Skip to main content
search

Leifð

Leifð er heiti á sýningu Regns sem er næsta sýning
í Galleríi 78

Í leifð rannsakar Regn hár hinsegin fólks með áherslu á sjálfsmynd og neyslu. Verkefnið samanstendur af viðtölum við 21 hinsegin manneskjur og 21 plöstuðum hárlokkum. Í viðtölunum eru eftirfarandi spurningar: Hvað leggur þú mikinn tíma, pening og vinnu í hárið þitt? Hvað þýðir hárið þitt fyrir þig sem hinsegin manneskju?

Með þessum spurningum veltir Regn því fyrir sér hvort það sé einhver samrómur í upplifunum hinseginfólks varðandi hár þess, en Regn hefur mikinn áhuga á sameiginlegum upplifunum jaðarhópa í samfélaginu.

Leifð er eitthvað sem við skiljum eftir, og er líka viðskeyti í orðinu arfleifð. Hár lifir okkur af, og oft erum við þekkt fyrir einkennandi hár, sem verður eftir í minni fólks. Þess vegna er hár arfleifð okkar, sérstaklega sem hinsegin fólk, sem oft og tíðum eru með hár sem ögra kynhlutverkum fólks í sís-heterónormatívu samfélagi okkar.

Það sem laðar Regn að hári eru hégómlegir eiginleikar þess. Hár er mikilvægt tákn fyrir sjálfsímynd fólks og vörpun hennar til samfélagsins. Hégómi getur verið leið að listrænni sjálfstjáningu. Með hári erum við stöðugt að senda skilaboð til annarra, um hver við erum og hvernig við viljum að fólk upplifi okkur. Þetta á einkum við hinsegin fólk, því skilaboðin sem við sendum með hárinu er oft á tíðum svo að við þekkjum hvort annað frá hinum.

Hárið er mikilvægt fyrir einstaklinginn vegna þess að það hefur allskonar mismunandi, en mikilvæga gildishleðslu. Hár getur verið tákn um menningararfleifð, tákn um kynvitund, aldur, ætterni, þjóð, kynþátt og kynhneigð. Hár hefur þess vegna margþætta tengingu við sjálfsímynd fólks.

Regn er fyrsta árs nemandi við Listaháskóla Íslands í myndlistadeild, og er þetta fyrsta einkasýning háns. Hán hefur áður sýnt á nokkrum samsýningum, t.d. á LungA, samsýningunni “the intimacy of banality” sumarið 2019 og “Sóttkvíði” í Kolaportinu maí 2020. Hán vinnur einna mest með sjálfið og pólitík, og samhengið á milli hins persónulega og pólitíska.