Skip to main content
search
Fréttir

HINSEGIN BÍÓDAGAR Í REGNBOGANUM

Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar er haldin í Reykjavík 16. til 26. mars. Allar sýningar hátíðarinnar verða í Regnboganum við Hverfisgötu og boðið er upp á mikið úrval nýrra og nýlegra kvikmynda sem vakið hafa athygli í austan hafs og vestan. Alls eru sýndar um þrjátíu myndir á hátíðinni. Vefur hátíðarinnar er www.hinbio.org og hvetjum við áhugafólk um hinsegin kvikmyndir til að líta þangað sem fyrst. Dagskrárrit hátíðarinnar kemur út 8. mars.

Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar verður haldin í Reykjavík 16.–26. mars. Allar sýningar hátíðarinnar verða í Regnboganum við Hverfisgötu og boðið er upp á mikið úrval nýrra og nýlegra kvikmynda sem vakið hafa athygli í austan hafs og vestan. Alls eru sýndar um þrjátíu myndir á hátíðinni. Stjórnandi hennar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir en fjöldi fólks í hreyfingu samkynhneigðra kemur að undirbúningi hennar. Vefur hátíðarinnar er www.hinbio.org og hvetjum við áhugafólk um hinsegin kvikmyndir til að líta þangað sem fyrst. Dagskrárrit hátíðarinnar kemur út 8. mars og er sent í pósti til allra félagsmanna Samtakanna ´78, en aðrir munu finna það alls staðar þar sem fólk kemur saman.

 

SKRÆKJANDI DROTTNINGAR OG BANGSALINGAR

Föstudaginn 10. mars heldur bandaríska fræðikonan Susan Stryker hádegisfyrirlestur á vegum Samtakanna ´78 í Háskóla Íslands og nefnist hann „Introduction to transgender Studies“. Þann sama dag kl. 20 er svo kvikmynd hennar Screaming Queens sýnd í Regnboganum og er það fyrsta sýningin á hátíðinni.

Fimmtudaginn 16. mars er svo hina formlega opnunarsýning hátíðarinnar kl. 20. Það er spænska kvikmyndin Bangsalingur. Að lokinni sýningu er öllum bíógestum boðið til opnunarveislu á Kaffi Sólon við Bankastræti. Hátíðin stendur síðan næstu tíu daga.

ÓVENJULEG FJÖLBREYTNI

Hinsegin bíódagar eru óðum að eignast fastan sess í menningarlífi Reykjavíkur. Síðasta hátíð, sem haldin var í mars 2004, hlaut svo góðar undirtektir að nú hefur hreyfing okkar aftur tekið höndum saman við Regnbogann um kvikmyndaveislu á hinsegin nótum. Í þetta sinn er lögð talsverð áhersla á það að kynna myndir sem lýsa ýmsu því sem menn vilja láta liggja í láginni, margt sem hinsegin fólk þegir líka um sjálft – af ótta við að verða misskilið og auðmýkt. En til að gefa tilverunni merkingu er mikilvægt að fjalla um alla þætti hennar. Líf og reynsla transgender fólks, lesbíur af lágstéttum og lítilsvirtum uppruna, hommar sem tala máli fasisma og nasisma, samkynhneigt fólk sem verður fyrir kynferðislegri eða trúarlegri valdbeitingu í æsku – þetta eru fáein dæmi um þá óvenjulegu fjölbreytni sem birtist á hvíta tjaldinu á Hinsegin bíódögum. En á hátíðinni er umfram allt leitast við að skemmta gestum hennar, með dramatískum ástarsögum eða hömlulausu gríni, með óborganlegri tilgerð eða einlægni sem hittir í hjartastað.

MIÐASALA – DAGSKRÁRRIT

Miðasala á Hinsegin bíódaga er í Regnboganum þá daga sem hátíðin stendur. Miðaverð á stakar sýningar er 700 kr. Hægt er að kaupa afsláttarkort á fjórar sýningar að eigin vali fyrir 2000 kr. Hvaða sýningu fólk velur ræðst síðan við miðasöluna í Regnboganum, en hægt er að kaupa kortin bæði í Regnboganum og í Samtökunum ´78, Laugavegi 3 frá 10. mars. Þessi afsláttarkort nutu gríðarlegra vinsælda á Hinsegin bíódögum 2004 svo rétt er að tryggja sér þau í tíma, en þau eru gefin út í takmörkuðu upplagi. Til að nálgast þau er best að koma við á skrifstofu Samtakanna ´78 eða skrifa til skrifstofa@samtokin78.is ellegar hringja í síma 552 7878 og láta taka frá kort og millifæra um leið greiðslur.

VERÐLAUN

Á miðnætti næstsíðasta kvöld hátíðarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum mun tvískipt dómnefnd tilnefna bestu myndir hátíðarinnar í þremur flokkum:
Besta leikna kvikmyndin
Besta heimildarmyndin
Besta stuttmyndin

Í dómnefnd eiga sæti:

Fyrir heimildarkvikmyndir og stuttmyndir: Dagný Kristjánsdóttir, Hannes Páll Pálsson og Kristín Pálsdóttir sem er formaður nefndarinnar.

Fyrir leiknar kvikmyndir: Felix Bergsson, Kristín Ómarsdóttir og Sveinbjörn I. Baldvinsson sem er formaður nefndarinnar.

Hittumst undir regnboganum – í Regnboganum – en lítið fyrst á www.hinbio.org

-ÞK

Leave a Reply