Skip to main content
search
Fréttir

Akureyringar takið eftir! – Hrein og bein fyrir norðan!

By 12. júní, 2003No Comments

Tilkynningar Norðurlandshópur Samtakanna´78 sýnir kvikmyndina Hrein og bein laugardaginn 14. júní í Nýja bíói á Akureyri. Sýningin hefst kl. 14. Aðgangur er ókeypis.

Í myndinni koma fram nokkrir ungir viðmælendur, lesbíur og hommar, sem horfst hafa í augu við eigin kynhneigð og ákveðið að koma úr felum og lifa frjálsir í samfélagi minnkandi fordóma. Myndin fjallar meðal annars um innri baráttu og uppgjör við foreldra og fjölskyldur og þau skref að fóta sig á eigin forsendum í samfélagi sem byggir að stærstu leyti á gagnkynheigðum forsendum. Hér fléttast saman húmor og alvara og leitast er við að ná fram grundvallarkenndum hinnar samkynhneigðu reynslu. Því er lýst hvernig vitundin um það að vera öðruvísi en hinir vaknaði og þeirri dýrmætu reynslu að horfast í augu við flóknar staðreyndir lífsins og öðlast sátt við eigin hlut í lífinu. Lýst er viðbrögðum fjölskyldunnar, skólans, vinahópsins og hvernig þessi reynsla litar persónuleika og tilfinningar viðkomandi. Myndina gerðu þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður og Þorvaldur Kristinsson bókmenntafræðingur, og er óhætt að segja að hún hafi hlotið afbragðs lof gagnrýnenda.

Hrein og bein var frumsýnd í Reykjavík þann 5. apríl síðast liðinn en nú gefst Akureyringum og nærsveitungum kostur á að sjá hana í kvikmyndahúsi.

Leave a Reply