Skip to main content
search
Fréttir

Svíar breyta hjúskaparlögum

By 2. apríl, 2009No Comments
Sænska þingið hefur samþykkt ný hjúskaparlög sem heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Með nýjum lögum falla eldri lög um staðfesta samvist úr gildi. Hin nýja löggjöf skilgreinir þannig hjónabandið sem sáttmála milli tveggja einstaklinga en kynið skiptir ekki lengur máli. 

Allir flokkar nema Kristilegir demókratar komu að því að semja frumvarpið. Það var svo samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta eða 261 atkvæði. Aðeins 21 þingmaður Kristilegra demókrata lagðist gegn því og einn þingmaður Miðflokksins. 16 sátu hjá.
Sænska kirkjan ákveður fyrst í haust hvort hún heimili að samkynhneigð pör verði gefin saman í kirkjum landsins. Samkvæmt nýju lögunum halda trúfélög hjónavígslurétti sínum en nú gildir það sama um sænsku kirkjuna og önnur trúfélög. Hún þarf að sækja um vígsluleyfi hjá yfirvöldum. Ef kirkjan gerir það, og um það er deilt innan kirkjunnar, er það hver prestur fyrir sig sem ákveður hvort hann gefi samkynhneigða saman eða ekki (RÚV segir frá, www.ruv.is)
Það skref sem Svíar hafa stigið er í takt við þá skoðun Samtakanna’78 að það sé rökrétt og eðlilegt framhald að afnema lögin um staðfesta samvist hér á landi og sameina hjúskaparlöggjöfina í eina. Engin rök eru fyrir tvískiptri hjúskaparlöggjöf þar sem réttindi og skyldur eru allar hinar sömu. Nú þegar hafa nokkrir íslensku stjórnamálaflokkanna tekið afstöðu til málsins og eru samstíga Samtökunum ’78 í þessum efnum. Ef hugur fylgir máli ætti því að sjá fyrir endann á tvískiptri hjúskaparlöggjöf á komandi kjörtímabili hverjir svo sem munu taka við stjórnartaumunum að loknum kosningunum í vor. 
 
-FJ

Leave a Reply