Skip to main content
search
Fréttir

Dragdrottning Íslands

By 3. september, 2003No Comments

Tilkynningar Keppnin um Dragdrottningu Íslands er orðin fastur viðburður í skemmtanalífinu á Íslandi og er hún nú haldin sjöunda árið í röð. Síðustu þrjú ár hefur Spotlight verið vettvangur keppninnar, en eftir troðninginn sem þar var á síðasta ári var ákveðið að nú þyrfti stærra húsnæði! Keppnin hefur því flutt um set á skemmtistaðinn NASA en þar fer næsta keppni fram laugardaginn 13. september.

Eins og þeir vita sem hafa fylgst með Dragdrottningu Íslands undanfarin ár þá er keppnin sífellt að taka breytingum og er aldrei með sams konar yfirbragði frá ári til árs. Þannig var “Ungfrú Ísland” þema keppninnar árið 2000, árið eftir var það “Moulin Rouge”, og í fyrra var sannkölluð Eurovisionveisla með tilheyrandi spennu í stigagjöfinni, því úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin.

Í ár verður Hollywood-bragur á keppninni, því þema kvöldsins er Óskarsverðlaunaafhendingin. Páll Óskar verður í hlutverki aðalkynnis og hinar og þessar stjörnur munu stíga á svið, auk sjálfra keppendanna að sjálfsögðu.

Fyrir þá sem vilja taka forskot á sæluna er rétt að benda á vefsíðu keppninnar en þar er hægt að skoða keppendur, líta á myndir og taka þátt í netkosningu og þannig hafa áhrif á úrslitin.

Mætum öll á Nasa 13. september á Dragdrottningu Íslands 2003!

Leave a Reply