Skip to main content
Fréttir

www.samtokin78.is – Vefurinn varð 4 ára í janúar

By 13. mars, 2005No Comments

Frettir Vefsíða Samtakanna ´78, www.samtokin78.is, hefur nú verið haldið úti í fjögur ár. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um félagið, tilgang þess og markmið, félagsstarf, fræðslu og ráðgjöf sem þar stendur til boða. Í öðru lagi er vefsíðan vettvangur fræðslu um baráttumál, líf, menningu og sögu lesbía og homma og þar er að finna greinasafn eða gagnabanka. Þessi gagnabanki myndar nú þegar allgott safn til sögu samkynhneigðra og gæti með meiri vinnu orðið burðarás fræðslu og umræðu um málefni lesbía og homma. Hrafnkell T. Stefánsson og Þorvaldur Kristinsson ritstýra vefsíðunni ásamt Alfreð Haukssyni sem einnig annast vefstjórn. Þó að texti síðunnar breytist og þróist er hann reglulega vistaður til varðveislu á tölvutæku formi og því ómetanleg heimild um sögu lesbía og homma á Íslandi. Stjórnendur vefsíðunnar hvetja alla til þess að koma með ábendingar varðandi efni og uppsetningu og lýsa eftir efni sem hentar vel í greinasafnið eða í grunntexta vefsíðunnar. Fjöldi heimsókna á vefinn hefur aukist jafnt og þétt. Á undangengnu starfsári, sem að mestu leyti er árið 2004, voru heimsóknir 30.472 talsins en þær voru 13.316 árið 2001. Þ.e. þær hafa meira en tvöfaldast. Besti dagurinn taldi 184 heimsóknir sem var mánudagurinn 9. ágúst, tveimur dögum eftir Hinsegin daga í Reykjavík. Lakasti dagurinn, aðfangadagur jóla 24. desember, taldi 33 heimsóknir. Meðalfjöldi heimsókna var 83 á dag en var 67 árið áður. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig umferðin dreifðist yfir sólarhringinn og er nokkuð áhugavert sjá venjur fólks í netskoðun. Á morgnana kl. 7 eykst umferðin og um kl. 16, þegar vinnutíma margra lýkur, nær hún hámarki. Um kvöldmatarleytið er hún minni en tekur við sér aftur um níu-leytið. Á milli klukkan ellefu um kvöldið og þrjú um nóttina fækkar svo netrápurum umtalsvert. Ásókn á vefinn er mest á mánudögum, 95 heimsóknir að meðaltali, og dalar örlítið yfir vikuna. Um helgar er umferðin nokkuð minni eða um 65 heimsóknir hvorn daginn. Mánaðarlegt meðaltal var 2545 heimsóknir (2048 í fyrra). Ekki er mældur fjöldi flettinga heldur aðeins fjöldi innlita (heimsókna) og hefur heimsóknum fjölgað um 24% milli ára en í fyrra var 28% aukning. Nýjar tilkynningar á árinu voru 168 (95 í fyrra), fréttir 61 (51 í fyrra) og greinar 7 (5 í fyrra). Fjöldi tilkynninga hefur fjórfaldast á tveimur árum og fréttir tvöfaldast. Því má segja að gróska sé í þessum málum og starfshópar Samtakanna sem og aðrir sjái hag í því að auglýsa atburði sína á vefnum. Umferðin sýnir einnig að fólk tekur því vel að atburðir, sem okkur snerti, séu aðgengilegir á einum stað.

Leave a Reply