Skip to main content
search
Fréttir

Glæsileg kvikmyndahátíð – Hinsegin bíódagar 4. – 14. mars

By 20. febrúar, 2004No Comments

Tilkynningar Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar verður haldin í Reykjavík 4.?14 mars. Fimmtudaginn 4. mars hefst hátíðin með sýningu á hollensku gamanmyndinni, Já systir, nei systir að viðstaddri aðalleikkonu myndarinnar, Loes Luca. Allar sýningar hátíðarinnar verða í Regnboganum við Hverfisgötu og boðið er upp á úrval nýrra og nýlegra kvikmynda sem vakið hafa athygli í austan hafs og vestan. Að Hinsegin bíódögum standa Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, og FSS, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta. Stjórnandi hátíðarinnar er Hrafnhildur Gunnarsdóttir, en fjöldi fólks kemur að skipulagningu hennar.

Þetta er í annað sinn efnt til slíkrar kvikmyndahátíðar hér á landi, en hinir fyrstu Hinsegin bíódagar voru haldnir í Reykjavík vorið 1995 á vegum Samtakanna ´78 og þaðan er nafn hátíðarinnar runnið. Ekki varð framhald á þessu einstæða framtaki, en nú er þráðurinn tekinn upp aftur. Í þetta sinn taka Samtökin ´78 höndum saman við FSS, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta og undirbúa hátíðina í samstarfi við erlendar kvikmyndahátíðir og framleiðendur. Þá sýnir kvikmyndahúsið Regnboginn hátíðinni ómetanlegan stuðning með því að annast allar sýningar og segja má að nafn kvikmyndahússins við Hverfisgötu sé vel við hæfi þessa tíu hátíðisdaga. Á dagskránni eru leiknar kvikmyndir, tónlistarmyndir og heimildarmyndir. Þá er boðið upp á úrval stuttmynda á sérstökum sýningum, enda er vaxtarbroddinn í kvikmyndagerð lesbía og homma ekki síst að finna í stuttmyndagerð sem hér er kynnt undir heitunum ?Piltar með piltum? og ?Stúlkur með stúlkum?. Þá er það sérstakt ánægjuefni að geta boðið upp á tvær myndir eftir Íslendinga á hátíðinni ? og jafnvel leikara af íslenskum ættum!

Heiðursgestir Hinsegin bíódaga eru þrír. Hollenska leikkonan Loes Luca sem leikur aðalhlutverk í söng- og gamanmyndinni, Já systir, nei systir en hún er opnunarmynd hátíðarinnar. Spánverjinn, Antonio Hens, leikstjóri hinnar óborganlegu stuttmyndar, Í slæmum félagsskap. Þriðji gesturinn, Jankees Boer frá Amsterdam, er einn af fulltrúunum í dómnefnd Hinsegin bíódaga, en í lok hátíðar mun dómnefnd veita þrenn verðlaun fyrir besta framlag til hennar í flokki leikinna mynda, heimildarmynda og stuttmynda.

Dagskrárrit hátíðarinnar kemur út 27. febrúar og vefsíða Hinsegin bíódaga hefur verið opnuð. Slóðin er www.hinbio.org

Opnunarmynd hátíðarinnar

Hátíðin hefst með sýningu á hollensku kvikmyndinni Já systir, nei systir. Þar segir frá systur Kliviu sem stendur fyrir gisti- eða líknarheimili þar sem sundurleitur hópur fólks á öllum aldri á sér athvarf. Húsmóðirin ljómar eins og sólin sjálf þó að margt mæði á henni, einkum þó nágranninn Boordevol. Geðvonska hans á sér gildar skýringar, hann þekkir ekki sitt innsta eðli. Ástir og afbrýði, leyndar hvatir og máttur góðverkanna, hér ægir öllu saman í fjörugri söngva- og gamanmynd fyrir alla fjölskylduna. Í titilhlutverkinu er Loes Luca, ein vinsælasta leikkona Hollendinga en hún er heiðursgestur Hinsegin bíódaga og verður viðstödd frumsýninguna í Regnboganum.

Heimsfrægar heimildarmyndir

Af erlendum heimildarmyndum er fyrst að nefna Bróðir og utangarðsmaður ? Ævi Bayards Rustin (Brother Outsider ? The Life of Bayard Rustin). Bayard Rustin gerði opinskátt um kynhneigð sína löngu áður en hommar öðluðust hópum saman hugrekki til að standa opinberlega við tilfinningar sínar. Hann varð nánasti ráðgjafi Martins Luthers King og barðist við hlið hans en starfaði þó alla tíð í skugga leiðtogans. Samkynhneigð hans þótti hreinlega of mikil ögrun við hreyfingu bandarískra svertingja. Bayard Rustin var sennilega þýðingarmesti skipuleggjandi og forvígismaður göngunnar miklu til Washington sem markar þáttaskil í sögu svartra í Bandaríkjunum. Tveir af elskhugum Bayards Rustin eru meðal þeirra sem minnast hans í þessari snjöllu heimildarmynd, en hún hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum og á Kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Önnur merk heimildarmynd nefnist Pabbi og pápi (Daddy and Papa). Þar segja fjórar fjölskyldur sögur sínar ? reynslusögur nokkurra karlmanna sem þráðu að gerast feður og koma börnum til manns. Sumir fóru þá leið að gerast fósturfeður munaðarlausra barna, aðrir með því að biðja konur um að fæða börn þeirra sem þeir síðan ala upp, og enn aðrir hafa ættleitt börn af öðrum kynþáttum. Hér er dregin upp ögrandi og áhrifamikil mynd af nýstárlegum fjölskyldugerðum og fjölskyldulífi á tímum mikilla breytinga og umbyltinga, enda er í Bandaríkjunum helst að finna nýja strauma í fjölskylduþróun samkynhneigðra í heiminum.

Kvikmyndin Róttækir hljómar (Radical Harmonies) er mynd fyrir alla sem hafa gaman af kvennatónlist og kvennapólitík. Löngu fyrir tíð Melissu Etheridge, Ani DiFranco og Indigo Girls varð til hópur í Bandaríkjunum sem ruddi kvennatónlist brautina. Þessar konur töluðu máli fjölbreytileika, femínisma og hins lesbíska lífstíls. Tónlistarkonur, frá Meg Christian og Cris Williamson til Sweet Honey in the Rock, unnu sleitulaust að því að stofna hljóðritunarfyrirtæki kvenna og til urðu fyrirtæki eins og Olivia Records. Án teljandi fjármagns í höndum lögðu þær grunninn að þeirri tónlistarmenningu kvenna sem við nú þekkjum. Það er kraftur í henni þessari!

Hörku spennumynd ? með lesbísku ívafi

Eina eiginlega spennumynd hátíðarinnar kemur frá Noregi og nefnist Sæl eru þau sem þyrstir (Salige er de som tørster). Lögreglan í Osló stendur ráðþrota frammi fyrir furðulegri gátu en finnur engin svör. Í nokkrar vikur hefur hún verið kölluð á vettvang þar sem blóðsúthellingar hafa átt sér stað, en hvergi er lík að finna. Þessi afburða vel gerða og vinsæla spennumynd um lesbísku leynilögreglukonuna Hanne Wilhelmsen er byggð á sögu eftir Anne Holt, fyrrum dómsmálaráðherra Noregs, en nokkrar af sögum hennar hafa verið þýddar á íslensku.

Tvær myndir eftir Íslendinga

Á hátíðinni verða sýndar tvær myndir eftir Íslendinga. Önnur þeirra nefnist Aðalhlutverk: Rosa Furr (Starring: Rosa Furr) eftir Láru Martin sem hefur starfað sem kvikmyndagerðarkona um árabil í Bandaríkjunum. Sagan um Rosu Furr er gerð í stíl þöglu myndanna. Með verki sínu ?endurritar? leikstjórinn söguna með því að skipa lesbíum, hommum og svörtu fólki í þau hlutverk í kvikmyndasögunni þau aldrei léku og hér fá þeir kynþættir og þær kynhneigðir sem aldrei birtust í aðalhlutverkum að baða sig í sviðsljósinu. Á undan myndinni er sýnt stutt viðtal við Láru Martin á ensku en sjálf er hún viðstödd fyrstu sýninguna á verki sínu í Regnboganum og mun spjalla við gesti að henni lokinni.

Hin kvikmyndin er Hrein og bein eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur og Þorvald Kristinsson, en í henni lýsir ungt samkynhneigt fólk lífi sínu í einlægum og persónulegum frásögnum þar sem húmor og alvara fléttast saman á magnaðan hátt. Þessi fyrsta íslenska heimildarmynd um lesbíur og homma var tilnefnd í flokki heimildarmynda til Eddu-verðlaunanna 2003 og hefur farið glæsta för um kvikmyndahátíðir heimsins. Meðal annars var hún kjörin Besta heimildarmyndin á stærstu kvikmyndahátíð samkynhneigðra í heiminum, San Francisco International Lesbian and Gay Film Festival, vorið 2003.

Ástir kvenna

Af leiknum kvikmyndum sem lýsa ástum kvenna er fyrst að nefna argentínsku myndina Skyndilega (Tan de repente) eftir Diego Lerman. Þar segir frá pönku
runum og lesbíunum Mao og Lenin sem hitta fyrir Marcíu, kindarlega afgreiðslustúlku í undirfataverslun í Buenos Aires og taka hana höndum. Þær kæra sig ekkert um peninga stúlkunnar en vilja komast yfir hana og þegar Marcía neitar, leggja þær af stað með hana í ferðalag. Leiðin liggur til gamallar og gleymdrar frænku sem sinnir sínum hænsnum í sveitinni og nýtur þeirra nautna sem felast í sígarettum og snafsi. Eftir þá heimsókn líta stelpurnar heiminn öðrum augum. Skyndilega hefur slegið í gegn á hátíðum heimsins sl. ár og þykir frábært dæmi um sköpunarkraft og margræðni argentískrar kvikmyndagerðar á okkar dögum ? fyndin, gróf og full af viðkvæmni.

Önnur vönduð kvennamynd er Alice eftir franska leikstjórann Sylvie Ballyot. Í brúðkaupi systur sinnar tekst Alice á við sárar minningar sem vekja niðurbældar og hálfgleymdar tilfinningar og hafa áhrif á samband hennar við kærustuna sem annars virðist svo hamingjusamt. Í stað orða er sögunni miðlað til okkar á áhrifamiklu myndmáli sem láta áhorfandanum eftir að túlka það sem raunverulega gerðist forðum daga í fjölskyldu Alice og heimtar nú útrás. Leikstjórinn, Silvie Ballyot, er óhrædd við að fara sínar eigin leiðir, stundum óþægilegar, í leit að uppruna girndarinnar, og með leikurum sínum skapar hún ljóðræna og afar erótíska mynd.

Ástir karla

Þrjár leiknar kvikmyndir á Hinsegin bíódögum sækja efni sitt í reynsluheim ungra pilta og glímu þeirra við ástina og girndina. Þar er fyrst að nefna bandarísku myndina Yfir í Eden (Eden´s Curve) eftir Anne Misawa. Þar segir frá Peter, 18 ára strák sem er að hefja nám í yfirstéttarskóla á austurströnd Bandaríkjanna árið 1973. Hann kemur úr auðugu og vernduðu umhverfi góðborgara og á satt að segja erfitt með að fóta sig í háskólaheiminum þar sem sterkar tilfinningar togast á. Smám saman vaknar Peter til vitundar um samkynhneigð sína og áttar sig á því að hann er sannarlega ekki einn í heiminum um þær. Billy, skólafélagi þeirra á heimavistinni, reynir að fanga athygli Peters með ýmsum ráðum og úr verða flókin sambönd, ástarþríhyrningar, afbrýðisemi, hatrömm samkeppni og átök sem stefna á ystu nöf.

Franska myndin Þú kemst yfir þetta (A Cause d´un garçon: Tu verras, ça te passera) eftir Fabrice Cazeneuve segir frá Vincent, laglegum og heillandi strák, leiðtoga í keppnisliði skólans í sundi. Einn af þeim sem virðist hafa fengið allt það sem einn strákur getur óskað sér. Eftir að hafa áttað sig á því að hann langar ekki beinlínis til að kyssa stelpur og sofa hjá þeim, stígur hann í vænginn við annan homma í skólanum og allt í einu er hann kominn út á dýpið. Útilokaður úr keppnisliðinu, barinn og hæddur. Vincent neyðist til að horfast í augu við óvini sína og með hjálp þjálfara síns og besta vinar snýr hann vörn í sókn. Mögnuð kvikmynd um unglinga ? fyrir unglinga á öllum aldri.

Sú frægasta af þeim myndum sem hér um ræðir kemur frá Mexíkó og heitir því langa nafni Þúsund friðarský á himni, ást, aldrei hættir þú að vera ást (Mil nubes de paz cercan el cielo, amor, jamás acabaras de ser amor) og er eftir Julián Hernández. Þar segir frá Gerardo, sautján ára homma, sem ráfar stefnulaust um götur Mexíkóborgar í leit að einhverjum sem gæti upplýst hann um það sem liggur milli línanna í kveðjubréfinu sem elskhuginn Bruno skildi eftir. Hvert sem Gerardo lítur kemur hann auga á eitthvað sem minnir hann á Bruno. Hann leitar huggunar með því að fróa sér og leita að skyndikynnum við ókunnuga en ekkert fyllir skarðið eftir Bruno. Við hvert fótmál mætir Gerardo manneskjum sem hafa gleymt þeirri grundvallarþörf allra manna að elska og njóta ástar, ófærar um að gefa þá ástúð sem hann þarfnast til að lifa af í miskunnarlausum heimi milljónaborgarinnar. Þetta áhrifamikla verk hlaut Teddy-verðlaunin á Kvikmyndahátíðinni í Berlín 2003, en þau eru veitt fyrir besta framlag til kvikmyndagerðar samkynhneigðra í heiminum.

Rosa von Praunheim á Íslandi

Af myndum Hinsegin bíódaga er ein í algjörum sérflokki, söguleg en sviðsett og leikin mynd um einn af risunum í sögu samkynhneigðra, dr. Magnus Hirschfeld. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem kvikmynd eftir þýska hommann og leikstjórann Rosu von Praunheim er sýnd í íslensku kvikmyndahúsi en hann hefur sannarlega sett mark sitt á kvikmyndasögu okkar síðustu þrjátíu ár. Mynd þessi nefnist Einstein hvatalífsins ? Ævi dr. Magnusar Hirschfeld (Einstein des Sex ? Leben und Werk des Dr. Magnus Hirschfeld) og segir frá þessum mikla áhrifavaldi í sögu samkynhneigðra.

Gyðingurinn, homminn, sósíalistinn og læknirinn Hirschfeld stofnaði fyrsta baráttuhóp homma í Berlín árið 1897, en frægastur varð hann fyrir að leggja grundvöll að rannsóknum á lífi samkynhneigðs og transsexúal fólks í Þýskalandi á þriðja áratug 20. aldar og um árabil barðist hann fyrir mannréttindum þeirra á næsta óvenjulegan hátt. Árið 1920 stofnaði Hirschfeld Institut für Sexual Wissenschaft í Berlín sem hafði áhrif um víða veröld og varð víða til að vekja sjálfvitund samkynhneigðra. Stofnun dr. Hirschfelds var lögð í rústir við valdatöku nasista 1933, en sjálfur lést hann í útlegð í Frakklandi árið 1935, saddur lífdaga. Hér sviðsetja leikarar undir stjórn Rosu söguna um Magnus, ástir hans og ástríður, baráttu, sigra og skipbrot í magnaðri mynd um löngu horfna tíð.

Vaxtarbroddur kvikmyndagerðar

Tvö stuttmyndasöfn verða sýnd á hátíðinni og nefnast þau ?Piltar með piltum? og ?Stúlkur með stúlkum?. Slíkar sýningar njóta gríðarlegra vinsælda á erlendum kvikmyndahátíðum því að þar er ekki síst að finna margt það besta og djarfasta sem á boðstólum er í kvikmyndagerð samkynhneigðra í heiminum.

Í safninu ?Piltar með piltum? er m.a. myndirnar Ef þú þorir (Chicken), Flöskustútur (Spin), Í slæmum félagsskap (En malas compañias) eftir einn af heiðursgestum hátíðarinnra, Antonio Hens, Ljúfar stundir (Fremragende timer), Morgunverður (Frühstück), Opinberunin (Åbenbaringen), Snúum þér (Target Audience), Úr dagbók karlhóru (Diary of a Male Whore) og Vinir (Freunde)

Í safninu ?Stúlkur með stúlkum? eru m.a. myndirnar Á veiðum (Bartalk), D.E.B.S., Heim á jólum (Hjem til jul), Kallaðu mig Kade (Just Call Me Kade), Opinberunin (Åbenbaringen), Selma og Soffía (Selma och Sofie) og Tíu reglur (Ten Rules).

Verðlaun hátíðarinnar

Sérstök dómnefnd veitir verðlaun næstsíðasta kvöld hátíðarinnar í Regnboganum, laugardagskvöldið 13. mars.Veitt verða þrenn verðlaun:

Besta leikna kvikmyndin

Besta heimildarmyndin

Besta stuttmyndin
Í dómnefndinni eru þau Elísabet Ronaldsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Jankees Boer og Sigursteinn Másson.

Leave a Reply