Skip to main content
search
Fréttir

Tvíkynhneigð

By 26. apríl, 2006No Comments

Getur maður ekki líka verið tvíkynhneigður? Hvernig á maður að snúa sér í þeim efnum? Hvernig veit maður með hvaða kyni maður vill verja ævinni með? Spurt: Getur maður ekki líka verið tvíkynhneigður? Hvernig á maður að snúa sér í þeim efnum? Hvernig veit maður með hvaða kyni maður vill verja ævinni með?

Svarað: Jú, svo sannarlega er hægt að vera tvíkynhneigður og þannig mun vera um mikinn hluta mannkyns. Tvíkynhneigðir hafa nokkrum sinnum komið fram og sagt frá reynslu sinni í íslenskum fjölmiðlum, og á bókasafni Samtakanna ´78 er vandað úrklippusafn þar sem lesa má heiðarleg viðtöl við tvíkynhneigt fólk um reynslu þess. Kannski getur þú fundið svör við ýmsu varðandi eigin tilfinningar með því að kynna þér þetta efni.

Tvíkynhneigðir kunna meðal annars frá því að segja að fátt sé eins sárt og það hve þeir eru tortryggðir, ekki bara af gagnkynhneigðum heldur líka og ekki síður af samkynhneigðum. Því miður álykta margir samkynhneigðir sem svo að fólk sem skilgreinir sig sem tvíkynhneigt þori ekki að gangast við eigin samkynhneigð. Sú ályktun er gróf einföldun og rangsnúningur á staðreyndum lífsins en stafar sennilega af þeirri staðreynd að margir þeir sem líta á sig sem lesbíur og homma hafa á einhverju skeiði ævinnar talið sig tvíkynhneigða og komist síðar að þeirri niðurstöðu í ljósi reynslunnar að samkynhneigðin var þrátt fyrir allt kjarni eigin tilfinninga.

Lítum á það sem karlmaður nokkur hafði eitt sinn um þetta að segja: „Ég vissi frá því ég var ellefu ára að ég laðaðist að öðrum strákum og karlmönnum en hætti ekki á það að prófa mig áfram heldur fór þá leið að eiga ástarsambönd og kynlíf með stúlkum og naut þess. Um tvítugt leit ég samt á mig sem tvíkynhneigðan án þess að hafa nokkurn tíma notið karlmanns. Svo kom að því að ég leyfði mér að verða ástfanginn af strákum og svaf hjá þeim og þá sannfærðist ég um að sá hluti var miklu sterkari en hinn. Ég játaði fyrir sjálfum mér að ég hafði aldrei lagt það á mig að hlaupa eftir stúlku til að vinna hana, aldrei vætt koddann minn út af stúlku sem ekki vildi mig, en hvort tveggja reyndi ég fljótlega með öðrum strákum. Svo ég ályktaði sem svo að samkynhneigðin væri miklu sterkari þáttur í tilfinningalífinu en gagnkynhneigðin og ákvað að taka fulla ábyrgð á henni. Í dag skilgreini ég mig þess vegna sem homma, allir mínir draumar snúast um mitt eigið kyn.“

Við stöndum með öðrum orðum frammi fyrir blæbrigðaríku litrófi mannlegra tilfinninga og hvata. Þar verðum við að muna að í rauninni getur enginn skilgreint hvatalíf og ástarhneigð annarra manna, heldur einungis sjálfs sín. Að sýna annarri manneskju fulla virðingu felst meðal annars í því að virða sjálfsskilning hennar fullkomlega í þessum efnum. Ekki kemur fram í spurningu þinni á hvaða aldri þú ert né hvaða reynslu þú hefur af ástum með öðrum. Eina leiðin til að þekkja tilfinningar þínar er að leita þér að lífsreynslu. Kannski kemstu að því eftir nokkra leit að þú hneigist jafnt að báðum kynjum, kannski einkum að eigin kyni eða þá fyrst og fremst að gagnstæðu kyni. Aðeins reynslan getur svarað þessu. Tvíkynhneigðir eru sannarlega velkomnir á vettvang Samtakanna ´78 og ólíklegt er að nokkur hlýði þér yfir það að fyrra bragði hvaða tilfinningar þú berð til annarra manneskja. Ef þú ert undir 20 ára aldri ert þú til dæmis velkomin/n í Ungliðahóp Samtakanna ´78 þar sem talsvert er um ungt tvíkynhneigt fólk. Fátt er hollara samkynhneigðum og tvíkynhneigðum – að ógleymdum gagnkynhneigðum – en að rækta vináttu og náin félagsskap til að vinna á ranghugmyndum og fáfræði.
Fólk sem hefur valið sér lífsförunaut og sýnt honum tryggð um langa ævi getur borið vitni um að það hafi stundum fundið löngun til ásta og kynlífs með öðrum en maka sínum. Gegnir þá einu hvort fólk telur sig gagnkynhneigt, tvíkynhneigt eða samkynhneigt. Varla gengur nokkur manneskja gegnum lífið án þess að hrífast að fleiri en einni eða einum. Hitt er svo annað mál hvort við látum eftir þrám okkar og löngunum. Trygglyndi og einlyndi í ástum er sumum auðvelt og nærtækt en aðrir hneigjast til fjöllyndis á láta eftir lögnunum sínum í þá veru. Hér er enginn dómur lagður á hegðun fólks í þeim efnum, það á hver við sína eigin samvisku. En varla er ástæða til að ætla að það að velja sér lífsförunaut og sýna honum eða henni tryggð sé erfiðara eða kosti meiri sjálfsafneitun fyrir tvíkynhneigða en aðra. Farsælt ástarsamband við aðra manneskju kostar ævinlega talsverðan sjálfsaga.

Hvaða leið sem þú velur í lífinu skiptir mestu máli að þú sýnir heiðarleika um eigin tilfinningar, hverjar sem þær eru, og standir við þær hverju sinni. Og um leið er hollt að muna að þekking okkar mannanna á eigin tilfinningum breytist og þróast alla ævi – frá vöggu til grafar.

Þorvaldur Kristinsson

Leave a Reply