Skip to main content
search
Fréttir

30 ára afmælisrit Samtakanna ’78

By 28. apríl, 2008október 14th, 2020No Comments
Lesa afmælisrit

Samtökin ´78 fagna þrjátíu ára afmæli um þessar mundir en þann níunda maí árið 1978 var félagið stofnað í Reykjavík. Félagið sem í dag telur um fimmhundruð félagsmenn, var í upphafi skipað örfáum einstaklingum sem áttu sér draum um að samkynhneigðir gætu fengið að vera sýnilegur og eðlilegur hluti samfélagsins. Tímaritið 30 Afmælisrit Samtakanna ´78 er tileinkað sögu félagsins.

Samtökin ´78 fagna þrjátíu ára afmæli um þessar mundir en þann níunda maí árið 1978 var félagið stofnað í Reykjavík. Félagið sem í dag telur um fimmhundruð félagsmenn, var í upphafi skipað örfáum einstaklingum sem áttu sér draum um að samkynhneigðir gætu fengið að vera sýnilegur og eðlilegur hluti samfélagsins. Tímaritið 30 Afmælisrit Samtakanna ´78 er tileinkað sögu félagsins.

Fjallað er um fyrirrennara Samtakanna, Iceland Hospitality í grein sem nefnist Úr grasrót í griðastað. Félagsskapurinn var stofnaður tveimur árum fyrr en Samtökin ´78 og á sér verðugan arftaka í dag, nefnilega leðurklúbbinn MSC Ísland.

Fjallað er um dimmasta og sorglegasta tímann í sögu samkynhneigðra, í greininni Alnæmisfaraldurinn-Þröngi vegurinn til sigurs. Alnæmisplágan kvaddi dyra þegar baráttuhugurinn var í algleymingi og ungir Íslendingar sneru heim úr sjálfskipaðri útlegð til að deyja. Sjúkdómurinn lagðist þungt á samfélag homma í Reykjavík en varð einnig til að opna nýjar dyr.

Í greininni Þrjátíu ára stríðið er saga Samtakanna ’78 rakin í máli og myndum. Sagt er frá frumkvöðlum Samtakanna, litríkum félagsmönnum, baráttunni við helstu stofnanir samfélagsins, ótrúlegum fordómum, bjartsýni, hugrekki, gleðigöngum, sorgum og sigrum.

Drottningar á djamminu nefnist grein um skemmtanalíf samkynhneigðra í Reykjavík allt frá stríðsárunum. Skemmtanalíf höfuðborgarinnar hefur ekki farið varhluta af skemmtanamenningu hinsegin fólks. Djammsagan er rifjuð upp í máli og myndum.

Í viðtölum við blaðið stíga fram: Yngsti homminn og elsta lesbían. Það skilja þau að sjötíu ár í aldri. Sjöfn Helgadóttir er áttatíu og fjögurra ára og var fyrsta konan til að koma á vettvang Samtakanna ’78. Eyjólfur Kolbeins var fjórtán ára þegar hann gekk í félagið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan lítil stelpa í Miðbæjarskólanum bögglaðst ein með óskiljanlegar tilfinningar á fjórða áratug síðustu aldar og þar til fjórtán ára strákur kom í fyrra í fylgd pabba síns í Samtökin ´78.

Í viðtalinu Eini homminn í klaustrinu, ræðir Frosti Jónsson formaður Samtakanna ´78 um líf sitt og reifar viðhorf sín til félagsins og framtíðar þess.
Þá er rætt við öðruvísi fjölskyldu í Reykjavík í greininni Blessað barnalán. Tveir nýbakaðir pabbar og tvær nýbakaðar mömmur kusu að feta nýjar slóðir við að stofna fjölskyldu. Ofurlítill strákur á nú tvö sett af foreldrum sem deila forsjánni.

Elías Mar rithöfundur sem lést í fyrra var fyrstur íslenskra höfunda til að lýsa opinskátt ástum karla í íslenskri sögu. Í greininni Með pennann að vopni er fjallað um Elías og hinsegin bókmenntir á Íslandi.

Leave a Reply