Skip to main content
Fréttir

Osló – Árlegur fundur Euro Pride

By 6. september, 2004No Comments

Frettir Fyrstu helgina í september var haldið í Osló árlegt þing þeirra evrópsku nefnda sem standa að hátíðahöldum Gay Pride víðsvegar um álfuna. Tveir fulltrúar Hinsegin daga í Reykjavík sóttu þingið, Þórarinn Þór og Guðjón Ragnar Jónasson, en alls sóttu það fulltrúar tólf annarra ríkja. Samstarf þetta hefur verið við lýði í nokkur ár og hafa Íslendingar verið þar fullgildir þátttakendur sl. fjögur ár.

Meginverkefni þingsins í ár var að tilnefna þá borg sem standa skal að Euro Pride 2006. London varð fyrir valinu, enda hugmyndir bresku sendinefndarinnar góðar og fjárhagsáætlun hennar traustvekjandi. Euro Pride 2005 verður haldið í Osló í júlí og vænta frændur vorir Norðmenn mikillar þátttöku úr röðum evrópskra homma og lesbía. Það mun standa í eina viku og enda á glæsilegri gleðigöngu með atriðum víðsvegar úr Evrópu. Auk gleðigöngunnar munu hinir ýmsu hópar norskra homma og lesbía standa fyrir margs konar menningarviðburðum, svo og ráðstefnu um stöðu þeirra Evrópubúa sem skipt hafa um kyn. Markmiðið með Euro Pride er að skapa samevrópskt andrúmsloft í tengslum við sjálfa hátíðina. Íslenska sendinefndin skorar nú á sem flesta að vera með atriði í göngunni í Osló. Það væri til dæmis ekki amalegt að sjá áhöfnina á Hommafossi sigla um breiðstræti Oslóborgar, og ef til vill er þetta kjörinn vettvangur fyrir þær lesbíur, sem klæddu sig svo glæsilega upp á í skrúðgöngu Hinsegin daga í sumar, til að kynna íslenska þjóðbúninga, íslenska ull og íslenska töðu á erlendri grund.

Á fyrri hátíðum Euro Pride hefur misjafnlega tekist til við að skapa þetta samevrópska andrúmsloft. Á þinginu í Osló kom til dæmis fram mikil gagnrýni á hátíð Euro Pride sem haldið var í Hamburg 12. júní sl. undir yfirskriftinni ?Ástin virðir engin landamæri?. Sannarlega samevrópskt slagorð en það eitt og sér virðist ekki hafa dugað til að ná fram þeirri stemmningu sem til er ætlast, og í rauninni var þar ekki um annað að ræða en hefðbundna þýska gleðigöngu. Þó má nefna hátíðinni í Hamborg til hróss að aðalræðumaður hennar var enginn annar en utanríkisráðherra Þýskaland, Joschka Fischer. Óneitanlega ber það vott um þá miklu viðurkenningu sem málstaður samkynhneigðra hefur hlotið víða í nyrðri hluta Evrópu.

Markmið þingsins í Osló var ekki ekki síst það að miðla þekkingu manna á milli um það hvernig halda skuli gleðigöngur og miðla því sem efst er á baugi í baráttu samkynhneigðra í hverju landi um sig. Sá árangur sem náðst hefur í norðanverðri álfunni hefur því miður látið á sér standa í suðurhluta hennar. Samkynhneigðir eru enn undir oki ósýnileikans í kaþólskum hluta álfunnar. Sem dæmi má nefna að ítalska ríkissjónvarpið fjallar nær ekkert um hin stóru og miklu hátíðahöld samkynhneigðra á Ítalíu né almennt um baráttuna þar í landi. Ástandið er enn verra í Póllandi og víða í Austur-Evrópu. Ekki er óalgengt að þátttakendur á hátíðunum séu hreinlega grýttir, líkt og gerðist í Kraká í fyrra, en það varð til þess að stjórnvöld bönnuðu hátíðahöld Gay Pride í Varsjá nú í sumar. Fulltrúi Póllands á ráðstefnunni í Osló lýsti þessum atburðum og er það mat hans að staða samkynhneigðra í Póllandi sé verri nú en fyrir tveimur árum. Rekur hann ástæðurnar til ákalls Páfagarðs til presta um að slaka hvergi á í fordæmingu sinni á hommum og lesbíum.

Fyrir okkur íslensku fulltrúana var ræða hollenska fulltrúans mjög áhrifamikil, en í henni lýsti hann því hvernig hómófóbía hefði upp á síðkastið skotið nýjum rótum meðal ungs fólks í Hollandi. Hann taldi meginástæðuna vera þá að nær alveg hafi verið látið af fræðslu í skólum um málefni samkynhneigðra, líf þeirra og tilfinningar. Með miklum framfaraskrefum á sviði löggjafar töldu menn sigurinn vera unninn í eitt skipti fyrir öll, en annað kom á daginn. Þessar fréttir frá Hollandi minna okkur enn og aftur á það að baráttan fyrir mannréttindum og félagslegu öryggi lesbía og homma er verkefni sem aldrei tekur enda. Þær eru áminning til okkar Íslendinga um að sofna nú ekki svefni Þyrnirósar hér á landi.

? Guðjón R. Jónasson

Leave a Reply