Skip to main content
search
Fréttir

Tilkynning varðandi lögmæti aðalfundar Samtakanna ´78

By 10. mars, 2016No Comments

Stjórn Samtakanna ´78 vill koma á framfæri eftirfarandi tilkynningu er varðar lögmæti aðalfundar sem haldinn var 5. mars síðastliðinn

Vegna kjörs á BDSM á Íslandi sem aðildarfélags að Samtökunum ´78 hefur því meðal annars verið velt upp hvort það hafi verið brot á lögum félagsins að leggja umsóknina fyrir aðalfund til atkvæðagreiðslu. Stjórn hefur leitað til Bjargar Valgeirsdóttur, lögmanns, og hefur hún útbúið minnisblað þar sem hún leitar svara við eftirfarandi spurningu: ,,Var stjórn Samtakanna ’78 skylt að leggja umsókn BDSM á Íslandi fyrir aðalfund samtakanna þann 5. mars 2016”. Í minnisblaðinu er ítarlega farið yfir öll gögn málsins en niðurstaða þess er sú að ,,samkvæmt skýru orðalagi ákvæðis 2.4 í lögum Samtakanna ’78, var stjórn Samtakanna ’78 skylt að leggja umsókn BDSM á Íslandi fyrir aðalfund og geta hennar í fundarboði.” Lesa má minnisblaðið í heild sinni hér. 

Við skoðun á lögmæti aðalfundarins að öðru leyti kom í ljós formgalli á boðun fundarsins. Í lögum félagsins, ákvæði 3.1., segir að boða skuli til fundarins bréflega. Við boðun aðalfunda undanfarin ár hefur þetta ákvæði verið túlkað sem svo að tölvupóstur til þeirra félaga sem hafa skráð tölvupóstfang uppfylli kröfur. Í óformlegum ábendingum lögmanns okkar kemur fram að „bréflega“ sé almennt túlkað sem pappírspóstur. Sú lagatúlkun sé æðri hefðum félagsins.

Þá kom einnig í ljós að umsóknar HIN – Hinsegin Norðurland var ekki getið í fyrsta fundarboði aðalfundar sem sent var út 6. janúar, enda hafði umsóknin á þeim tímapunkti ekki borist. Það er brot á grein 2.4. í lögum samtakanna.

Í ljósi þessara niðurstaðna mun stjórn leggja til, á opnum fundi í kvöld, að boðað verði til félagsfundar sem haldinn yrði þann 31. mars næstkomandi. Skráð félagsfólk sem greitt hefur ársgjald ársins 2016 hefði rétt til setu á fundinum og kosningarétt. Fundurinn, fyrirkomulag hans og dagskrá yrði nánar auglýst síðar. Boðað yrði til fundarins í tölvupósti og tilkynningu á heimasíðu félagsins enda gera lög félags ráð fyrir að félagsfundir séu boðaðir skriflega (ekki bréflega). Efni þess fundar yrði að samþykkja eða synja eftirfarandi ákvörðunum aðalfundar:

1. Kosning eftirfarandi aðila til stjórnar (sameiginleg atkvæðagreiðsla fyrir alla aðila)

  • Formaður: Hilmar Hildar Magnúsarson
  • Varaformaður: Ásthildur Gunnarsdóttir
  • Gjaldkeri: Heiður Friðbjörnsdóttir
  • Ritari: Júlía Margrét Einarsdóttir
  • Alþjóðafulltrúi: Kitty Anderson
  • Meðstjórnandi: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir
  • Meðstjórnandi: Unnsteinn Jóhannsson

2. Kosning trúnaðarráðs (sameiginleg atkvæðagreiðsla fyrir alla aðila)

  • Auður Emilsdóttir
  • Benedikt Traustason
  • Daníel Arnarsson
  • Hafsteinn Himinljómi Sverrisson
  • Kjartan Þór Ingason
  • María Helga Guðmundsdóttir
  • Óskar Steinn Ómarsson
  • Sigurður Þorri Gunnarsson
  • Sólveig Rós
  • Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

3. Kosning skoðunarmanna reikninga (sameiginleg atkvæðagreiðsla fyrir báða aðila)

  • Sigurjón Guðmundsson
  • Sverrir Jónsson

4. Aðild HIN – Hinsegin Norðurlands að Samtökunum ´78

5. Aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ´78 

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir félagsfólk okkar. Er það tillaga nýrrar stjórnar að í framhaldinu verði komið á fót lagabreytinganefnd sem myndi vinna að heildarendurskoðun laganna. Þá sérstaklega að þeim hluta laga félagsins er varða boðun aðalfundar og að skoða heimild til boðunar aukaaðalfundar. Stjórn vonast til að með þessari tilkynningu skapist friður um starf samtakanna og að félagsfólk geti haldið áfram að vinna í einingu að mannréttindum hinsegin fólks.

Kærar kveðjur

Stjórn Samtakanna ´78
 

Leave a Reply