Skip to main content
Fréttir

TRANSAMERICA: FERÐASAGA KYNSKIPTINGS

By 17. febrúar, 2006No Comments

Fimmtudaginn 16. febrúar var kvikmyndin Transamerica frumsýnd í Regnboganum. Í henni segir frá Bree sem á aðeins eina aðgerð eftir til að hafa breytt líkama sínum úr karli í konu. Þegar Bree fær óvænt símtal frá pilti sem segist vera sonur hennar tekur líf hennar stakkaskiptum. Hún flýgur þvert yfir Bandaríkin, frá Los Angeles til New York til að koma syni sínum, sem hún vissi ekki af áður, til hjálpar og takast á við fortíðina. Felicity Huffman hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn í aðalhlutverki myndarinnar, en hún er Íslendingum að góðu kunn fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni sívinsælu um Aðþrengdar eiginkonur. Taktu þátt í laufléttum leik og fáðu frímiða á myndina að launum. Fimmtudaginn 16. febrúar var kvikmyndin Transamerica frumsýnd í Regnboganum. Í henni segir frá Bree sem á aðeins eina aðgerð eftir til að hafa breytt líkama sínum úr karli í konu. Þegar Bree fær óvænt símtal frá pilti sem segist vera sonur hennar tekur líf hennar stakkaskiptum. Hún flýgur þvert yfir Bandaríkin, frá Los Angeles til New York til að koma syni sínum, sem hún vissi ekki af áður, til hjálpar og takast á við fortíðina. Felicity Huffman hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn í aðalhlutverki myndarinnar, en hún er Íslendingum að góðu kunn fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni sívinsælu um Aðþrengdar eiginkonur. Taktu þátt í laufléttum leik og fáðu frímiða á myndina að launum.

Transamerica fjallar um efni sem hefur verið ofarlega á baugi í umræðu síðastliðinna ára, nefnilega það að skipta um kyn. Bree Osbourne (Felicity Huffman) fæddist karlmaður en áttaði sig á að hún ætti fremur heima í kvenmannslíkama en líkama karlmanns. Þess vegna hefur hún gengið í gegnum röð aðgerða til leiðréttingar á kyni sínu og á aðeins eina aðgerð eftir þegar myndin hefst. Hún leggur hart að sér í tveimur störfum til að safna fyrir síðustu aðgerðinni sem gerir hana endanlega að konu, líkamlega. Dag einn fær hún óvænta símhringingu frá ungum pitli í New York, Toby (Kevin Zegers), sem kveðst vera sonur hennar og þurfa á hjálp að halda. Bree hafði áður átt í samböndum við konur en hafði ekki hugmynd um að hún hefði feðrað barn með nokkurri þeirra. En hún er hvött áfram af þörf sinni til að vinna úr fortíð sinni áður en hún stígur skrefið til fulls og ákveður því að koma syni sínum til hjálpar. Þau ákveða síðan að verða samferða aftur til Los Angeles og það ferðalag á eftir að reynast þeim báðum lærdómsríkt.

AUKIN UMRÆÐA UM KYNSKIPTI

Felicity Huffman hefur verið lofuð óspart fyrir magnaða frammistöðu sína í kvikmyndinni. Hún hefur þegar hlotið Golden Globe fyrir hlutverkið auk verðlauna fyrir bestu frammistöðuna sem leikkon í aðalhlutverki frá hinum virtu gagnrýnendum í National Board of Review í Bandaríkjunum. Hæst trónir þó tilnefning til Óskarsverðlauna, önnur tveggja tilnefninga myndarinnar, en þau verða afhent 5. mars næstkomandi. Felicity Huffman hlýtur að teljast sigurstrangleg miðað við sigurgöngu hennar fram til þessa.

En vinsældir Transamerica hafa einnig veitt umræðunni um kynskipti byr undir vængi og þokað þeim áfram í Bandaríkjunum og víðar um heim. Hinsegin bíódagar skorast að sjálfsögðu ekki undan þeirri ábyrgð og verður þessi þáttur mannlegrar reynslu eitt af þemum hátíðarinnar. Boðið verður upp á áhugaverðar, fræðandi og umfram allt skemmtilegar heimildarmyndir um það fólk sem skiptir um kyn auk þess sem hinn virti fræðimaður hinsegin fræða og sérfræðingur í málefnum transgender-dólks, Susan Stryker, verður einn af heiðursgestum hátíðarinnar. Föstudaginn 10. mars mun hún halda fyrirlestur í fyrirlestraröðinni „Kynhneigð – Menning – Saga“ í Háskóla Íslands. Susan er heimsþekkt fyrir framlag sitt til upplýstrar umræðu um líf og reynslu transgender-fólks og hefur sent frá sér fjölda fræðigreina og ritstýrt safnritum um það efni. Eftir hana liggja tvö vinsæl heimildarit, Gay by the Bay og Queer Pulp, og hún er annar höfundur heimildamyndarinnar Screaming Queens sem verður einmitt sýnd á Hinsegin bíódögum.

VILTU VINNA ÓKEYPIS MIÐA?

Í tilefni af sýningu Transamerica hafa Samtökin ’78 tekið saman höndum með Regnboganum sem ætlar að bjóða 40 frímiða á myndina til lesenda síðunnar. Það eina sem þarf að gera er að senda tölvupóst á office@samtokin78.is og svara spurningunni: „Hvað heitir erlendi gesturinn og sérfræðingur í málefnum kynskiptinga sem er væntanlegur í tengslum við fyrirlestraröð í Háskóla Íslands og hvað heitir heimildarmyndin sem hún gerði og verður sýnd á Hinsegin bíódögum?“ Fjörutíu fyrstu sem svara rétt vinna miða á myndina.

–BKS

Leave a Reply