Skip to main content
Fréttir

HINSEGIN FJALLKONA

By 12. desember, 2005No Comments

Gay Pride ber með sér flest einkenni þjóðhátíðar en hefur yfir sér brag sem 17. júní hefur löngu týnt. Þarna eru ekki einhverjir skátar að norpa með fánann í þegnskylduvinnu, heldur hefur einhver gripið fána til að bera hann ef hreinu stolti. Í göngunni er einmitt hópur sem hefur barist fyrir málstað og unnið sigur og veit að frelsi eða sjálfstæði eru alls ekki sjálfgefin fyrirbæri eða útþvæld orð í munni stjórnmálamanna.

Eins og í allri sjálfstæðisbaráttu notar hópurinn ýkt tákn til að skilgreina sig. Þarna er regnbogafáninn sem tákn umburðarlyndis og fjölbreytileika. Í stað fjallkonunnar birtist draggdrottningin og þjóðsöngvar óma a la Gloria Gainor. Í stað karlmennskutákna sjómannsins og bóndans kemur leður og latex og frelsishetjurnar eru lifandi en ekki steyptar í eir.

Á Gay Pride eru margir sem hafa bælt tilfinningar sínar, farið í felur með þær, goldið þeirra og mætt fordómum, sætt mismunun og jafnvel ofbeldi. Þarna eru jafnvel menn sem hröktust úr landi. Í þessum hópi hefði átt að vera fólk sem tók líf sitt af ótta við útskúfun samfélagsins. Þarna eru ættingjar og vinir að stíga fram og sýna ástvinum sínum samstöðu. Mikil þátttaka almennings gerir gönguna að stórsigri, enda snýst baráttan ekki síst um viðurkenningu samfélagsins.

Andri Snær Magnason í Fréttablaðinu, ágúst 2004.

Leave a Reply