Skip to main content
search
Fréttir

Svar við minnisblaði til stjórnar

Stjórn hefur móttekið minnisblað frá Hverjum röndóttum – áhugahópi um framtíð Samtakanna ’78 en undir minnisblaðið rita átta félagar í samtökunum. Í minnisblaðinu er þess meðal annars krafist að núverandi stjórn Samtakanna ´78 víki fyrir þeirri stjórn sem kjörin var árið 2015 og að sú stjórn boði til nýs aðalfundar sem fyrst. Stjórn sér sér ekki fært að verða við þeim áskorunum og telur þá leið ekki vænlega til að lægja öldur og byggja upp starf félagsins. Svar stjórnar má sjá í heild sinni hér.

Reykjavík 6. maí 2016

Stjórn Samtakanna ‘78 þakkar ykkur kærlega fyrir þann áhuga sem þið sýnið starfi félagsins. Undirstaða hvers félags eru öflugir og virkir meðlimir sem Samtökin ‘78 búa svo vel að hafa. Markmið stjórnar er að leiða áfram það farsæla og öfluga starf sem unnið hefur verið á vettvangi Samtakanna ‘78 frá stofnun þeirra.

Félagsfundur var haldinn þann 9. apríl 2016 í kjölfar þess að lögmæti aðalfundar 5. mars 2016 var véfengt og að stjórn barst undirskriftalisti þar sem félagsfundar var krafist. Vert er að geta þess að lögfræðiálit um að aðalfundurinn hafi verið ólögmætur liggur ekki fyrir, en stjórn bárust óformlegar ábendingar um að hægt væri að véfengja lögmæti fundarsins vegna þess hvernig staðið var að boðun hans. Fyrir félagsfundinum þann 9. apríl lá að ákvarða næstu skref í ljósi þessara upplýsinga en lög félagsins gefa engar vísbendingar um hvað gera skuli í þessari stöðu. Voru þar settar upp tvær leiðir: annars vegar að félagsfundurinn myndi staðfesta eða synja ákvörðunum hins véfengda aðalfundar, og hins vegar að blásið yrði til nýs aðalfundar. Atkvæði féllu þannig, á þessum afar fjölmenna fundi, að ákveðið var að félagsfundurinn myndi greiða atkvæði um ákvarðanir aðalfundarins fremur en að boðað yrði til nýs aðalfundar. Allar ákvarðanir aðalfundarins voru staðfestar.
Stjórn hefur því haft það að leiðarljósi frá fyrsta degi að þar sem lagaákvæðum félagsins sleppir taki vilji félagsfólks við, eins og hann er lýðræðislega tjáður á félagsfundum. Stjórnin mun leggja sig fram eftir sem áður um að starfa áfram í samræmi við lög og vilja félagsfólks.

Bæði yfirlýsingu stjórnar og fundargerð fundarins má sjá á heimasíðu félagsins.

Við ferli þetta hefur stjórn haft það að leiðarljósi að ákvarðanirnar séu teknar á lýðræðislegan og upplýstan hátt. Með það að markmiði voru ákvarðanir um næstu skref í ferlinu, eftir að aðalfundur hafði verið véfengdur, lagðar í hendur félagsfólks á félagsfundi.
Stjórn álítur sig ekki hafa umboð til að fara á móti vilja meirihluta félagsmanna á félagsfundi, enda segir í lögum félagsins að hann fari með æðsta vald félagsins á milli aðalfunda.

Hvað varðar áskorun til stjórnar um að hún víki vísum við á ný til félagsfundar þann 9. apríl þar sem stjórnarkjör aðalfundarins þann 5. mars var staðfest með yfirgnæfandi meirihluta. Núverandi stjórn hefur einnig haft samband við þá fjóra meðlimi fyrrverandi stjórnar sem ekki sitja í núverandi stjórn. Þau líta á núverandi stjórn sem réttkjörna stjórn Samtakanna ´78 og álíta sig ekki hafa umboð til að boða til nýs aðalfundar.
Það að nýr aðalfundur væri boðaður og stjórn viki væri því að mati stjórnar ólýðræðisleg leið sem ekki væri til þess fallin að sætta ólík sjónarmið innan félagsins. Þvert á móti gæti sú leið orðið til þess að skapa vantraust félaga á að ákvarðanir félagsfundar og lýðræðislegra kosninga séu virtar.

Vegurinn framundan

Ljóst er að mikil vinna liggur fyrir dyrum við að sætta ólíkar fylkingar innan Samtakanna ´78. Stjórn er einhuga um að leggja sig fram við þá vinnu hér eftir sem hingað til. Óskum við eftir virku samtali á milli hópanna, bæði sín á milli en einnig við stjórn og aðra kjörna fulltrúa félagsins. Undanfarnar vikur hefur stjórn haft samráð við ýmsa hópa, meðal annars trúnaðarráð Samtakanna ‘78 og fulltrúa stjórna allra hagsmunafélaga samtakanna.

Að loknu þessu samráðsferli hefur stjórn ákveðið að boða til félagsfundar þann 18. maí næstkomandi. Þar er ætlunin að félagsfólk vinni saman að starfsáætlun félagsins næsta árið. Á fundinum verður nokkurs konar þjóðfundarfyrirkomulag þar sem allir munu hafa tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og til vinnslu innan félagsins. Einnig verður óskað eftir fólki í sjálfboðastörf innan félagsins.

Á félagsfundinum mun stjórn einnig óska eftir að kosin verði sex manna lagabreytinganefnd sem hefur það að markmiði að skila tillögum að endurskoðuðum lögum Samtakanna ‘78. Þau munu starfa ásamt fulltrúa stjórnar í nefndinni. Laganefnd þessi mun skila tillögum fyrir aðalfund í mars 2017. Viðfangsefni laganefndarinnar er að hefja víðtækt samráðsferli með heildarendurskoðun laga Samtakanna ’78 að markmiði. Sérstaklega yrði skoðuð fyrsta grein laganna, er snýr að markmiðum samtakanna, en einnig aðrar greinar og tæknilegir annmarkar þeirra.

Mælst er með því að utanaðkomandi aðili, sem lagabreytinganefn
d kemur sér saman um, verði henni innan handar og aðstoði við endurskoðun á lögunum.

Nánari dagskrá fundarins verður auglýst ásamt kalli eftir framboðum í lagabreytinganefnd. Er það ósk okkar að félagar úr hópnum Hver röndóttur sjái sér fært að taka þátt í þessu starfi sem miðar að því að græða sár og sætta hópa, hinsegin samfélaginu til hagsbóta.

Virðingarfyllst,

Ásthildur Gunnarsdóttir, varaformaður
Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, gjaldkeri
Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður
Júlía Margrét Einarsdóttir, ritari
Kitty Anderson, alþjóðafulltrúi
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, meðstjórnandi
Unnsteinn Jóhannson, meðstjórnandi

 

 

 

Leave a Reply