Skip to main content
search
Fréttir

Að koma út

By 26. apríl, 2006No Comments

Ég held að ég sé samkynhneigð og ég get ekki sagt neinum sem ég þekki frá því … ever! Þetta er að gera mig brjálaða. Hvað á ég að gera? Spurt: Ég held að ég sé samkynhneigð og ég get ekki sagt neinum sem ég þekki frá því … ever! Þetta er að gera mig brjálaða. Hvað á ég að gera?

Svarað: Fyrstu skrefin eru oftast erfiðust því að það er enginn sem hvetur mann áfram af þeirri einföldu ástæðu að maður hefur ekki sagt neinum hug sinn. Maður veit heldur ekki hvernig manni verður tekið. Fyrstu skrefin eru líka oftast mesti léttirinn, manni finnst maður verða frjáls og hafa jafnvel endurheimt gleði í líf sitt aftur. Þú átt án efa eftir að komast í æfingu með að segja frá kynhneigð þinni og það verður stöðugt auðveldara. Fólk með reynslu gefur kynhneigð sína í skyn í aukasetningum eins og ekkert sé. Jafn auðveldlega og gagnkynhneigðir gefa kynhneigð sína til kynna.

Það er ekki til nein formúla fyrir því að koma úr felum og segja fólki frá samkynhneigð sinni. Hver og einn hefur sína aðferð sem byggist á einstaklingnum sjálfum, vinum, fjölskyldu og umhverfi. Hins vegar má gefa góð ráð í þessu sambandi. Sumir segja fyrst sínum besta vini, sumir segja einhverjum sem þeir þekkja ekki of náið og enn aðrir ræða þetta fyrst við fjölskylduna. Stundum grunar fólk í kringum hinn samkynhneigða að eitthvað hvíli þungt á henni eða honum og bíður átekta eftir því að maður segi þeim allt af létta. Stundum grunar fólk ekki neitt og það kemur alveg af fjöllum. Þetta fer allt eftir okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur.

Þú hefur eflaust reynt að meta það hvernig fólk í kringum þig myndi bregðast við ef þú segðir því frá kynhneigð þinni. Þú ert e.t.v. búin að ákveða hvaða vinir þínir munu líklega bregast best við. Það er ekki nóg að ákveða hver fær fyrstur að heyra fréttirnar heldur þarftu líka að ákveða hvernig þú munir fara að. Þetta er eins og að fara til tannlæknis: Þú þarft að fara og það er erfitt og jafnvel sárt en eftir á er það mikill léttir og kannski alls ekki eins sárt og þú óttaðist.

Gott getur verið að segja einhverjum frá kynhneigð þinni sem þú þekkir ekki of náið en treystir samt sem áður. Þá færðu fyrstu viðbrögðin og sérð oftast að þetta er ekki eins erfitt og þú taldir. Þú færð þá eflaust góð ráð og hvatningu til að segja fleirum allt af létta. Þú þarft heldur ekki að hafa miklar áhyggjur af því að missa þennan kunningja þinn ef hann skyldi taka fréttunum illa. Sem reyndar er afar ólíklegt. Það er annar kostur við að ræða við einhvern sem þú þekkir ekki of náið. Viðbrögðin eru líklegri til að vera væg. Því nákomnari vini eða ættingja sem þú ræðir við því líklegra er að þú fáir í fyrstu sterkari viðbrögð. Nánir vinir þurfa oft lengri tíma til jafna sig á fréttunum og endurmeta fortíðina. Kunningjar taka þessu oft frekar létt. Það er þitt að meta hverjum best er að segja fréttirnar fyrst.

Sumir nota tækifæri til senda ættingjum eða vinum bréf sem staddir eru í útlöndum eða annars staðar á landinu. Slíkt þarfnast ekki nálægðar og viðbrögðin koma síðar og eru þá oft yfirvegaðri. Áttu vin sem er fluttur til útlanda sem þú getur skrifað? Ef svo er geturðu átt bréfaskriftir við þann vin í nokkurn tíma um kynhneigð þína áður en þú stígur næsta skref. Slíkt er auðveldara og jafnvel spennandi!

Til að nálgast samkynhneigt fólk sem vill aðstoða þig og styðja þig eru ýmsar leiðir færar. Lítum á nokkrar þeirra:

1. Alla daga svarar famkvæmdastjóri Samtakanna ´78 í síma 552 7878 milli kl. 13-17. Þú þarft ekki að segja til nafns og þar geturðu létt á hjarta þínu og fengið stuðning. Kannski leiðir samtalið til þess að þú hittir félagsráðgjafa Samtakanna sem hafa mikla reynslu af því að ræða við fólk sem er að reyna að átta sig á tilfinningum sínum. Þú nýtur algjörrar nafnleyndar því að það er skylda ráðgjafanna að virða friðhelgi einkalífsins.

2. Sumir nota spjallrásirnar á netinu (irkið) til þess að ræða við annað samkynhneigt fólk um hugsanir sínar og til að fá hvatningu. Þar er auðvelt að spjalla undir nafnleynd. Á spjallrásinni #gay.is er flest kvöld að finna 10-30 einstaklinga sem spjalla um heima og geima og eru flestir samkynhneigðir. Stúlkurnar spjalla líka saman á #les.is en ekki er hún eins lífleg og #gay.is.

3. Í Samtökunum ’78 eða í tengslum við þau starfa ýmsir hópar og félög sem þú getur sett þig í samband við. Allir hópar taka vel á móti nýju fólki og eru hjálplegir. Það getur verið auðveldara að ræða um kynhneigð sína við ókunnugt fólk. Þrjú félög koma helst til greina fyrir ungt fólk en það eru Ungliðahópur Samtakanna ´78, KMK og FSS. Ungliðahópurinn er fyrir ungt fólk undir tvítugu og hittist hvert sunnudagskvöld á vettvangi Samtakanna ´78. KMK, Konur með konum, er félagsskapur kvenna á öllum aldri og þær eiga sér líflega vefsíðu og FSS er félag tengt háskólum landsins en tekur samt vel á móti öðrum en stúdentum. Mundu bara að láta vita að þú sért að stíga þín fyrstu skref ef þú vilt fá stuðning. Öðrum finnst best að blanda sér beint í hópinn án formála og eiga ekki erfitt með það. Fólk er misjafnt.

Síðar í lífinu lítur samkynhneigt fólk yfir farinn veg og sér að það að koma úr felum er eitt mikilvægasta verkefni lífsins, einstakt tækifæri til að ná þroska og takast á við aðstæður sem aðeins hluti mannkyns fær að glíma við. Flestir fá erfið verkefni á lífsleiðinni hver svo sem þau kunna að vera. Þetta er þitt verkefni. Sumir taka aldrei á því sem erfitt er og sitja uppi með hnút í maganum til æviloka. Sá hnútur getur orðið að alvarlegu andlegu meini. Ekki láta það henda þig. Þetta er þitt tækifæri til þess að styrkja sjálfa þig og fá fólk til að bera virðingu fyrir þér eins og þú ert – og hugrekki þínu.

Alfreð Hauksson

Leave a Reply