Skip to main content
search
Fréttir

Til styrktar Samtökunum ´78 – Beyglur með öllu

By 23. febrúar, 2003No Comments

Tilkynningar Sýning þessi er haldin til styrktar Samtökunum ´78 og verð miða á hana er 2000 kr. en af verði hvers miða renna 400 kr. til félagsins. Miðar eru seldir á skrifstofu Samtakanna ´78 síðdegis alla þessa viku (sími 552 7878) og á bókasafni félagsins fimmtudagskvöldið 27. febrúar. Einnig er hægt að kaupa miða við innganginn, en ekki er að treysta því að þá verði neitt eftir. Þeir fá sem fyrstir kaupa!

Bjór verður á tilboði fyrir og eftir leiksýningu (400 kr. stór bjór). Tjarnarbakkinn Restaurant býður gestunum einnig 20% afslátt af matseðli þetta kvöld.

Beyglur með öllu er meinfyndið verk fyrir bæði kynin þar sem fjallað er um konur af öllum stærðum og gerðum við hinar ýmsu aðstæður, aðstæður sem flestar ef ekki allar konur hafa upplifað. Verkið kitlar hláturtaugarnar, enda fyndið, áleitið og frumlegt. Sýningin hlífir engum og sýnir að konur geta og eiga svo sannarlega að gera grín að sjálfum sér og öllum sínum ytri og innri kreppum. Eða eins og leikstjóri sýningarinnar kemst að orði: ?Konur hafa grátið í 2000 ár, nú er kominn tími til að hlæja.?

Skjallbandalagið stendur að þessari frábæru sýningu. Það eru þær Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Jónas og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Leikstjóri er María Reyndal.

Úr leikdómum:

?Skjallbandalagsstúlkur ná mjög vel saman í leik. Þeim finnst gaman að ganga fram af fólki og lætur þeim best að fjalla um þá líkamshluta sem konur hafa fram yfir karlmenn. Það sem öllu máli skiptir er að hér er á ferðinni ferskt efni sem hrærir hláturstrengina. Sýningin boðar nýtt skref fram á við í réttindabaráttu íslenskra kvenna . . . sýningin er stutt – enda engum hollt að hlæja samfellt í lengri tíma en hægt er að byggja sig upp fyrir átökin með því að borða góðan mat í fallegum salarkynnum Tjarnarbakkans.?
(S.H. Morgunblaðið)

?Þegar þjóðfélagshópur er að berjast fyrir því að vera tekin alvarlega er kannski ekki hægt að ætlast til þess að hann þori að gera grín að sjálfum sér eða þoli að gert sé grín að honum. Þannig var staðan hjá konum lengi vel en ekki lengur, það sýna Beyglur með öllu. Þær geta búið til þessar sprenghlægilegu persónur og skapað þær sprelllifandi á sviðinu. Boðskapurinn er ljós: Konur geta allt og það þarf ekki að vorkenna þeim.?
(S.A. DV)

AÐEINS ÞESSI EINA STYRKTARSÝNING ? LAUGARDAGSKVÖLDIÐ 1. MARS.

Leave a Reply