Skip to main content
search
Fréttir

BANKAÐ Á KIRKJUDYRNAR

By 12. desember, 2005No Comments

Nú er það svo að samkynhneigðir eru allflestir aldir upp í gagnkynhneigðu fjölskyldumynstri og hafa fengið uppfræðslu í gagnkynhneigð og gildum hins gagnkynhneigða þjóðfélags frá ungum aldri. Þeir eru því vel skólaðir í gagnkynhneigð. Því miður er það ekki svo um marga gagnkynhneigða að þeir hafi sömu þekkingu um samkynhneigð. Því er hér mikið verk að vinna til að allir aðilar sem koma að umræðunni um réttindi samkynhneigðra, sérstaklega á vettvangi íslenskrar þjóðkirkju, hafi sama þekkingargunn til að geta tekið afstöðu og mótað stefnu á vitrænan hátt. Fræðsla og hræðslulaus skoðanaskipti eru grundvöllurinn fyrir framförum í málefnum samkynhneigðra á vettvangi kirkju og kristni.

Samkynhneigðir hafa bankað á dyr kirkjunnar og fengið að kíkja inn á milli stafs og hurðar. Margir prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar hafa skilið mikilvægi málsins og unnið vel að auknum sýnileika og ábyrgð í málefnum samkynhneigðra á kirkjulegum vettvangi. En betur má ef duga skal. Ég lýsi eftir hugrekki innan kirkjunnar. Hugrekki til móta afstöðuna til homma og lesbía á grundvelli kristinnar lífssýnar, en ekki útfrá heljargreipum hefðarinnar. Ég er sannfærður um að grundvöllurinn fyrir farsælu samlífi kirkju og samkynhneigðra sé fyrir hendi. Það er von mín að samkynhneigðir hafi úthald til að halda áfram því samtali við kirkjuna sem hafið er og að kirkjan sé óhrædd og virk í þessu samtali.

Haukur F. Hannesson í jólahugvekju í Dómkirkjunni, desember 2001.

Leave a Reply