Skip to main content
Fréttir

Reykjavík – Kvikmyndahátíð með hinsegin ívafi

By 28. september, 2005No Comments

Frettir Alþjóðleg kvikmyndahátíð er haldin í Reykjavík þessa dagana, Hún hófst 29. september og stendur til 9. október. Á ellefu dögum gefst kvikmyndaunnendum tækifæri til að sjá frábært úrval mynda víða að úr heiminum, en alls eru fimmtíu myndir syndar þessa daga. Vefur Samtakanna ´78 vekur sérstaka athygli á þeim kvikmyndum sem varða samkynhneigða og hvetur lesendur sína til að skreppa í bíó þessa daga. Sérstök afsláttarskírteini eru til sölu í versluninni Iðu við Lækjargötu þar til hátíðin hefst.

Ungur og vitlaus

Ungur og vitlaus (Garçon stupide) fjallar um Loic, ungan homma sem starfar í súkkulaðiverksmiðju og stundar lífleg kynlífsævintýri milli þess sem hann ræktar vináttuna við Marie, æskuvinkonu sinni. Loic lítur á kynlíf sem hvern annan neysluvarning, en neitar að sama skapi að horfast í augu við eigin tilfinningar. Þegar Loic kynnist Lionel, dularfullri sögupersónu sem aldrei sést í myndinni, opnast honum ný sýn á lífið á mikilvægum tímamótum. Þessi frumraun leikstjórans Lionel Baier hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum heimsins og hlotið frábæra umsögn gagnrýnenda. Myndin er svissnesk og frá árinu 2004.

Sýningar: Regnboginn, 2. október kl. 20 og 5. október kl. 22.

Enginn aðskilnaður

Enginn aðskilnaður (Zero Degrees of Seperation) lýsir ástandinu í Mið-Austurlöndum með öðrum hætti en gert er í kvöldfréttunum Tveimur samkynhneigðum pörum er gefinn gaumur, en í báðum tilvikum er annar aðilinn ísraelskur en hinn palestínskur. Palestínumaðurinn Selim og Ísraelinn Ezra berjast fyrir rétti sínum til þess að búa saman í Jerúsalem, í sífelldum ótta við að Selim verði borinn út. Auk þess þurfa þeir að þola fordóma og áreiti samfélagsins vegna kynhneigðar sinnar. Lesbíurnar Edit og Samira búa við svipaðar aðstæður og reyna hvað þær geta til þess að brúa bilið sem skilur menningarheima þeirra að. Þó að þær kljáist daglega við dulbúið óréttlæti sem birtist m.a. í vinnuleyfum og hliðum ísraelska hersins, auk aðskilnaðar og árása, þá halda þær samt alltaf í vonina og leyfa hatrinu ekki að taka völdin. Þessi merkilega mynd er kanadísk, frá árinu 2005.

Sýningar: Tjarnarbíó, 4. október kl. 21 og 6. október kl. 17.

Elle Flanders á Íslandi

Höfundur myndarinnar Enginn aðskilnaður, Elle Flanders, er gestur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík og tala um friðarhreyfingar í Ísrael og Palestínu í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, Skaftahlíð 24, þriðjudaginn 4. október kl. 17:15. Mjög áhugavert tækifæri til að fá innsýn í líf lesbía og homma á einu skelfilegasta átakasvæði heimsins.

Sumarást

Þá er hér vakin athygli á kvikmyndinni Sumarást (My Summer of Love) sem lýsir sambandi tveggja vinkvenna, Monu og Tasmin, en myndin er að sögn þeirra sem standa að hátíðinni með lesbísku ívafi. Mona er einræn unglingsstúlka sem býr með bróður sínum í gamalli krá. Dag ein hittir hún hina ríku en rótlausu Tasmin sem þá hefur verið rekin úr enn einum heimavistarskólanum. Myndin sýnir á áhrifamikinn hátt skin og skúri sumarsins í lífi þriggja breskra unglinga. Þessi bresk-pólska mynd er frá árinu 2004 og var valin besta kvikmyndin á Edinborgarhátíðinni 2004. Einnig var hún valin besta breska kvikmyndin á BAFTA verðlaunahátíðinni.

Sýningar: Regnboginn, 30.september kl. 18 og 1. október kl. 16.

George Michael: Önnur saga

George Michael: Önnur saga (George Michael: A Different Story) er heimildarmynd um söngvarann og fyrrum Wham-félagann George Michael. Margt hefur verið sagt og skrifað um hann gegnum tíðina, en að þessu sinni er sagan sögð frá sjónarhorni hans sjálfs. Í myndinni ræðir George Michael opinskátt um líf sitt. Hann segir frá uppeldi sínu, talar um frægðina, friðhelgi einkalífsins, deiluna við útgáfurisann Sony og segir frá þeirri uppákomu þegar hann fyrir nokkrum árum var handtekinn fyrir kynmök við karlmann á almenningsalerni með tilheyrandi fjölmiðlafári. Myndin er bresk, frá árinu 2005, og hefur verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum homma og lesbía á þessu ári.

Sýningar: Háskólabíó 4. október kl. 22 og 5. október kl. 18.

?ÞK

Leave a Reply