Skip to main content
search
Fréttir

Vel heppnað draggkvöld – Draggkóngur Íslands krýndur

By 4. ágúst, 2005No Comments

Frettir Blað var brotið í sögu draggsins á Íslandi miðvikudaginn 3. ágúst þegar haldin var í fyrsta sinn keppni milli draggdrottninga og draggkónga. Húsið var opnað klukkan 21 en hálftíma fyrr var komin löng biðröð fyrir utan. Gera má ráð fyrir að um 500 manns hafi verið á Gauki á Stöng og stemmningin var engu lík.

Helga Braga sló rækilega í gegn sem kynnir kvöldsins, og tók nokkur magadansspor auk þess sem hún brá sér í gervi Gyðu Sólar við mikla kátínu. Keppendurnir voru fimm talsins, þrjár drottningar og tveir kóngar: Tourette (drottning), Pierre (kóngur), Cassandra (drottning), Tínó (kóngur) og Smóký (drottning).

Dómnefnd skipuðu Jón Árni, sem var formaður, Silvía Nótt, Love Guru, Ester Talía Casey og Helgi Þór Arason. Það kostaði þau blóð, svita og tár að ákveða sigurvegarann og var spennan í salnum nánast óbærileg meðan beðið var eftir úrslitum.

Þegar niðurstaðan lá loksins fyrir kom í ljós að salurinn var dómnefndinni innilega sammála því gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar tilkynnt var að fyrsti Draggkóngur Íslands er hinn bráðskemmtilegi Tínó the Tangólover.

-Georg og Bjössi

Leave a Reply