Skip to main content
search
Fréttir

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum – Réð hómófóbían úrslitum?

By 12. nóvember, 2004No Comments

Frettir Eins og fram hefur komið í fréttum þá átti íhaldssemi í siðferðisefnum stærri þátt í úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkunum en sérfræðingar höfðu fyrirfram búist við. Ýmsir stjórnmálaskýrendur halda því fram að í kosingunum 3. nóvember hafi hómófóbía í raun haft úrslitaáhrif.

Þegar talað er um siðferðisgildi í bandarískum stjórnmálum þá er fyrst og fremst átt við mál sem ekki standa miklar deilur um í Evrópu en hafa verið hitamál í bandarískum stjórnmálum í áratugi. Þetta eru mál eins og fóstureyðingar, bænahald í skólum, dauðarefsingar, réttur fólks til byssueingar, það hvort kenna eigi þróunarkenninguna eða sköpunarsöguna í skólum og fleira slíkt. Vegna deilna um hjónabönd samkynhneigðra þar vestra undanfarin misseri hafa svo málefni lesbía og homma verið óvenju mikið í sviðsljósinu upp á síðkastið og voru þau tvímælalaust &#8222heitasta&#8220 siðferðilega málið í nýafstöðnum forsetakosningum.

Þó svo að frambjóðendur stóru flokkana tveggja hafi báðir lýst sig andvíga hjónaböndum samkynhneigðra þá duldist fáum að Bush forseti gekk mun harðar fram og var afdráttarlausari í þeim efnum heldur en keppinautur hans John F. Kerry. Á fyrra kjörtímabili sínu barðist Bush til að mynda fyrir því að fá samþykktan viðauka við stjórnarskrá landsins um bann við hjónaböndum samkynhneigðra. Það gekk ekki eftir, enda um mjög flókna framkvæmd að ræða, en Kerry var einn þeirra sem voru andvígir slíkum viðauka. Þessi einarða afstaða forsetans varð hins vegar mjög til þess að auka vinsældir hans meðal hópa bókstafstrúarfólks en hafa verður í huga að á sumum svæðum Bandríkjanna telur allt upp undir þriðjungur íbúa sig vera frelsaða.

Gerði hómófóbían útslagið?

Í Bandaríkjunum er kosið um hin ýmsu mál samhliða forsetakosningum. Í ellefu fylkjum var um það kosið hvort banna ætti hjónabönd samkynhneigðra í stjórnarskrám viðkomandi fylkja. Með því vildu menn reyna að komast hjá málaferlum og dómsniðurstöðum eins og þeirri í Massachusetts þegar hæstiréttur úrskurðaði að lög sem bönnuðu slík hjónabönd stönguðust á við alríkisstjórnarskránna. Þetta einstaka atriði er talið hafa aukið kjörsókn á mikilvægum stöðum um 3-4% og að mikill meirihluta þeirra kjósenda hafi stutt Bush. Þannig sýndu útgöngukannanir að þeir kjósendur sem töldu siðferðisgildi skipta mestu máli höfðu í 80% tilvika greitt Bush atkvæði en aðeins 18% þeirra studdu Kerry.

Kosningarannsóknum ber saman um að mun fleira fólk sem tilheyrir evangeliskum mótmælendakirkjum og hvítasunnusöfnuðum hafi mætt á kjörstað nú en í fyrri kosningum. Áhersla repúblíkana á að fá þetta fólk til að mæta á kjörstað fékk byr undir báða vængi vegna mála sem Bush og menn hans réðu engu um, það er þeim úrskurði hæstaréttar Massachusetts að leyfa hjónabönd samkynhneigðra, sem og bylgju hjónabanda samkynhneigðra í San Fransisco og þeirra heiftúðugu deilna sem fylgdu í kjölfarið. Í Ohio, þar sem úrslit kosninganna réðust á landsvísu, kann þetta einstaka atriði að hafa ráðið úrslitum.

Eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir var Bush ekki lengi að þakka fyrir sig. Hefur hann nú látið þau boð út ganga að á síðara kjörtímabili sínu verði enn reynt að fá stjórnarskrá landsins breytt til þess að &#8222verja helgi hjónabandsins&#8221. Ólíklegt er reyndar talið að þetta muni ganga eftir en að þess í stað muni stjórnarskrám einstakra ríkja áfram verða breytt í þá veru. Gagnvart mannréttindakröfu lesbía og homma kemur það í sama stað niður.

-HTS

Leave a Reply