Skip to main content
Fréttir

FYRIRLESTRARÖÐ: GLÆPURINN KYNVILLA

By 26. janúar, 2006No Comments

Í vetur bjóða Samtökin ´78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni „Kynhneigð – Menning – Saga“. Meðal fyrirlesara eru tveir heimsfrægir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við félagsvísindadeild HÍ, RIKK – Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Hugvísindastofnun HÍ, FSS – Félag STK-stúdenta og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir.

GLÆPURINN KYNVILLA

Í fyrirlestri sínum, Glæpurinn kynvilla – Samkynhneigð og refsilöggjöf 1869–1992, sem haldinn er 10. febrúar, rekur Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur, hvernig íslensk refsilöggjöf tók á kynlífi samkynhneigðra frá 1869, þegar refsiákvæði um „samræði gegn náttúrlegu eðli“ var í lög leitt, til 1992 þegar sérákvæði refsilöggjafarinnar um mök fólks af sama kyni voru afnumin. Hún hugar að því menningarlega landslagi sem skóp þessi lög og skoðar íslenska laga- og dómahefð með hliðsjón af þróun mála annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma.

Leave a Reply