Skip to main content
search

Á undanförnum árum hefur orðið sprenging í starfsemi Samtakanna ´78  – Félags hinsegin fólks á Íslandi en hagsmuna- og baráttusamtökin hafa að markmiði bæta réttindi hinsegin fólks á landinu. Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla að undanförnu hafa áhyggjur vaxið af andúð í garð hinsegin fólks. Það stendur Brimborg nærri að leggja sitt af mörkum til öruggari umhverfis og verða öðrum hvatning til að gera hið sama en Brimborg hefur um árabil haft öryggi að leiðarljósi í starfsemi sinni.

Slagorð Brimborgar er eitt það þekktasta: Öruggur staður til að vera á, og í krafti þess og til stuðnings við fjögur af heimsmarkmiðum fyrirtækisins, heilsu og vellíðan (3),  jafnrétti kynjanna (5), aukinn jöfnuð (10) og frið og réttlæti (16), styrkir Brimborg Samtökin ´78  um þrjár milljónir króna í þágu öruggara umhverfis til handa hinsegin fólki.

„Félagslegur hreyfanleiki er einn dýrmætasti eiginleiki nútíma samfélags og aðeins er hægt að vernda hann með því að byggja á grundvallarþáttum eins og öryggi í mannlegum samskiptum, siðferðislegri fyrirhyggju, jafnrétti og virkri þátttöku í samfélaginu. Okkur rennur því blóðið til skyldunnar að hjálpa til, sérstaklega þegar hallar á hóp í samfélaginu sem á allt sitt undir virku lýðræði og mannréttindum,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

„Þetta er okkur gríðarlega mikilvægur stuðningur. Með aukinni vitund fólks um fjölbreytileika mannfólksins hefur verið mikil fjölgun í okkar röðum síðustu árin. Aukningin lætur nærri því að vera 700% síðustu sex ár sem hefur í för með sér óæskilegan biðtíma m.a. í mikilvæga ráðgjöf og aðra þjónustu sem við veitum. Á sama tíma verðum við að reyna að sinna fræðslu því upplýsingin er besta leiðin til að sporna við fordómum og upplýsingaóreiðu,“ segir Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78 .

Féð mun eins og áður segir nýtast í fjölbreytta ráðgjöf samtakanna, aðra þjónustu og upplýsingamiðlun. Vert er að minna á verkefni Samtakanna ´78 , Regnbogavinir, sem miðar m.a. að því að skapa skilning og umburðarlyndi íslensku samfélagi til heilla en þar er hægt að styrkja samtökin til góðra verka og skapa öruggara umhverfi á Íslandi fyrir hinsegin fólk.