Skip to main content
search
Fréttir

PRESTAR OG FORSTÖÐUMENN TRÚFÉLAGA GETA STAÐFEST SAMVIST

By 30. maí, 2008No Comments

Frumvarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem heimilar prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga, sem hafa vígsluheimild, að staðfesta samvist samkynhneigðra para, var samþykkt sem lög frá Alþingi í nótt. Lögin marka tímamót í mannréttinda- og jafnréttismálum því með þeim verður enginn sýnilegur munur á lagalegri réttarstöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Næsta skref hlýtur því að verða að sameina hjúskaparlöggjöfina í eina löggjöf óháð kynhneigð. Í nefndaráliti með lagafrumvarpinu taka fulltrúar allra flokka undir þá skoðun.

Frumvarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem heimilar prestum, og forstöðumönnum skráðra trúfélaga sem hafa vígsluheimild, að staðfesta samvist samkynhneigðra para var samþykkt sem lög frá Alþingi í nótt.

Síðast liðið haust samþykkti Kirkjuþing að heimila prestum Þjóðkirkjunnar að staðfesta samvist samkynhneigðra. Önnur trúfélög sem lýst hafa yfir vilja til þess að nýta slíka heimild eru Fríkirkjan í Reykjavík, Fríkirkjan í Hafnarfirði og Ásatrúarfélagið. Með hinum nýju lögum hafa samkynhneigðir nú val um trúarlega eða borgaralega staðfestingu samvistar, en lögin munu taka gildi þann 27. júní nk. á alþjóðlegum mannréttindabaráttudegi samkynhneigðra.

Lögin marka tímamót í mannréttinda- og jafnréttismálum því með þeim verður enginn sýnilegur munur á lagalegri réttarstöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Næsta skref hlýtur því að verða að sameina hjúskaparlöggjöfina í eina löggjöf óháð kynhneigð. Í því ljósi gefur nefndarálit allsherjarnefndar með lagafrumvarpinu góð fyrirheit um framhaldið en þar segir meðal annars:

Nefndin telur að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref til í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Er með frumvarpinu fylgt eftir þeim stefnumiðum sem lágu til grundvallar lögum nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Telur nefndin eðlilegt að næsta skref í þessum efnum verði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að fella saman í einn lagabálk lagaákvæði um hjúskap og staðfesta samvist og að sú endurskoðun hefjist hið fyrsta.

Undir þetta skrifa fulltrúar allra stjórnmálaflokka í allsherjarnefnd sem sæti eiga á Alþingi. Lögin voru samþykkt móttatkvæðalaust af öllum viðstöddum alþingismönnum.

-HTS

Ferill málsins

Nefndarálit allsherjarnefndar

 

 

 

Leave a Reply