanum fyrir fullu húsi. Þar skemmtu Rósa Guðmundsdóttir og bandaríska hljómsveitin Shitting Glitter, en eftir hlé fóru þær Vigdis & Ruth frá Noregi á kostum eins og þeim einum er lagið. Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, var meðal gesta í Loftkastalanum og ávarpaði hann samkomuna.

VINNA SEM TEKUR ENGAN ENDI

Klukkan tvö á laugardegi hélt gleðiganga Hinsegin daga af stað frá Hlemmi og var það mál manna að hún hafi verið með glæsilegasta og litríkasta móti. Í Lækjargötu var síðan haldin útiskemmtun og var Guðrún Ögmundsdóttir ræðumaður hátíðarinnar. Hvatti hún þegna landsins til að standa vörð um nýfengin mannréttindi samkynhneigðra og minnti á að vinnan að betra mannlífi tekur engan endi. Um kvöldið var svo hátíðardansleikur á NASA.

UNDIR REGNBOGANUM Í HALLGRÍMSKIRKJU

Einn sérstæðasti og eftirminnilegasti viðburður helgarinnar var Regnbogamessa í Hallgrímskirkju á sunnudegi. Þar predikaði sr. Pat Bumgardner frá söfnuði Metropolitan Community Church í New York og gagntók kirkjugesti með mælsku sinni, einlægni og tæputungulausum málflutningi. Sex íslenskir prestar tóku þátt í athöfninni en 20 manna blandaður kór söng við athöfnina.

Fjölmiðlar gerðu hátíðinni mjög góð skil. Til dæmis var sent út frá gleðigöngunni og guðþjónustunni á NFS svo að hægt er að fylgjast þar með liðnum atburðum í endursýningum þar. Nokkra athygli vakti auglýsing frá samvinnuhópi kristinna trúfélaga í Morgunblaðinu á laugardag, en á bak við það nafn standa kirkjurnar Krossinn, Vegurinn og fleiri þeim skyldar. Þar er hvatt til þess að samkynhneigðir leiti til svokallaðra hjálparsamtaka “sem hjálpa þeim sem vilja losna úr viðjum samkynhneigðar” undir yfirskyni “lækninga” á þeirri hneigð. Þess skal getið að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa opinberlega varað við þeirri hugmyndafræði og aðferðum sem slíkar stofnanir beita.

-ÞK og HTS

 

Skoðið myndir frá hátíðinni!


 

Leave a Reply