Skip to main content
Fréttir

USA – Indianapolis – Hrein og bein ?Uppáhaldsmynd ungra áhorfenda?

By 16. september, 2003No Comments

Frettir Kvikmyndahátíð lesbía og homma í Indianapolis lauk nú um helgina. Þar voru sýndar nær þrjátíu nýjar og nýlegar kvikmyndir víðsvegar að úr heiminum. Dómnefnd gagnrýnenda valdi bandarísku heimildamyndina Jim in Bold bestu kvikmynd hátíðarinnar. Hrein og bein ? sögur úr íslensku samfélagi eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur og Þorvald Kristinsson var af sjálfum áhorfendum kjörin ?Uppáhaldsmynd ungra áhorfenda? en þar lenti Jim in Bold í öðru sæti.

Val áhorfenda skipar stóran sess á hátíðinni í Indianapolis sem á þremur árum hefur fest sig í sessi og býður árlega upp á frábært úrval nýrra og nýlegra kvikmynda. Áhorfendur geta greitt atkvæði í einum átta flokkum þar á meðal ?Innovative?, ?Feel Good Film?, ?Youth Film?, ?Short Film?, ?Documentary? og ?Feature Lenght Film?.

Sagan um Jimmy Wheeler

Kvikmyndin Jim in Bold sem keppti við Hrein og bein um athygli áhorfenda í Indianapolis er eftir Glenn Holsten og segir frá ungum pilti James Wheeler. Sagan er sögð af vinum hans, fjölskyldu og kennurum. Jimmy orti ljóð og málaði myndir og átti einstaka fjölskyldu sem studdi hann og verndaði en allt kom fyrir ekki. Hann ól allan sinn aldur í smábæ í Pennsylvania-ríki og gat hvorki né vildi leyna kynhneigð sinni. Einelti í menntaskóla varð að lokum til þess að hann brotnaði undan álaginu og fargaði sér árið 1997. Sagan um Jimmy Wheeler minnir okkur á að hómófóbía getur orðið banvæn.

Fimm árum efti lát Jimmys halda þrír félagar frá tímaritinu Young Gay America í ferð um Bandaríkin með kvikmyndavél í farteskinu til að sýna og sanna að tímarnir séu að breytast. Þeir eiga viðtöl við fjölda ungra lesbía og homma sem lifa lífi sem Jimmy náði aldrei að kynnast og reyna. Átakanleg saga Jimmys og ævintýraferð vinanna þriggja yfir Bandaríkin fléttast saman í heillandi heimildaverk þar sem jafnvel 13 og 14 ára unglingar segja frá því hvernig það er að lýsa yfir samkynhneigð sinni gagnvart sínum nánustu og eignast virðingu ættingja sinna, skólafélaga og vina. Þannig er Jim in Bold í senn saga um dreng sem dreymdi um betri heim og ungt fólk sem gert hefur þann draum að veruleika.

?Jim in Bold? er nafn á einu kvæða Jimmys Wheeler sem finna má á netinu og vonandi fáum við tækifæri til að sjá kvikmyndina um hann og unglingana í Ameríku hér á landi innan tíðar.

Í Stokkhólmi og Belgrad

Af Hrein og bein eða Straight Out eins og hún nefnist á ensku er það helst að frétta að hún var sýnd á Hinsegin dögum í Stokkhólmi í sumar við skínandi undirtektir gesta. Einnig var hún sýnd á kvikmyndahátíð í Belgrad og mun ferðast áfram á fleiri kvikmyndahátíðir í haust og vetur. Íslendingarnir níu sem fram koma í myndinni ná svo sannarlega augum og eyrum heimsins þessa dagana.

Leave a Reply