Skip to main content
search
Fréttir

Félag á tímamótum – Samtökin ´78 gerist aðili að Mannréttindaskrifstofu Íslands

By 20. maí, 2001No Comments

Frettir Að loknu vel heppnuðu málþingi um mannréttindi, Samkynhneigðir á aldamótum, sem Hinsegin dagar 2000 í Reykjavík efndu til í Norræna húsinu sl. sumar í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands, kannaði stjórn Samtakanna ´78 möguleika á því að gerast aðili að Mannréttindaskrifstofunni. Erindi félags okkar var vel tekið og á aðalfundi Mannréttindaskrifstofunnar 17. maí sl. var aðildarumsóknin samþykkt einróma. Áður hafði stjórn félagsins leitað eftir umboði aðalfundar Samtakanna ´78 í febrúar til þess að taka þetta skref og var það einnig samþykkt einróma.

Eftir inngöngu Samtakanna ´78 standa nú ellefu félagasamtök að Mannréttindaskrifstofunni, en hin eru: Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Rauði kross Íslands, UNIFEM á Íslandi, Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður er formaður stjórnar, en Bjarney Friðriksdóttir er framkvæmdastjóri. Á fundi sínum í maí skipaði stjórn Samtakanna ´78 Baldur Þórhallsson aðalfulltrúa sinn í stjórn Mannréttindaskrifstofunnar en Anni G. Haugen varafulltrúa. Þau eru bæði skipuð til eins árs svo sem venja er um fulltrúa félagasamtaka í stjórn MRSÍ.

Á hálfum áratug hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands haslað sér völl í umræðu, fræðslu og upplýsingamiðlun um mannréttindamál hér á landi. Hún safnar upplýsingum um þessi efni innan lands og utan og veitir almenningi og stjórnvöldum aðgang að þeim upplýsingum, hún kemur upplýsingum um mannréttindamál á framfæri við almenning, veitir umsagnir til stjórnvalda um mannréttindamál þegar eftir því er leitað og stuðlar að rannsóknum og útgáfu. Umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur, markviss og fjölþætt útgáfa, málstofur og málþing og samstarf við margs konar innlendar stofnanir og félagasamtök, fyrirlestrar og kennsla svo og víðtækt samstarf á erlendum vettvangi ? allt þetta er snar þáttur í starfi Mannréttindaskrifstofunnar sem starfar óháð stjórnmálaflokkum og stjórnmálahreyfingum en nýtur, rétt eins og Samtökin ´78, fjárstuðnings frá íslenska ríkinu til starfsemi sinnar.

Í félagslögum Samtakanna ´78 segir um leiðir félagsins að þeim markmiðum sem við setjum okkur að þar skuli félagið meðal annars ?styðja önnur félagasamtök sem vinna að lýðréttindum og afla stuðnings þeirra?. Þetta höfum við alla tíð gert í einstökum málefnum og á óformlegan hátt en nú er brotið blað í sögu Samtakanna ´78 með formlegri aðild að Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þannig nálgumst við frekar þá hugsjón okkar að umræða, fræðsla og barátta fyrir lýðréttindum samkynhneigðra sé á ábyrgð samfélagsins alls, en ekki okkar einna. Um leið köllum við sjálf okkur til ábyrgðar og þátttöku í mannréttindamálum eins og þau snúa að öðrum þjóðfélagshópum. Fátt er eins hættulegt stefnu okkar og starfi og að líta á mannréttindamál samkynhneigðra sem einangrað fyrirbæri og óskylt öðru starfi í þágu mannréttinda.

Þó að langstærstur hluti af starfi Mannréttindaskrifstofu Íslands sé á hendi stjórnar og framkvæmdastjóra, þá hefur forysta hennar lýst yfir áhuga á að fá fleira fólk úr aðildarfélögunum til starfa og skoðanaskipta. Hér er því lýst eftir áhugafólki innan Samtakanna ´78 um ýmsa þætti mannréttindamála, fólki sem mögulega býr yfir víðtækri menntun og þekkingu á ýmsum greinum þeirra og hefur hug á að taka höndum saman við aðra í slíku starfi.

Stjórn Samtakanna ´78 fagnar þessum áfanga í sögu félagsins. Megi hann verða hreyfingu okkar til heilla.

Leave a Reply