Skip to main content
Fréttir

Átaksverkefninu ?Notum Smokkinn? hleypt af stokkunum

By 28. júlí, 2005No Comments

Frettir Í dag var haldinn kynningarfundur á vegum Samtakanna ?78 um átaksverkefnið ?Notum smokkinn?. Að verkefninu standa Samtökin ?78 í samstarfi Landlæknisembættið, FSS ? félag STK stúdenta, Alnæmissamtökin og Ýmus, innflytjanda Sico-smokkanna. Skjár einn er aðalstyrktaraðili átaksins. Fyrir svörum á fundinum sátu þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir formaður Samtakanna ?78, Jón Þór Þorleifsson framkvæmdastjóri verkefnisins, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Ásta Ósk Hlöðversdóttir formaður FSS og Ingi Rafn Hauksson formaður Alnæmissamtakanna.

Um er að ræða umfangsmestu dreifingu á ókeypis smokkum sem fram hefur farið hér á landi, en 25.000 pökkum með samtals 50.000 smokkum og sleipiefni verður dreift á næstu vikum og mánuðum vítt og breytt um landið. Í hverri pakkningu eru tveir smokkar af gerðinni Sico ásamt sleipiefninu Astroglide auk leiðbeininga um notkunn smokksins og varnaðarorðum um ábyrgt kynlíf. Pakkninguna prýðir mynd af íslenskum ungmennum sem undirstrikar heilbrigðan lífsstíl og að tepruskapur verði að víkja.

Strax eftir helgi kemur sending með alla smokkana og verður þeim fyrstu dreift á Hinsegin dögum í Reykjavík hinn 6. ágúst. Í framhaldinu verður þeim svo dreift á skemmtistöðum og þeir látnir liggja sem víðast frammi. Í haust mun svo FSS – félag STK stúdenta, efna til ráðstefnu um öruggt kynlíf og gefa út fræðsluefni að því tilefni.

Samtökin ?78 lögðu sitt af mörkum með Landlæknisembættinu og Landsnefnd um alnæmisvarnir fyrir um tveimur áratugum í herferð gegn alnæmi sem mörgum er enn í fersku minni. Nú fara Samtökin ´78 af stað með nýtt átak sem ætlað er að undirstrika mikilvægi þess að smokkurinn sé notaður, ekki aðeins vegna alnæmishættunnar heldur einnig vegna annarra kynsjúkdóma og ótímabærra þungana. Með átakinu er verið að höfða til samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og gagnkynhneigðra í senn. Samtökin ?78 kalla þjóðina til ábyrgðar.

Tímasetning herfarðarinnar er engin tilviljun. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnarlækni Landlæknisembættisins fjölgaði klamedíu-tilfellum á ný árið 2004 eftir að forvarnir höfðu borið sýnilegan árangur árið áður. Tíðnin er langmest meðal ungs fólks á aldrinum 15?29 ára. Í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku fer tíðni lifrarbólgu B og C hraðvaxandi meðal homma, og spyrja má hvenær þess muni sjá stað á Íslandi. Þó að nýsmit af völdum HIV-veirunnar séu í sögulegu lágmarki á Íslandi um þessar mundir, er allt annað uppi á teningnum meðal nágrannaþjóða okkar. HIV-nýsmitum fer fjölgandi í stórborgum Vesturlanda, ekki aðeins meðal gagnkynhneigðra heldur einnig meðal homma og tvíkynhneigðra karla. Við megum því ekki sofa á verðinum.

Í ljósi þeirra hættumerkja sem tekið er að gæta fer vel á því að hreyfing samkynheigðra og tvíkynhneigðra leggi nú í nýtt átak í samstarfi við Landlæknisembættið, Alnæmissamtökin, Skjá einn og Ýmus, innflytjanda Sico smokkanna. Vonum við að átakið muni mælast vel fyrir meðal þjóðarinnar og skila sýnilegum árangri. Hvert mannslíf er dýrmætt.

-HTS

Leave a Reply