Skip to main content
search
Fréttir

Fyrirlestrar á afmælisári – Óræði hvatalífsins í óútreiknanlegum persónum

By 23. febrúar, 2003No Comments

Tilkynningar Árið 2003 minnast Samtökin ´78 þess að hafa starfað í aldarfjórðung og af því tilefni býður félagið upp á röð hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands í samvinnu við félagsvísindadeild Háskólans, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta, FSS.

Sex fyrirlestrar verða á dagskrá á vormisseri og sá þriðji í röðinni er haldinn föstudaginn 28. febrúar. Þar mun Birna Bjarnadóttir, bókmenntafræðingur, flytja fyrirlestur sem hún nefnir

Óræði hvatalífsins í óútreiknanlegum persónum

Í erindi sínu fjallar Birna um samband hvatalífs og samfélagssýnar í tveimur skáldsögum Guðbergs Bergssonar, sögunum Hjartað býr enn í helli sínum (1982) og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (1993). Líkt og titlar sagnanna bera vitni um, er hvatalífið ekki borðleggjandi. Í lífi fólks er þessu eins farið. Þrátt fyrir ítrekaðar og stundum mikilfenglegar tilraunir hefur engum tekist koma böndum yfir hvatalífið. Það breytir því ekki að samfélag manna á hverjum tíma byggist á tilteknum hugmyndum og kenningum um kynhegðun og sambúðarform. Í erindinu er rætt um þessa þversögn og möguleika skáldskapar í því efni með því að taka stefnuna á sköpunarkraft hvatalífsins andspænis samfélagsættuðum hugmyndum og kenningum um kynhegðun og sambúðarform.

Birna Bjarnadóttir hefur nýlokið við að skrifa doktorsritgerð um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar. Hún er stundakennari við Háskóla Íslands, gagnrýnandi og verkefnastjóri í Snorrastofu, Reykholti.

Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefst kl. 12 á hádegi 28. febrúar. Að honum loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram spurningar og taka þátt í stuttum umræðum.

Leave a Reply