Skip to main content
search
Fréttir

Stella Hauks – Útgáfutónleikar á Rosenberg

By 21. nóvember, 2013No Comments

Stella Hauks varð sextug á dögunum og áfanganum fagnar hún með því að senda frá sér sinn annan hljómdisk með sínum eigin lögum við eigin ljóð. Að því tilefni efnir hún til útgáfutónleika föstudaginn 22. nóvember kl. 22 á Rosenberg við Klapparstíg.

Nýi diskurinn hennar Stellu ber heitið Trúður í felum og mikið einvalalið tónlistarfólks leggur henni lið, þar á meðal Andrea Gylfa, Tommi Tomm, Eddi Lár, Magnús R. Einarsson, Gísli Helgason og Hilmar Örn Hilmarsson svo fáeinir séu nefndir en alls kemur tugur tónlistarfólks að verki með Stellu.

Í bráðum fjörutíu ár hefur Stella lagt mannréttindum lið með beittum söngvum sínum sem orðið hafa fleygir og farið víða. Hún hefur aldrei hikað við að tjá eigin tilfinningar í kveðskap sínum og vann á árum áður það afrek að verða fyrst íslenskra söngvaskálda til að yrkja og syngja opinberlegar um ástir kvenna til kynsystra sinna, hugrökk og einlæg á tímum þegar það kostaði lesbíur kjark og þor að standa við tilfinningar sínar frammi fyrir heiminum.

Við óskum Stellu hjartanlega til hamingju með nýja diskinn og hvetjum alla til að fjölmenna á Rosenberg á föstudagskvöld.

Leave a Reply