Skip to main content
Fréttir

Hinsegin dagar 2005 – Um fimmtíu þúsund manns á götum Reykjavíkur

By 8. ágúst, 2005No Comments

Frettir Hinsegin dagar í Reykjavík 2005 voru haldnir laugardaginn 6. ágúst með glæsilegri gleðigöngu niður Laugaveg og útiskemmtun í Lækjargötu. Talið er að allt að 50.000 manns hafi tekið þátt í hátíðahöldunum sem ætlað er að undirstrika tilveru og menningu samkynhneigðra og efla samstöðu þjóðarinnar með lesbíum, hommum og tvíkynhneigðum. Hinsegin dagar eru fyrir löngu orðnir þriðja stærsta útihátíð í Reykjavík á eftir þjóðhátíðardeginum 17. júní og Menningarnótt í Reykjavík, og hafa þeir auk þess þá merkilegu sérstöðu að vera vímulaus útihátíð. Um 250 manns komu í þetta sinn að hátíðahöldunum sem unnið er að árið um kring.

Gríman fellur

Ljóst var að engu þurfti að kvíða um veður í þetta sinn því þegar blöðrublásarar dagsins vöknuðu kl. 6 um morguninn skein sól í heiði. Upp úr klukkan 9 tók fólk á öllum aldri að streyma á verkstæði Hinsegin daga í Stakkholti, prinsar og prinsessur, drottningar og dívur, skúrkar og skuggabaldar, í leðri eða tjulli og öllu þar á milli. Þegar gleðiganga ársins hélt af stað klukkan 3 hafði múgur og margmenni safnast saman á Hlemmi og Laugavegi þar sem 40 manna söluhópur bauð hátíðarvarning í regnbogalistunum öllum þeim sem kaupa vildu. Sérstaka athygli og aðdáun í þeim hópi vöktu alþingismenn sem lögðu málstaðnum lið af mikilli atorku og seldu af sannfæringarkrafti.

Sjaldan hefur gleðigangan verið eins löng og litrík og í ár. Erfitt er að lýsa einu atriði öðru fremur, en sennilega var ekkert í göngunni eins áhrifamikið og þegar grímuklæddir ungliðar úr Samtökunum ´78 felldu allt í einu grímur sínar í miðri göngunni, bitu augnablik á jaxlinn og horfðust svo í augu við heiminn grímulaust. Skrefið hafði verið tekið. Máttur samstöðunnar getur gert kraftaverk!

Einörð hátíðarræða

Á dagskránni í Lækjargötu rak hvert atriðið annað. Ylfa Lind og Arnar Þór áttu sviðið og áhrifamikið var að heyra lag Arnars sem hann samdi í tilefni dagsins, ?Queerificly proud we are?. Söngvararnir úr Kabarett stóðu sig glæsilega, Eva Karlotta heillaði, Hanna María & Ingrid slógu í gegn með ?Hún er svo sæt…? sem umturnaðist í hita leiksins og varð loks ?Við erum svo sæt!? Namos frá Berlín vakti hrifningu með ótrúlegum sviðskrafti, og Eldkex brást ekki aðdáendum sínum. Ruth & Vigdis frá Osló uppfylltu allar væntingar og reyndust fyndnari en allt sem norrænt er, og Páll Óskar átti hjörtu gesta frá fyrsta tóni.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra flutti hátíðarræðuna sem var bæði tæpitungulaus og skýr. Hann hét eindregnum stuðningi sínum á Alþingi í vetur þegar frumvörp líta dagsins ljós sem jafna réttarstöðu samkynhneigðra hvað fjölskyldurétt snertir. ?Baráttumál homma og lesbía er að öðlast fullan rétt á við gagnkynhneigða til fjölskylduþátttöku. Ég styð það sjónarmið heilshugar,? sagði hann og hvatti til opnari og hreinskiptnari umræðu um rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs. Ræðu Árna er að finna í heild sinni hér á vefnum, sjá Greinar.

Jafntefli í hífandi roki

Þótt hér séu fáein nefnd af þeim sem lögðu deginum lið skal þeim ekki gleymt sem gerðu hátíðina þá glæsilegustu til þessa með þrotlausri vinnu við sýningaratriði, fjáröflun, sviðsstjórn, útgáfu, kynningarstarf og skipulag í smáu og stóru. Þessu hæfileikafólki, sem flest er úr röðum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra, verður seint þakkað sem skyldi, enda ætlast þau ekki til annarra launa en gleði þeirra þúsunda sem komu út á götur borgarinnar þennan dag og sýndu málstað lesbía og homma virðingu sína með því að taka þátt í hátíðinni. Framlag þeirra sem stóðu að hátíðinni var raunar miklu meira en þennan eina dag, því að gleðin hófst á á miðvikudegi með Draggkeppni Íslandis, á fimmtudegi voru tónleikar á NASA, og síðan var formleg opnunarhátíðin haldin fyrir fullu húsi í Loftkastalanum á föstudagskvöldi. Fótboltaleikur bandarískra homma og íslenskra lesbía á KR-vellinum fór svo fram á sunnudegi í hífandi roki, og lauk með jafntefli, 2?2.

Vönduð umfjöllun

Umfjöllun um Hinsegin daga í Reykjavík hefur sjaldan verið vandaðri í fjölmiðlum og núna. Morgunblaðið birti til dæmis löng viðtöl við nokkra málsvara hátíðarinnar og helgaði deginum leiðara sinn. Víkverji tók skrefið úr skápnum þennan dag og góð var grein Bergþóru Jónsdóttur um samkynhneigð tónskáld í blaðinu þessa helgi. Sjónvarpsstöðvarnar saumuðu að þessu tilefni að íhaldsömum stjórnmálamönnum sem höfðu fátt að bjóða nema þögn og hik. Það er sérstök ástæða til að gleðjast yfir því hve umræða um samkynhneigða í fjölmiðlum hefur tekið miklum framförum á síðustu árum. Án stuðnings þeirra hefðu aldrei náðst þeir sigrar sem nú eru að líta dagsins ljós.

?ÞK

Ljósmynd með frétt: Siv Friðleifsdóttir

Leave a Reply