Skip to main content
search
Fréttir

Stefnumót við frambjóðendur

By 13. maí, 2014No Comments

Í tilefni IDAHOBIT – Alþjóðadags gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki þann 17. maí næstkomandi bjóða Samtökin ’78 til stefnumóts við frambjóðendur til borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni hinsegin fólks.

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg farið fram af krafti í baráttunni fyrir bættum mannréttindum, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur um heim allan.

Það er okkur hjá Samtökunum ´78 mikilvægt að þekkja hug og stefnu frambjóðenda til borgarstjórnar vorið 2014, ekki síst þegar kemur að mannréttindum og málefnum hinsegin fólks. Því hafa Samtökin ´78 ákveðið að bjóða til mannréttindastefnumóts við frambjóðendur laugardaginn 17. maí* næstkomandi í Regnbogasal Samtakanna ´78, Laugavegi 3, 4. hæð.

Áætlað er að fundurinn hefjist kl. 13.00 og standi í tæpar tvær klukkustundir. Í stað hefðbundinna pallborðsumræðna verður fundurinn með eins konar þjóðfundarfyrirkomulagi, þar sem fundinum er skipt upp í nokkrar umræðustöðvar eftir málaflokkum. Frambjóðendur flakka á milli þessara umræðustöðva með reglulegu millibili og ræða viðkomandi málefni. Það má segja að þetta verði einskonar félagsvist. Umræðustjóri verður á hverju málefnaborði. Málefnaflokkar og nánari dagskrá verða auglýst þegar nær dregur.

Það er von okkar að sjá ykkur sem flest á þessum degi en fulltrúar framboðanna eru þegar farnir að staðfesta komu sína.

Öll hjartanlega velkomin!

*Alþjóðlegur baráttudagur gegn fordómum gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki er haldinn 17. maí ár hvert, en þann dag árið 1990 var samkynhneigð tekin út af sjúkdómalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Leave a Reply