Hvað er hinsegin?

Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki að viðmiðum samfélagsins um hefðbundið kyn. Til dæmis trans fólk, tvíkynhneigt fólk og samkynhneigt fólk.

Kynhneigð segir til um það hverjum fólk getur orðið skotið í, ástfangið af og laðast að. Fólk getur laðast að einhverjum af öðru kyni, af sama kyni, sumt fólk laðast að körlum og konum og sumt pælir aldrei í kyni þess sem það laðast að. Aðrir laðast ekki að neinum. Kynhneigð getur nefnilega verið alls konar, hún getur tekið breytingum og er mismunandi hjá hverjum og einum.

Gagnkynhneigð: að laðast að manneskjum af öðru kyni

Samkynhneigð: (lesbía, hommi) að laðast að manneskjum af sama kyni

Tvíkynhneigð: að laðast að tveimur kynjum

Pankynhneigð: að laðast að fólki óháð þeirra kyni (t.d. konum, körlum og fólki sem skilgreinir sig á annan hátt)

Asexúal: að laðast lítið eða ekki að öðru fólki

Fordómar ríkja í garð þeirra sem eru ekki gagnkynhneigðir (t.d. sam- og tvíkynhneigðra). Mikilvægt er að gæta orða sinna og ekki uppnefna út frá kynhneigð eða gera grín að þeim sem eru öðruvísi. Við lifum í mjög gagnkynhneigðum heimi þar sem flestir gera ráð fyrir gagnkynhneigð og þarf hinsegin fólk stöðugt að koma út úr skápnum. Góð regla er að vera opin/n fyrir fjölbreytileika, ekki ganga út frá því að allir séu gagnkynhneigðir og mundu að fólk er alls konar!

Kynvitund segir til um hvernig við viljum lifa og vera í okkar kyni. Kynvitund hefur ekki með kynfæri, líffræði eða útlit að gera, heldur með upplifun okkar af eigin kyni. Sumt fólk upplifir sig sem karla, sumt upplifir sig sem konur, sumt upplifir sig sem blöndu af hvoru tveggja, annað upplifir sig hvorki sem konu né karl. Sumt fólk fer í aðgerðir eða tekur inn hormón til að breyta líkama sínum og útliti og þannig samræma það við kynvitund sína. Annað fólk vill ekki fara í slíkar aðgerðir.

Sís-kynjun fólk sem býr yfir kynvitund og/eða kyneinkennum sem samræmast kyninu sem því var úthlutað við fæðingu(er hvorki trans né intersex)

Trans kona er kona sem var úthlutað karlkyni við fæðingu

Trans karl er karl sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu

Kynleiðrétting ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til að samræma líkama sinn og kynvitund

Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem fer út fyrir það sem er talið hefðbundið kyn, þar undir eru trans karlar og trans konur, fólk sem fer í aðgerðir, fólk sem vill ekki aðgerðir, fólk sem vill hvorki skilgreina sig sem konu né karl, eða vill blöndu af báðu.

Miklir fordómar ríkja í garð trans fólks og er mjög mikilvægt að spyrja ef þú ert óviss um nöfn og fornöfn. Trans fólk fær oft óviðeigandi spurningar en það er mikilvægt að gera ekki ráð fyrir að trans fólk vilji endilega ræða um kyn sitt, líkama eða kynjafortíð. Vertu opin/n fyrir því að kyn er ekki alltaf eins hjá öllum, það er engin ein uppskrift að kyni og ekkert rétt eða rangt þegar kemur að kyni!

Þegar börn fæðast er yfirleitt spurt, er þetta stelpa eða strákur? Þegar kemur að intersex einstaklingum er ekki alltaf augljóst svar við þeirri spurningu. Intersex er hugtak sem nær yfir fólk sem er ekki hægt að flokka líffræðilega sem annað hvort karl- eða kvenkyns. Mikilvægt er að intersex fólk fái sjálft að ákveða sitt kyn, rétt eins og annað fólk, og þá hvort og hvernig læknisfræðilegar aðgerðir það vilji gangast undir.

Sumt fólk vill láta kalla sig hann, annað hún en einnig getur verið að fólk vilji hvorki láta ávarpa sig með kvenkyns né karlkyns fornöfnum. Þá getur fornafnið hán komið að góðum notum, en það er hvorugkyns fornafn og notast á eftirfarandi hátt: Hán hló / Ég hringdi í hán / Taskan háns er þung. Mikilvægast af öllu er þó að virða óskir og val fólks á sínum fornöfnum.

 

Fyrstu skrefin

Ungliðahreyfing Samtakanna '78 er vettvangur fyrir hinsegin ungmennum á aldrinum 14–20 ára.  Tilgangur hópsins er að skapa og styrkja félagsleg tengsl milli þeirra. Hópurinn hittist vikulega, hvert sunnudagskvöld og gerir eitt og annað skemmtilegt saman.

Andrúmsloftið er mjög svipað og í venjulegum félagsmiðstöðvum eða nemendafélögum. Fundirnir byrja klukkan 19.30 og fara fram félagsmiðstöð Samtakanna '78 að Suðurgötu 3. Hafðu samband í síma 552 7878 ef þú vilt vita meira eða með því að senda ungliðahópnum tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er Ungliahreyfingin með Facebook síðu þar sem hægt er að fylgjast með því sem er á döfinni.

Við mælum með því að þú pantir viðtal hjá félagsráðgjafa í Samtökunum '78 en þeir hafa mikla reynslu í því að ræða við samkynhneigða í sömu stöðu og þú ert.  Viðtal við ráðgjafa hefur reynst mörgum vel og kærkomið tækifæri til að ræða við einhvern um tilfinningar sínar og aðstæður.  Boðið er upp á klukkutíma viðtal í 2-3 skipti í senn og eru viðtölin ókeypis.

Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa en hjá Samtökunum ’78 í síma 552 7878. Ráðgjöf sinna þær Elísabet Þorgeirsdóttir og Sigga Birna Valsdóttir.  Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Löggjöf

Lesbíur í sambúð eða hjónabandi hafa sama rétt til tæknifrjóvgunar og gagnkynhneigðar konur sem eru í sambúð eða hjónabandi. Giftir hommar og lesbíur hafa sömu réttindi og skyldur og gagnkynhneigðir sem eru vígðir í hjónaband.

Með lögum sem samþykkt voru á alþingi 27. júní 2010 gátu einstaklingar af sama kyni gengið í hjónaband líkt og gagnkynhneig pör. 

Réttur samkynhneigðra í til þess að ættleiða börn er að öllu leyti sá sami og hjá gagnkynhneigðum giftum pörum að uppfylltum þeim skilyrðum sem gilda um ættleiðingar barna.

Í kjölfar breytinga á hjúskapalögum sem gengu í gildi 27. júní 2010 óskuðu Samtökin ‘78 eftir lögfræðiáliti um áhrif breytinganna á þau pör sem áður höfðu skráð sig í staðfesta sambúð.  

Eftir breytingarnar eru nú aðeins ein hjúskaparlög í landinu. Lög um staðfesta samvist falla í raun úr gildi. Aðilar sem hafa látið staðfesta samvist sína og eru skráðir sem slíkir geta breytt þeirri skráningu í Þjóðskrá þannig að þar standi „í hjúskap“ í stað staðfestrar samvistar. Útbúið hefur verið sérstakt eyðublað í þessum tilgangi sem báðir aðilar þurfa að undirrita.

Helsta breytingin er að nú eru allir einstaklingar jafnir undir hjúskaparlögum og skiptir engu hvort maður og kona, maður og maður eða kona og kona ganga í hjúskap. Á sama tíma fellur hugtakið „staðfest samvist“ úr lögum. Allir einstaklingar sem framvegis verða gefnir saman falla nú undir ein og sömu hjúskaparlögin.

Með þessum síðustu breytingum á hjúskaparlögunum er prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga heimilt að gefa saman einstaklinga af sama kyni. Þetta er eflaust mesta breytingin og kannski sú sem sumir hafa beðið mest eftir. Til að breyta hjúskaparstöðu sinni geta pör því látið prest / forstöðumann trúfélags gefa sig saman og gildir þá könnunarvottorð það sem lagt var fram fyrir staðfestingu samvistar.  

Að öðru leyti verða ekki miklar efnislegar breytingar vegna þessara nýjustu breytinga á hjúskaparlögunum þar sem samkynhneigðir höfðu fengið réttarbætur og jafna stöðu á við fólk í hjúskap á liðnum árum. Breytingarnar hafa þó mikla þýðingu fyrir marga.

Samantekt:
Lög um staðfesta samvist falla niður og allir einstaklingar sem gefnir hafa verið saman eða verða gefnir saman falla undir ein sameiginleg hjúskaparlög.

Aðilar þurfa að hafa frumkvæði að því að láta breyta skráningu úr staðfestri samvist í hjúskap, annaðhvort með því að fylla út þar til gert eyðublað eða láta prest / forstöðumann trúfélags gefa sig saman.

 

 
 

Heilsa

HIV (Human Immunodeficiency Virus) er veira sem berst milli einstaklinga með sæði, leggangaslími og blóði og brýtur niður ónæmiskerfi* líkamans á löngum tíma. Einstaklingar með HIV verða venjulega ekki veikir fyrstu árin eftir að þeir smitast, en smám saman vinnur veiran á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið. Þeir sem eru smitaðir af HIV eru alltaf með veiruna í líkamanum og geta smitað aðra það sem eftir er ævinnar (texti fengin frá HIV-Ísland, www.hiv-island.is)

HIV getur smitast frá karli til konu, frá konu til karls og frá karli til karls. Meiri líkur eru á smiti ef annar eða báðir aðilar hafa aðra kynsjúkdóma. Munnmök geta líka valdið smiti, það er að segja ef snerting verður á milli kynfæra og munns/tungu. Þetta á sérstaklega við ef rispur eða sár eru í munni eða á kynfærum.

HIV smit getur átt sér stað:

 • við óvarðar samfarir konu og karls eða tveggja karla.
 • við beina snertingu við veiruna í gegnum blóð, sæði eða leggangaslím,
 • við deilingu sprautunála sem eru mengaðar af HIV,
 • við blóðgjöf, ef blóðið er sýkt af HIV.
 • frá móður til barns á meðgöngu, við fæðingu eða brjóstagjöf. 

HIV smitast ekki við venjulega umgengni:

 • Í gegnum heilbrigða húð
 • Með lofti og vatni. 
 • Með flugnabiti. 
 • Með mat og drykk. 
 • Með glösum, diskum og þess háttar. 
 • Með sængum, handklæðum og þess háttar. 
 • Af salernissetum eða baðkörum. 
 • Með kossum. 
 • Með hnerrum og hósta. 
 • Með svita. 
 • Með hori og tárum.
 • Með handabandi.

Heimild: HIV-Ísland, www.hiv-island.is

Þú veist aldrei hvort sá sem þú sefur hjá er HIV-jákvæðir eða ekki. Eina vörnin sem þú getur veitt sjálfum þér er að stunda ábyrgt og öruggt kynlíf og nota smokkinn og/eða mottu undantekningalaust.  Settu þér einfaldar og öruggar reglur í kynlífi sem þú víkur ekki frá. Hafðu smokkinn og/eða mottuna alltaf til taks í vasanum. 

 • Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH), Þverholti 18, 105 Reykjavík, sími: 543 6050 (panta þarf tíma milli kl. 8.00 og 9.00).
 • Göngudeild smitsjúkdóma LSH, Fossvogi, 108 Reykjavík, sími: 543 2040 (panta þarf tíma).
 • Rannsóknastofu LSH, Fossvogi, sími: 543 5600. Hægt er að fá próf án þess að panta tíma alla virka daga kl. 8:00 - 18:00
 

Aðstandendur

FAS eru sjálfsprottinn félagsskapur  foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. FAS hittist reglulega í Samtökunum '78 og stendur fyrir ýmsum samkomum og fræðslufundum þar sem gefst tækifæri að hitta foreldra og aðstandendur sem deilir sameiginlegri reynslu.

FAS heldur úti vefsíðu með frekari upplýsingum, www.samtokinfas.is

Aðstandendur og vinir geta leitað til Samtakanna '78 en hjá félaginu starfa félagsráðgjafar sem hafa mikla reynslu í því að ræða við aðstandendur samkynhneigðra. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa í síma 552 7878.

Til að taka fyrsta skrefið og nálgast sína líka finnst mörgum mikilvægt að geta rætt um líðan sína og tilfinningar í síma. Símtal til Samtakanna ´78 er oft fyrsta tækifærið til að ræða tilfinningamálin án þess að þurfa að koma fram og segja hver maður er.  Eins færist það í vöxt að aðstandendur hafi sambandi vegna þeirra fjölmörgu spurninga sem geta vaknað.

Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Samtakanna '78 í síma 552 7878 á opnunartíma. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpósts þjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

 

Almennt

Af hverju eru hommar svona mikið á móti keppnisíþróttum? Og er það satt að flestar stelpur í fótboltanum séu lesbíur?

Meira