Skip to main content
search
Fréttir

Neyðaróp íhaldsaflanna – Páfagarður sker upp herör gegn hommum og lesbíum

By 1. ágúst, 2003No Comments

Frettir Fimmtudaginn 31. júlí sendi Páfagarður í Róm frá sér tólf síðna yfirlýsingu á sjö tungumálum þar sem allir menn eru hvattir til þess að sameinast í baráttunni gegn hjónaböndum samkynhneigðra og rétti þeirra til ættleiðinga. Með þessari herferð vonast talsmenn Vatíkansins til þess að stemma megi stigu við almennri viðurkenningu á sambúð og samlífi samkynhneigðra á Vesturlöndum, þeirri viðurkenningu sem líf þeirra og tilvera nýtur á vettvangi löggjafarvaldsins víða um lönd. Samkvæmt yfirlýsingunni hafa kaþólskir sjórnmálamenn ?siðferðilega skyldu? til að berjast gegn lagalegum ávinningum samkynhneigðra para og vaxandi viðurkenningu á mannréttindum þeirra. Um leið eru þeir sem standa utan kaþólsku kirkjunnar hvattir til að leggja málstað páfa lið þar sem hann snúist um ?almenn siðgæðislögmál? en ekki einvörðungu kaþólskar kennisetninga svo vitnað sé til varðhundar Páfagarðs, Trúarkenningarráðsins svonefnda. Þessi árás á mannréttindi samkynhneigðra er hin öflugasta úr Páfagarði um árabil og bersýnilega örvæntingarfull tilraun til að rugla stjórnmálamenn heims í ríminu.

Yfirlýsingin er að formi til leiðbeining til kaþólskra um afstöðu til mannréttindakröfu lesbía og homma og samþykkt af Jóhannesi Páli II páfa en undirrituð af Joseph Ratzinger, afar íhaldsömum kardínála sem af stjórnmálaskýrendum er nú talinn valdamestur í páfagarði næst á eftir páfa sjálfum. Yfirlýsingin hefur verið harðlega gagnrýnd víða um heim, einkum í Bandaríkjunum þar sem vald kirkjudeilda á stjórnmálamenn er snöggtum meira og almennara en í Norður-Evrópu.

Óumræðileg smán

?Þessi nýja yfirlýsing er ætluð til þess að þvinga kjörna stjórnmálamenn um allan heim til að framkvæma það sem Vatikanið er ekki sjálft fært um að gera ? stöðva framþróun réttlætisins,? sagði Marianne Duddy, yfirmaður Dignity USA, sem eru samtök kaþólskra lesbía og homma í Bandaríkjunum. ?Það er óumræðileg smán að leiðtogar kirkjunnar okkar skuli gerast talsmenn ofsókna og frekari kúgunar.?

Engu að síður hafa margir orðið til að fagna yfirlýsingunni og ber þar hæst kirkjunnar menn í Póllandi þaðan sem páfi er ættaður, en þar gripu biskupar plaggið fegins hendi þegar það barst úr páfagarði síðasta dag júlímánaðar og lásu það upp og túlkuðu á blaðamannafundi um leið og þeir fordæmdu þingsályktunartillögu vinstri sinnaðra þingmanna í Póllandi um að staðfesta sambúð samkynhneigðra fyrir lögum. ?Hugmyndin að baki þeirri tillögu er siðlaus og beinlínis árás á fjölskylduna og hjónabandið,? sagði Stanislaw Stefanek biskup í Varsjá.

Striðsáætlun handa stjórnmálamönnum

Yfirlýsing páfagarðs er að formi til stríðsáætlun handa íhaldsömum stjórnmálamönnum til að takast á við lagafrumvörp í heimalöndum þeirra sem lúta að lögleiðingu samkynhneigðra sambanda og rétti samkynhneigðra til ættleiðinga. Í yfirlýsingunni stendur meðal annars að börn sem alin séu upp af samkynhneigðum foreldrum mæti ?hindrun? á þroskabrautinni af því að þau hafi verið ?svipt réttinum? til að eiga bæði móður og föður. ?Að veita brautargengi lögum sem eru svo skaðleg almennri velferð er siðlaust í hæsta máta,? segir í yfirlýsingunni sem þó vogar sér ekki að nefna hvaða refsingar bíði þeirra kaþólsku stjórnmálamanna sem styðja mannréttindi samkynhneigðra í verki.

Ábyrgðin er gagnvart almenningi ? ekki kirkjunni

Ekki er enn ljóst hvaða áhrif yfirlýsingin muni hafa á aðgerðir löggjafarvaldsins í þeim ríkjum Vesturlanda þar sem kaþólskir fara með völd. Margt bendir til að hún verði umfram allt túlkuð sem neyðaróp úr Páfagarði, úr takti við mannréttindahugmyndir nútímans og umfram allt dæmi um siðferðilega og pólitíska einangrun Vatíkansins. Þó ber ekki vanmeta ómæld áhrif páfa á fátækar og illa upplýstar þjóðir heims. Viðhorf vestrænna stjórnmálamann birtast skýrt í aftstöðu Jean Cheretiens, forsætisráðherra Kanada, sem sjálfur er kaþólskur og veitir rétti samkynhneigðra til hjónabanda fullt brautargengi. ?Sem forsætisráðherra Kanada ber hann þá siðferðilegu ábyrgð að tryggja öllum Kanadamönnum fullt jafnrétti,? sagði talsmaður hans, Thoren Hudyma, í viðtali við The [Toronto] Globe and Mail, og lagði áherslu á að Chretien forsætisráðherra bæri sem stjórnmálamaður ábyrgð gagnvart almenningi í landi sínu, ekki kirkju sinni.

Með inngöngu nokkura kaþólskra ríkja í Evrópusambandið er fyrirsjáanlegt að enn fleiri skref verða stígin á næstu árum í átt til aukins frjálsræðis og lagabóta til handa samkynhneigðum í álfunni. Þar sem andstaða við aukin réttindi samkynhneigðra er töluvert meiri en í núverandi aðildarríkum er líklegt að til átaka muni koma á Evrópuþinginu þegar slík mál verða tekin fyrir á næstu árum. Í þessu samhengi er athyglisvert að yfirlýsing Páfagarðs beinist sérstaklega að þeim sem fara með hið veraldlega vald, það er að segja stjórnmálamönnum.

? ÞK, ? HTS

Advocate / AP o. fl.

Leave a Reply