Skip to main content
search
Fréttir

Tilboð til félagsmanna – Pabbastrákur í Þjóðleikhúsinu

By 22. september, 2003No Comments

Tilkynningar Þjóðleikhúsið býður félagsmönnum Samtakanna ´78 sérstakan afslátt á sýninguna Pabbastrákur í allan vetur.

Miðaverð fyrir félagsmenn Samtakanna ´78 er 2000 kónur. Framvísa þarf gildu skírteini 2003 í miðasölu Þjóðleikhússins.

Um sýninguna:

Einkasonurinn fer aðra leið í lífi sínu en foreldrarnir höfðu séð fyrir sér. Hann elskar annan karlmann, vill búa með honum og njóta hans. Hvernig á að taka þessu? Af opnum huga, auðvitað! Sýna umburðarlyndi og samkennd. Samt spyrja foreldrarnir bæði upphátt og í hljóði: Af hverju þarf sonur minn endilega að vera hommi? Er þetta kannski mér að kenna? Og hvað er ég þá? Hver er ég? Ögrandi og óvenjulegt verk um fjölskyldur, fordóma og ást.

Hávar Sigurjónsson er kunnur fyrir störf sín við leikhús og fjölmiðla. Hann lauk meistaranámi í leikstjórn og leikhúsfræðum í Bretlandi og hefur verið mikilvirkur leikstjóri á sviði, í útvarpi og sjónvarpi. Hávar var um skeið fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið en meðal leikstjórnarverkefna hans þar eru leikgerð hans eftir sögu Vigdísar Grímsdóttur, Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón, sem var opnunarsýning Smíðaverkstæðisins, Gaukshreiðrið og Taktu lagið, Lóa. Hávar hefur starfað sem leiklistarráðunautur hjá Útvarpsleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu og þýtt leikrit fyrir svið og útvarp, auk þess sem hann hefur samið nokkur útvarpsleikrit og sjónvarpsleikrit. Hávar hefur löngum starfað við fjölmiðla og er nú blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann hefur skrifað talsvert um leiklist og leikhúsmál, í blöð, tímarit og upplýsingarit um leiklist.

Fyrsta frumsamda leikrit Hávars fyrir svið er Englabörn sem Hafnarfjarðarleikhúsið frumsýndi haustið 2001. Englabörn hefur verið flutt í sviðsettum leiklestrum á leiklistarhátíðum víða um heim frá frumsýningu og verður frumsýnt í nýrri uppfærslu við Borgarleikhúsið í Göttingen í Þýskalandi nú í lok september. Leikfélag Sauðárkróks frumflutti gamanleik Hávars Ertu hálf-dán? á Sæluviku Skagfirðinga síðastliðið vor.

Leikendur í Pabbastrák eru Ívar Örn Sverrisson en þetta er frumraun hans í Þjóðleikhúsinu, Atli Rafn Sigurðarson, Valdimar Örn Flygenring og Edda Heiðrún Backman.

Lýsing er í höndum Kjartans Þórissonar, höfundur leikmyndar er Finnur Arnar Arnarsson, um búninga sjá Finnur Arnar og Margrét Sigurðardóttir og leikstjóri er Hilmar Jónsson.

Leave a Reply