Skip to main content
search
Fréttir

Löggjafarmál – Þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi

By 10. október, 2002No Comments

Frettir Á Alþingi hefur nú verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og leggja á ráð um úrbætur. Fyrsti flutningsmaður er Guðrún Ögmundsdóttir en allir flokkar standa að tillögunni og meðflutningsmenn eru þau Einar K. Guðfinnsson, Guðjón A. Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir, Sverrir Hermannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson. Mun Guðrún tala fyrir tillögunni á næstunni og ljóst þykir að hún nýtur mikils meirihlutafylgis á þingi.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

?Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Skal nefndin jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Nefndin verði skipuð fulltrúum frá forsætisráðuneyti,sem jafnframt skipi formann nefndarinnar, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og hagsmunasamtökum samkynhneigðra. Sérstakur starfsmaður vinni með nefndinni. Nefndin skili Alþingi skýrslu og tillögum eigi síðar en 15. janúar 2004.?

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a.: ?Hér á landi hafa verið stigin mjög mikilvæg skref í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Enn vantar þó nokkuð upp á að fullt jafnræði sé til staðar á þessu sviði og er afar brýnt að bæta þar úr. Koma hér fyrst og fremst til álita tvö atriði, í fyrsta lagi réttur samkynhneigðra til að eignast og ala upp börn og í öðru lagi réttarstaða samkynhneigðra í sambúð.? Nefndinni er m.ö.o. ætlað að leggja mat á þær takmarkanir sem eru á rétti samkynhneigðra til ættleiðinga í ljósi framfara í þeim efnum annars staðar í heiminum frá því að síðustu breytingar voru gerðar á lögum um staðfesta samvist fyrir rúmum tveimur árum. Bæði Svíar og Hollendingar hafa síðan tekið stór skref í átt til jafnréttis og sýnt að Ísland hljóti að fylgja þeim eftir. Hitt hlutverk nefndarinnar er að gera nákvæman samanburð á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð og óstaðfestri samvist og gera tillögur um það hvernig jafrétti verði náð.

Þær miklu réttarbætur sem samkynhneigðir öðluðust árið 1996 urðu ekki síst að veruleika fyrir þá rækilegu skýrslu- og nefndarvinnu sem var undanfari lagasetninganna og til var stofnað með þingsályktunartillögu 1992, svipaðri þessari sem hér er lögð fram. Sumum kann að þykja framgangsmátinn hægur en alls staðar þar sem sigrar hafa unnist hefur ítarleg rannsóknarvinna og skýrslugerð verið óhjákvæmilegur undanfari frumvarpa að lögum.

Ef svo fer fram sem horfir verður þingsályktunartillagan samþykkt á þessu þingi.

Leave a Reply