Skip to main content
Fréttir

Takið þátt í netkosningu: – Hrein og bein tilnefnd til Edduverðlauna

By 6. október, 2003No Comments

Frettir Edduverðlaunin verða veitt í fimmta sinn við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica, föstudaginn 10. október. Það er Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían sem stendur að þessum árvissa viðburði í íslensku menningar- og listalífi.

Ein þeirra mynda sem tilnefnd er í flokki heimildarmynda er kvikmyndin Hrein og bein eftir þau Hrafnhildi Gunnarsdóttur kvikmyndagerðarmann og Þorvald Kristinsson bókmenntafræðing. Myndin byggist á viðtölum við unga viðmælendur, lesbíur og homma, og var upphaflega framleidd með það í huga að vera stuðningsefni í umfjöllun um samkynhneigð í skólum landsins. Með henni var sannarlega brotið blað í sögu Íslendinga, því hún er fyrsta kvikmyndin um líf og reynslu samkynhneigðra hér á landi.

Óhætt er að segja að kvikmyndin hafi hlotið afbragðs dóma áhorfenda og gagnrýnenda jafnt á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Á virtustu kvikmyndahátíð samkynhneigðra í heiminum, San Francisco Lesbian and Gay Film Festival, hlaut hún til að mynda hin eftirsóttu Stu & Daves Excellent Documentary Award sem besta heimildarmynd ársins. Á kvikmyndahátíð í Indianapolis í Bandaríkjunum var hún af áhorfendum kjörin ?uppáhaldsmynd ungra áhorfenda?. Auk þess hefur hún verið sýnd við góðar undirtektir á Hinsegin dögum í Stokkhólmi og á kvikmyndahátíð í Belgrad, og mun á næstunni ferðast á enn fleiri kvikmyndahátíðir. Þess má geta að á kvikmyndahátíðum sem þessum keppa nokkrir tugir nýlegra kvikmynda víðsvegar að úr heiminum.

Almenningi gefst kostur á að taka þátt í kosningu Edduverðlaunanna á sérvef Morgunblaðsins:

Leave a Reply