Skip to main content

Aðgerðaráætlun gegn ofbeldi

Samtökin ’78 líða ekki ofbeldi að neinu tagi innan sinna raða. Því settum við okkur metnaðarfulla aðgerðaráætlun til að sporna við því

Fyrirvari

Aðgerðaráætlun þessi skal vera notuð til að bregðast við ofbeldismálum sem geta komið upp á milli félagsmanna Samtakanna ‘78. Hafa ber í huga að aðgerðaráætlunin sjálf fyrirbyggir ekki ofbeldismál og er aðeins verkfæri til að leiða þau mál til lykta sem kunna að koma upp. Með aðgerðaráætluninni á fyrst og fremst að tryggja stöðu brotaþola og einnig að koma í veg fyrir að ofbeldismál séu óuppgerð innan Samtakanna ‘78. Aðgerðaráætlunin er lifandi skjal og er alltaf í vinnslu og mótun.

Ef um neyðartilvik er að ræða þá skal hafa samband við lögreglu.

Tilkynna

Fagráð

Hlutverk Samtakanna ‘78 er að standa vörð um hagsmuni félaga Samtakanna ‘78. Samtökin ‘78 líða ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfs og telja mjög mikilvægt að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur.

Á vegum Samtakanna ‘78 starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar ofbeldismál sem koma upp innan þeirra Samtakanna ‘78.

Fagráðið er skipað þremur einstaklingum, tveimur óháðum sérfræðingum tilnefndum af Samtökunum ‘78 auk fulltrúa Samtakanna ‘78. Í fagráðinu sitja alltaf tveir óháðir sérfræðingar sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við meðferð ofbeldismála. Þegar tilkynning kemur til fagráðsins er framkvæmdastjóri eða formaður, eftir því sem tilkynningin varðar, kallaður inn í fagráðið og tekur hann þá sæti í fagráðinu við meðferð málsins. Þannig situr framkvæmdastjóri eða formaður sem þriðji einstaklingur í fagráðinu.

Sé framkvæmdastjóri eða formaður Samtakanna ‘78 vanhæfur skal annar stjórnarmeðlimur innan Samtakanna ‘78 taka sæti í fagráðinu. Í ákveðnum tilvikum getur fagráðið ákveðið að fulltrúi Samtakanna ‘78 taki ekki þátt í málsmeðferð. Í þeim tilvikum getur fagráðið kallað annan óháðan aðila inn í fagráðið ef þörf er á.

Fagráðið tekur við öllum tilkynningum um ofbeldismál sem koma upp í starfi Samtakanna ‘78 og og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið brotaþolum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.

Fagráðið tekur einnig á eineltismálum sem upp koma innan Samtakanna ‘78. Hlutverk fagráðsins í eineltismálum er annars vegar að leita viðunandi niðurstöðu í málum með sáttum sé þess nokkur kostur og hins vegar að veita félögum ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli.

Katrín Oddsdóttir og Karitas Hrund Harðardóttir skipa fagráð Samtakanna ’78 frá árinu 2024.