Skip to main content
search
Fréttir

Þerraðu aldrei tár án hanska

By 9. desember, 2014No Comments

Það er ekkert sérlega oft sem sjónvarpsefni hreyfir við mér. Það er ekki sérlega oft sem ég græt yfir bíói. En ég gerði það í gær og ég gerði það aftur í kvöld. Í gær sá ég nefnilega fyrsta þáttinn í trílógíunni Þerraðu aldrei tár án hanska eftir Jonas Gardell á RÚV. Og í kvöld fór ég á ríkissjónvarpið sænska á netinu og horfði á restina. Ég gat ekki beðið. Ég er nær orðlaus. Og skil ekki af hverju ég var ekki búinn að lesa bækurnar. Sjá þættina.

Því þetta er saga um ástina. Sjúkdóminn. Og dauðann. Líf og dauða allra þessara ungu fallegu manna sem urðu alnæminu að bráð. Líf og sorg eftirlifendanna. Sorgina og höfnunina. Sorgina og útskúfunina. Þessa kúgandi útskúfun. Þessa þrúgandi þögn. Þrúgandi helvítis þögn.

Það var ekki bara lífið sem hafnaði þeim. Það var samfélagið. Kerfið. Sjúkrahúsið. Pabbi. Mamma. Systkin. Trúin. Fáir þorðu að tala. Ekki tala! Fáir þorðu að snerta. Ekki snerta! Fáir þorðu að hjúkra. Ekki hjúkra!

Ekki líkna!

Ekki elska!

Ekki þerra tárin!

Þerraðu ekki tárin án hanska!

Nema sumir. Ástvinirnir sem stóðu vaktina. Frá dagrenningu til sólarlags. Í gegnum nóttina. Í gegnum þrautirnar. Í gegnum lífið. Í gegnum dauðann. Þeir þorðu að tala. Þeir þorðu að snerta.

Hjúkra.

Líkna.

Elska.

Þeir þerruðu tárin án hanska.

Þeir þerruðu tár ungu fallegu mannanna. Mannanna sem var hafnað í lifanda lífi. Sem var hafnað á dánarbeði. Ungu fallegu mannanna sem visnuðu áður en þeir náðu að springa út. Hafnað í dauða sínum. Faldir. Þaggaðir.

Hafnað.

Settir í poka og skilmerkilega merktir ‘sjúkdómshætta!’

Ástvinir fylgja þeim til grafar. Aftur. Og aftur. Ef þeim leyfist það náðarsamlegast. Ef fjölskyldan hefur ekki dæmt þá óverðuga. Skítuga. Öfugugga. Því ástvinirnir eru engu skárri.

Þeirra tár verða heldur ekki þerruð án hanska.

Ég hvet alla til að horfa og kalla mig svo væminn. Þetta er einfaldlega saga sem ekki má gleymast. Aldrei. Þættir tvö og þrjú verða sýndir sunnudagskvöldin 14. og 21. desember nk. Fyrir þau sem ekki geta beðið bendi ég á sænska ríkissjónvarpið

Leave a Reply