Skip to main content
search
Fréttir

Fréttatilkynning Siðmenntar – Fullt jafnrétti samkynhneigðra á Íslandi

By 13. september, 2004No Comments

Frettir Fullt jafnrétti samkynhneigðra á Íslandi

Stjórn Siðmenntar fagnar tillögum nefndar forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra á Íslandi sem kynntar hafa verið að undanförnu. Siðmennt er málsvari mannúðarstefnu og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum.

Stjórnin harmar hins vegar að ekki skuli vera einhugur í nefndinni um réttinn til þess að ættleiða börn erlendis frá og rétt lesbískra para til að gangast undir tæknifrjóvgun. Hér er um mjög mikilvæg mannréttindi samkynhneigðra að ræða sem mest brenna á þeim í dag. Meðan rétturinn til ættleiðingar og tæknifrjóvgunar er ekki viðurkenndur, er samkynhneigðum áfram hróplega mismunað. Stjórn Siðmenntar hvetur Alþingi til að stíga skrefið til fulls og viðurkenna sjálfsögð mannréttindi.

Stjórn Siðmenntar telur að tími sé kominn til þess að samkynhneigðir njóti sömu mannréttinda og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Ánægjuleg er sú þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, að réttindi homma og lesbía hafi aukist hröðum skrefum.

Allt frá stofnun Siðmenntar hafa mannréttindamál verið meginþáttur í stefnu félagsins. Siðmennt hefur gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu (siðrænum húmanisma) eða borgaralegum athöfnum. Má þar nefna málefni eins og trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, að félög trúlausra fái réttarstöðu trúfélaga, erlend félög siðrænna húmanista o.fl.

Félagsmenn Siðmenntar eru stoltir af því að fylgja heimshreyfingu húmanista í áratuga langri baráttu hennar fyrir réttindum samkynhneigðra sem og öðrum mannréttindamálum. Í stefnuskrá Siðmenntar (sjá www.sidmennt.is) segir m.a.:

Félagið stendur vörð um rétt hvers manns til sjálfsákvörðunar um eigið líf, svo sem í kynlífi, kynhneigð, fóstureyðingum og líknardauða.

Stjórn Siðmennt hvetur því þingmenn að setja Ísland í fremstu röð hvað varðar réttindi samkynhneigðra í heiminum.

-Stjórn Siðmenntar ? 13. september 2004

Leave a Reply